31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (3829)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég vil benda hv. 1. þm. S.-M. á það, að það er ekki sök okkar flm. þessarar till., að hún kom hér fram í báðum d., heldur er það sök stj.flokksins, sem lét vísa henni frá atkv. í Sþ. Að hún kemur fram í báðum d., er ekki annað en tilraun til að koma málinu fram, þrátt fyrir andúð stj.flokksins. Hv. þm. var á sínum tíma flm. að samskonar till. um n.skipun, þótt honum sé nú snúinn svo hugur, að honum finnist þingn. ekkert geta starfað. (SvÓ: Hvaða till. var það?). Ég á við þáltill. þá um n.skipun, svipaða og þá, er hér um ræðir, sem hv. þm. flutti á þingi 1922. Ef hann er búinn að gleyma þessu, þá skal ég lofa honum að heyra till. og eins það, hverjir voru flm. Með leyfi hæstv. forseta:

Till. til þál. um skipun n. til að samræma fjárhagsástæður ríkisins og gera till. út af því. Flm.: Sveinn Ólafsson, Sigurjón Friðjónsson, Þorl. Jónsson, Stefán Stefánss., Guðm. Ólafsson, Einar Árnason.

Alþingi ályktar að skipa 5 manna n. til að rannsaka fjárhagsástæður ríkisins og gera till. um sparnað á ríkisfé, svo sem niðurlagningu miður nauðsynlegra embætta, sameiningu þeirra opinberu starfa, sem samrýmanlegir eru, niðurfærslu skrifstofukostnaðar ýmsra opinberra stofnana, burtfellingu eða niðurfærslu verðstuðulsuppbótar, þar sem hún er ekki lögmælt, m. m.“.

Vona ég, að hv. þm. muni nú, hver n. var. Annars er rétt að geta þess, að þessu var öðruvísi tekið á þingi 1922 en nú. Var ekki lengi þvælzt með hana, eins og þingtíðindin bera með sér, því að till. var tekin upp á 2. fundi í Sþ. (hvernig ræða skyldi), og á 3. fundi var hún samþ. og n. sett á laggirnar. Get ég þessa til samanburðar á því, hvernig þáv. og núv. stj. hafa tekið þessu máli, því að nú er liðinn nær mánuður síðan till. kom fram. Var það ráð fundið af Framsóknarfl. að láta forseta Sþ. vísa henni frá atkvgr. 21. marz, og urðum við þá að hefja baráttuna af nýju.

Hæstv. fjmrh. sagði, að n. sú, sem Ed. samþ. að kjósa, ætti aðallega að vera mþn. Færir hann þar starfssvið hennar burt frá því, sem var tilætlun okkar, sem sé, að þingið gerði skjót og góð tilþrif um niðurfærslu á útgjöldunum. Okkar tilgangur var ekki sá, að sett væri niður mþn., sem ætti að vera ráðgefandi n. fyrir stj., eins og hæstv. ráðh. komst að orði.

Hæstv. ráðh. sagði, að óþarfi væri að kjósa meira en eina n. Að málið var borið fram í báðum d., þýðir ekki það, að ætlazt sé til, að n. störfuðu hvor í sínu lagi, heldur að þær störfuðu saman. Veitir ekki af 8 mönnum, þegar þess er gætt, hversu búið er að draga þetta mál á langinn.

Í till. er ætlazt til þess, að n. fái upplýsingar frá ýmsum ríkisstofnunum, og það er það, sem hefir verið þyrnir í augum hæstv. stj. 8 manna n. á hér hægra um vik að skipta verkinu. 3 manna mþn., sem vera á einskonar bakábyrgð fyrir stj., er hinsvegar alls annars eðlis. En ég skil, að með því að afgr. málið þannig er verið að gera eins lítið úr þessari tilraun og hægt er, án þess beinlínis að drepa hana. Hefi ég líka heyrt, að flm. till. í Ed. hafi sagt, að hann gengi út frá því sem gefnu, að stj.flokkurinn léti samþ. till. í Nd. líka. Tilgangur þessa hv. þm. mun hafa verið sá sami og minn, að reyna að vinna upp það tímatap, sem orðið hefir.

Hæstv. ráðh. talaði um það, að menn þvældust hver fyrir öðrum, ef margir væru í n. En hann veit þó, að n., sem hafa mikið og vandasamt verk að vinna, eru mannfleiri en aðrar; t. d. er fjvn. Nd. skipuð 7 mönnum, enda þótt flestar n. séu aðeins skipaðar 5 mönnum í Nd. og 3 í Ed.

Þegar litið er á ástand það, sem nú ríkir, er ekki til of mikils ætlazt, þó að búizt sé við, að þessi till. verði samþ. þrautalaust nú, þar sem nú er búið að tefja fyrir henni í mánuð. En mér virtist á ræðu hæstv. ráðh., sem það muni ekki vaka fyrir honum, heldur hitt, að þessi n., sem samþ. var í dag að kjósa í Ed., eigi að vera mþn. Er mikill munur á ástandinu 1922 og 1932. Óðar en hv. 1. þm. S.-M. og meðflm. hans bera fram till. um n. til að athuga fjárhagsástæður ríkissjóðs 1922 er fallizt á það í Sþ. og kosin 5 manna n., og liggur þar þó ekki annað fyrir en að athuga fjárhagsástæðuinar. En 1932 vill hæstv. stj. loks, eftir langt þref, gefa kost á því, að skipaðir séu 3 menn til þess áð rannsaka ekki einasta fjárhagsástæður ríkissjóðs, heldur líka ótal ríkisstofnana, sem bætzt hafa við síðan. Svo segir hæstv. fjmrh., að þetta sé ekki aðalverkefni n., heldur eigi hún aðallega að gegna milliþingastörfum. Sýnir þetta muninn á hugarfari þeirra, sem réðu í landinu þá, og þeirra, sem nú ráða. Er þetta eftirtektarverð breyting.