31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (3840)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Aðalkrafan var sú, að skipuð yrði n. í Ed. En hér er nú talað um þetta eins og þeirri kröfu hafi ekki verið fullnægt. Það er talað um, að verið sé að bola stjórnarandstæðingum frá. En það á að skipa n. í Ed., sem á að taka þau atriði til athugunar, sem till. getur um, að svo miklu leyti sem fjvn. hafa ekki þegar gert það eða gera það. Allar n. hafa fullt leyfi til þess að athuga og rannsaka það, sem þær girnast, og fá þær upplýsingar, sem þær óska. Andstöðuflokkur stj. á fulltrúa í fjvn. Ég veit ekki til, að þeim hafi verið neitað um neinar þær upplýsingar, sem þeir hafa farið fram á að fá. Fjvn. hafa verið veittar allar þær skýrslur, sem hún hefir óskað eftir. Hún hefir fengið viðbótarskýrslur og viðtöl við menn, eftir því sem henni sjálfri hefir þótt ástæða til. Hvað er það þá, sem þessi n. gerir, annað en það, sem fjvn. getur gert? — Að vísu hefir fjvn. mikið að gera, en sníkjubeiðnir hafa þó ekki tafið hana á þessu þingi. Mér gremst það, þegar verið er að vekja tortryggni, þar sem engin ástæða er til. — Þegar allar óskir og kröfur, sem fram hafa komið, hafa verið teknar til greina og við álítum, að í þessu tilfelli séu aðrar n. eins vel settar að vinna þetta verk, þá er það gremjulegt, þegar haldið er áfram að vekja tortryggni og halda uppi ákærum, alveg eins og ekkert hafi verið gert.

Ég átti tal við hv. 1. landsk. um þetta og gaf kost á því, að slík n. yrði skipuð í annarihvorri deildinni. Lagði hann enga áherzlu á, að n. yrði fremur kosin hér í þessari deild. — Það þarf ekki að brýna mig á því, að ég neiti samstarfi. Ég hefi verið fús til þess. Undan því er ekki að kvarta.