14.05.1932
Neðri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í C-deild Alþingistíðinda. (3830)

15. mál, fimmtardómur

Héðinn Valdimarsson:

Ég vil taka undir það með hæstv. dómsmrh., að sjálfsagt sé, að slík till. sem þessi komi til atkv. Ég álít, að það sé réttur þm. að koma með vantrauststill. á stj. eða einstaka meðlimi hennar í hvaða máli sem er hér á landi eins og víðast annarsstaðar, þar sem þingræðið er talið sterkast. Það er réttur forseta aftur á móti, ef hann heldur, að þannig sé ástatt í d., að hlutföllin milli fylgismanna stj. og andstæðinga hennar séu ekki þau, sem þau eru í raun og veru, að fresta atkvgr. eins og forseti gerði í þessu tilfelli. Ég sé enga heila brú í því að varna þm. að bera fram vantraust á hvaða hátt sem er í þeim sérstöku málum, sem fyrir kunna að koma í d. og neyða þá til þess að eyða tíma þingsins í að taka upp vantraustsyfirlýsingu sem sérstakt mál til umr. og atkvgr., þar sem engin þingsköp ákveða að koma með sérstakt form fyrir vantraustsyfirlýsingu, enda munu flestir viðurkenna, að sá forsetaúrskurður, sem hv. þm. Barð. minntist á, hafi ekki verið réttur.