31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (3836)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég þarf ekki að tala langt mál. Ég get ekki skilið þá hv. þm., sem eru með kveinstafi; eftir að búið er að samþ. í annari deild þingsins, að kjósa skuli n. samkv. óskum þeirra. Eftir að hafa komið sínu máli fram ættu þeir ekki að vera með grátstaf. Það er helzt að sjá, að það sé gert til að halda uppi deilum og til að hita upp flokkana hvorn gagnvart öðrum. Næsta blaðafrásögnin verður eflaust sú, að í Ed. hafi stjórnarflokkurinn verið kúgaður til að leyfa kosning sparnaðarnefndar, en að í Nd. hafi hann beitt ofbeldi gagnvart andstæðingum sínum og neitað um sparnaðarnefnd. Öðru þarf í rauninni ekki að svara. Ég hafði lýst því yfir í Sþ., að ég hefði hugsað mér, að skipuð yrði n. í þinglokin, sem starfaði milli þinga. En ég álít, að fastan. þingsins og einkum þó fjvn. muni gera athuganir og till. um þann sparnað, sem hægt er að koma fram á þessu þingi, enda hefir fjvn. þessarar d. þegar gert till. um niðurfærslur og lagabreytingar í þá átt. Þetta er líka verksvið fastanefndanna. Ég hefi þó ekki séð ástæðu til að verjast því, að ein n. væri skipuð til viðbótar, sem starfaði meðan þingið stendur. Sú n. er þegar samþ. í Ed., og við það verður að sitja. Ég hefi gert ráð fyrir, að slík n. muni gera mest gagn sem mþn., og má þó vera, að hún geti gert eitthvert gagn meðan þingið starfar. Og ekki þarf að óttast það, að hún fái ekki að ráða sínum störfum. Stj. hefir ekki neina tilhneiging til að beita hana kúgun, og mun heldur ekki reyna það.

En ég verð að segja, að mér finnst það óviðfelldið, að þegar búið er að sinna óskum þeirra manna, sem báru till. fram, þá er talað í sama tón eins og þó ekkert hefði verið fyrir þá gert. Og það dettur engum óvitlausum manni í hug, að hinn upphaflegi tilgangur hafi verið annar en sá, að fá till. samþ. í annarihvorri deildinni, en ekki báðum.