29.02.1932
Efri deild: 16. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (3874)

29. mál, fávitahæli

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Þetta mál var flutt á sumarþinginu síðasta, en náði ekki afgreiðslu. Um leið og ég flyt það nú aftur vil ég láta þá ósk mína í ljós, að það megi ná samþykki þessa þings.

Þótt æðilangt sé síðan ég fór fyrst að hugsa alvarlega um, hversu nauðsynleg sé stofnun þess hælis, sem hér liggur fyrir að ræða um, og mér hafi þá þegar verið ljóst, að þjóð vor hafi allt of lengi látið undir höfuð leggjast að koma því hæli á stofn í einhverri mynd, þá mun það þó hafa verið sérstakt atvik, sem öðru fremur ýtti mér til þess að bera fram þessa till. til þál. og hreyfa þannig við málinu hér á Alþingi. Hvort það á við að segja frá þessu atviki hér á hv. Alþ., get ég ekki um dæmt, en samt held ég, að ég verði að gera það.

Fyrir h. u. b. 15 árum fæddist stúlkubarn hér í bænum, sem snemma bar á sér öll þau einkenni, sem lýsa sér á fávitum. Bráðlega varð hún afarþung byrði heimilis síns, þar sem fyrir voru mörg börn, öll ung. Og þar kom, að móðurinni varð það gersamlega um megn að sinna henni innan um öll hin börnin. Eftir mikla fyrirhöfn tókst að finna stað handa þessu veslings barni, sem þá var 6 ára gamalt, hafði ekki mál og ekki skynjun nema á mjög ófullkominn hátt, en hafði, að því er virtist, góða líkamsburði og þroska.

Öldruð hjón tóku barnið að sér, auðvitað gegn meðlagi, svo sem um samdist við rétta aðilja, en meðgjöf var hér ekkert aðalatriði, heldur hitt, að losa barnaheimilið og örþreytta móður við hina örðugu byrði. Svo heppilega tókst til um val á heimili handa barninu, að það kom fljótt í ljós, að konan, húsmóðirin, sem frá fyrstu stund tók litla fávitann að sér með móðurlegri nákvæmni og alúð, reyndist þar að auki gædd sérstökum hæfileikum til að umgangast, stjórna og leiðbeina barninu, sem eins og þegar er getið var ekki sjáanlegt, að hefði vit að nokkru ráði. En með vakandi gaumgæfni, þolgæði og sérstakri alúð tókst fóstrunni að venja barnið á ýmsar reglur, sem urðu því tamar og eðlilegar og til mikilla muna

bættu úr bjargarleysi þessa barnsaumingja. Um mál var aldrei að ræða, en heyrn virtist stúlkan ekki gersneydd og ýmislegt fór að benda til þess, þrátt fyrir ógurlega annmarka, að barnið ætti þó einhverja ofurlitla vitskímu, sem glæddist við hina einstöku nærgætni og umhyggju, sem það varð aðnjótandi á þessu ágæta heimili. — Í 8 ár dvaldi stúlkan svo þarna, en þá veiktist fóstra hennar og eftir það kenndi hún sig ekki mann til þess að annast hana svo sem með þurfti. Sárhrygg og nauðug varð hún nú að æskja þess, að hún yrði losuð við þetta kæra fósturbarn, sem hún elskaði svo sem væri það hennar eigið barn. Geta má þess, að fósturmóðirin sjálf útvegaði stúlkunni stað hjá fjölskyldu, er hún treysti bezt til að annast hana. En tæplega hafði hún dvalið þar næturlangt, þegar sent var í dauðans ofboði eftir fósturmóðurinni og hún beðin tafarlaust að hirða telpuna. Það réðist ekkert við hana. Umbreytingin gerði hana hamslausa. Fólkið var í algerðu ráðaleysi með hana. Hún róaðist strax, er hún sá fóstru sína. Var nú leitað að nýjum stað, en það fór á sömu leið. Loksins varð að taka hana í einhýsi og láta gæta hennar þar nótt og dag með ærnum kostnaði.

Það vildi nú einmitt þannig til, að ég varð til þess að vera með í ráðum út af barni þessu og get því borið um, hve erfitt það reyndist að ráðstafa því, og varð mér æ ljósara, hvílík vandræði það eru að útvega slíkum aumingjum heppilegan samastað. Á Kleppi var heldur ekki rúm fyrir hana, af því þar er ekki tekið á móti fávitum. Til þess að segja alla söguna, svo sem hún gekk til, verð ég að bæta því við, að þegar hér var komið sögunni, gefur hin aldraða fósturmóðir sig fram, sárlasið og hrumt gamalmenni, sem þegar hafði tekið sér bústað á elliheimilinu Grund, og býst til að taka aftur að sér þetta kæra fósturbarn sitt, ef hún fái leyfi til að hafa telpuna hjá sér í stofu þeirri, er hún bjó í á elliheimilinu. Enda þótt þessi ráðstöfun væri talsvert varhugaverður, þá varð það þó úr og veslings fávitinn fékk að fara aftur til fóstru sinnar. Margar vikur voru liðnar frá því að þær höfðu sézt. Ég reyni ekki til að lýsa samfundunum, né endurfundargleði þessarar fjötruðu sálar. En ekki hafði hún gleymt fóstru sinni.

Ekki varð stundin löng, sem hér var dvalið. Elliheimilið gat ekki verið hentugur staður handa fávita, og góður vilji gömlu konunnar bar getu hennar ofurliði. Nýja ráðstöfun varð að gera, og hún þýddi nýtt basl, nýja hryggð, ný vonbrigði fyrir aumingjann, sem ekkert átti málið til þess að túlka með tilfinningar sínar. — Þetta er nú aðeins eitt dæmi af fjölmörgum.

Til fátækrastjórnar hér í bæ og líklega víðar leita foreldrar og aðrir vandamenn með svona aumingja, sem þeir eru alveg í vandræðum með. Og fátækrastjórnirnar geta heldur ekkert gert, vegna þess að það er hvergi rúm fyrir svona fólk.

Móðir ber fram fávita barn sitt; 8–10 ára gamalt er það orðið ofurefli allra á heimilinu. Aldrei eru foreldrarnir óttalausir um, að slys geti hlotizt af samvistum fávitans við hin börnin, og þegar fávitinn er stúlkubarn og eldist og nær ef til vill fullum líkamsburðum, svo sem oft á sér stað, þá liggja fyrir henni nýjar hættur, sem sérhverju foreldri hrýs hugur við. Afleiðingin getur orðið þjóðfélaginu verulegur byrðarauki. Reynslan hefir sýnt, að þessi veikleiki gengur í ættir og slíkir aumingjar fæða oft af sér vanburða, fávita afkvæmi. Hafa erlendar þjóðir sorglega reynslu í þessum efnum, og vor á meðal þekkist hún einnig, því miður. Er það talið stórtjón fyrir þjóðfélögjn að hirða ekkert um slíkt. En einhver öruggasta vörnin gegn öllu þesskonar verður vafalaust nákvæm aðgæzla og hirðing á góðum hælum.

Þær þjóðir, sem þegar hafa hafizt handa um stofnun fávitahæla, greina fávitana í flokka, eftir því á hvaða stigi þeir eru í vitsmunalegu tilliti. Þeir, sem virðast geta numið eitthvað ofurlítið, eru settir á sérstök uppeldisheimili, þar sem þeim er séð fyrir kennslu við þeirra hæfi. Er hér átt við börn, sem frá fæðingu bera þess öll einkenni, að þau vantar skilyrði þess að geta haft not af samskonar fræðslu og andlega heilbrigð börn. Þessa tegund fávita kalla Svíar „bildbara sinnesslöa“, sem samsvarar líklega því, sem við Íslendingar köllum hálfvita.

Annar flokkurinn, sem telur alger fávitabörn, er settur á hæli, sem sniðin eru eftir þörfum þeirra og ásigkomulagi. Þeim er ekki ætlað neitt nám, annað en reynt er til að venja þau á vissar reglur og að öðru leyti láta þeim líða svo vel sem unnt er. Í þriðja flokknum eru þeir, sem hafa óvenjusterka glæpahneigð eða glæpasýki. Þeim er allra helzt ráðstafað í afskekkta staði, þar sem hæli er stofnað fyrir þá. Ríkissjóður styrkir öll slík hæli, sem annars þykja nokkurs virði.

Margt og mikið er gert af þjóðfélagsins hálfu til þess að létta byrði þessa fólks. Þar má nefna vinnuheimilin, sem víða eru rekin og taka við af skólunum og eru einkum ætluð þeim, sem sjáanlega eru ekki færir um að dvelja annarsstaðar. Það eru meira en 70 ár síðan Svíar t. d. stofnuðu slík vinnuheimili handa fávitum. Þykja þau gefast vel og er furðulegt að sjá handavinnu fávitanna.

Norðmenn byrjuðu þessa starfsemi um 1875. Það voru kennarar, sem þar riðu á vaðið og stofnuðu fyrstu skólana fyrir vanþroska og fávita börn. Það yrði of langt mál að rekja sögu þeirrar starfsemi hér; ég ætla aðeins að geta um 5 manna nefnd, sem Barnaverndarráð Noregs kaus árið 1925 til þess að íhuga og koma með tillögur um þessi mál. Nefndin skilaði áliti sínu í nóvember 1927, eftir rækilega íhugun og mikið starf. Hún hafði m. a. kynnt sér aðgerðir þeirra þjóða, sem lengst eru komnar í þessum efnum, þar á meðal Dana. Nál. var afhent kirkjumálaráðuneytinu, sem átti svo að leggja það fyrir Stórþingið. Þetta sýnir, að Norðmenn hafa ekki álitið þetta neitt hégómamál.

Tillögur n. voru m. a. þessar:

1. Að koma upp skólaheimilum fyrir fávita börn og ungmenni, sem hafa þá greind til að bera, að þau geti hagnýtt sér bóklega og verklega fræðslu.

2. Að koma upp hjúkrunarheimilum fyrir börn og fullorðna, sem standa á svo lágu stigi í andlegu tilliti, að þau eru þess ekki megnug að hirða sig sjálf, en verða alla æfi að vera upp á aðra komin.

3. Að koma upp verndarheimilum fyrir konur og karla, sem auk þess að þau eru andlega sljó hafa einnig siðferðislega galla og aðrar þær tilhneigingar, sem gera þau hættuleg almennu velsæmi. Ráðgert er að stofna slík heimili á afskekktum stöðum, þar sem þó eru næg vinnuskilyrði og gott landrými.

4. Vinnustöðvar fyrir þá menn og konur, sem fengið hafa tilsögn í praktískum efnum, svo sem í garðavinnu, en af ýmsum ástæðum telst óheppilegt, að dvelji á prívat heimilum.

5. Eftirlit með heimilum þessum skal falið 3 manna nefnd. Aðalyfirumsjón skal falin eftirlitsmanni eða konu, sem viðkomandi bæjar- eða sveitarstjórn kýs til 3 ára í senn, og skal hann eða hún vinna kauplaust.

6. Kostnað við rekstur hinna ýmsu heimila annast ríkissjóður. Stórþingið getur þó kveðið á um, að viss hluti kostnaðarins greiðist af fylkjunum, og fylkisþingin geta ákveðið, að allt að helmingur þess fjár greiðist af framfærslusveitum fávitanna.

Þannig eru þá í stuttu máli aðaltillögur n. þessarar.

Ég hefi aðallega dvalið við gerðir annara þjóða og tilraunir þeirra á líknarstarfi fyrir þessi aumlega stöddu börn þjóðfélagsins. Hér á landi er ekkert til, sem hægt sé að henda á, annað en þörfin, sem mér virðist vera svo aðkallandi, að hik eða dráttur á framkvæmdum í þessu efni geti tæplega kallazt sæmd þjóðarinnar samboðið. Og hvað sem fjárhagnum líður, — ég veit að hann er erfiður nú sem stendur —, þá legg ég áherzlu á það, að málið verði undirbúið og komið í framkvæmd svo fljótt sem nokkur tök eru á. Í fyrra benti ég á þá leið í þessu máli, að holdsveikraspítalinn væri tekinn til afnota fyrir fávitahæli. Húsrými er þar talsvert og virðist nú vera orðið óþarflega stórt handa þeim fáu sjúklingum, sem þar búa, enda sýnir það sig bezt á því, að talsverðum hluta hússins hefir verið breytt í íbúðir handa fjölskyldum, svo að þar munu búa 4 eða 5 fjölskyldur í rúmgóðum híbýlum. Sú hugsun liggur því mjög nærri, hvort ekki væri réttara, að í stað þess að nota þetta húsrúm handa fólki, sem vitanlega gæti fengið inni hvar sem vera vill, þá væri það ætlað þeim, sem hvergi eiga sér samastað, hvað lítið sem út af ber. Það væri vitanlega ekki hægt að segja, að það væri fullnægjandi framtíðarhjálp, heldur aðeins byrjunarstig, en stundum fer einmitt bezt á því að byrja í smáum stíl, og allajafna mun það viðurkennt, að skynsamlegast sé að sníða sér stakk eftir vexti.

Annars ætla ég ekki að leggja nein sérstök ráð á um það, hvernig tilhögun á fávitahælinu verði höfð. Ég ber það traust til hæstv. stj., að hún geri sitt ýtrasta til að sjá vel fyrir því og haganlega. En ég vil aðeins henda á það, að það þyrfti ekki endilega að stofna þjóðinni í stórskuldir með nýjum stórbyggingum til þessarar notkunar. Það má áreiðanlega finna önnur ráð og ódýrari, sem í bili kæmu til góðrar hjálpar í þessu efni og mætti una við, þar til betur væri ært á þjóðarbúinu.

Því miður hefi ég ekki átt þess kost að kynna mér seinustu manntalsskýrslur, eða hve margir eru fávitar á landi hér samkv. þeim. En eftir skýrslunum frá 1920 eru þeir á annað hundrað. Gera má þó ráð fyrir því, að vantalin séu börn á ungum aldri, og virðast mér manntalsskýrslurnar frá 1920 bera það með sér. Þar er mismunurinn svo mikill á tölu fávitanna eftir aldri, umskiptin svo einkennilega snögg, þar sem taldir eru aðeins 6 fábjánar yngri en 10 ára, en á aldrinum frá 10 til 20 ára eru þeir orðnir 32. Mig furðar þetta reyndar ekki. Flestir foreldrar munu hliðra sér hjá því að skrá börn sín sem fábjána á opinberum skýrslum. Það er líka algengt erlendis, að fremur sé vantalið en oftalið í þessu efni.

Dr. H. O. Weldenskov, yfirlæknir Kellensku fávitahælanna við Vejlefjörð í Danmörku — en þau hæli þykja taka öðrum hælum fram á Norðurlöndum —, skýrir t. d. svo frá í álitsskjali til ríkisþingsins, að í Danmörku hafi verið taldir 2 fávitar af hverjum 1000 manns, en að allir sérfróðir menn muni vera sammála um það, að sú tala sé of lág. Nákvæmar rannsóknir í Englandi nýlega hafa leitt í ljós, að tala fávita þar sé 8 af þús. Danski doktorinn, sem ég nefndi. telur, að fávitar þar muni vera 5%, eða nálægt því, og er það meira en tvöfalt á við það, sem manntalsskýrslurnar segja.

Samkv. þessu gætum við þá búizt við, að fávitatala í voru landi væri allmiklu hærri en skýrslur herma. Hinsvegar má gera ráð fyrir því, að þar, sem skipulögð líknarstarfsemi er hafin fyrir fávita, þá sé þeirra vandlegar leitað heldur en þar, sem um ekkert þvílíkt starf er að ræða.

Barnaverndarnefndin, sem skipuð var hér í bæ í apríl 1930, sendi fyrirspurnir til allra hreppsnefndaroddvita landsins viðvíkjandi fávitum, sérstaklega börnum. Nefndin var sammála um, að brýn þörf væri á hæli fyrir fávita börn og vanþroska og vildi fá greinilegar skýrslur um þau: Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp þessar spurningar. Þær eru á þessa leið:

„1. Hve margir fávitar eru í yðar hreppi?

Yngri en 10 ára, 10–20 ára, 20–40 ára, eldri en 40 ára.

a. Karlar.

b. Konur.

2. Hafa þeir getað lært nokkuð, og sé svo,

hvað þá?

3. Hve margir þeirra geta hirt sig sjálfir?

4. Hafa þeir mál og heyrn?

5. Hve margir þeirra eru hjá foreldrum sínum?

6. Hver er meðgjöf með hinum?

7. Hve mörgum þeirra allra teljið þér líklegt, að yrði ráðstafað á fávitahæli, ef það kæmist upp?

8. Vitið þér um nokkur börn í hreppnum, sem kunnugir eru hræddir um, að ekki nái fullum vitsmunaþroska, þó að ekki séu kölluð fábjánar?“

Svörin komu og báru það með sér, að fávitarnir eru svo að segja alstaðar til mikils erfiðisauka, bæði fyrir heimilin og hreppsfélögin, og að sótt yrði um hælisvist fyrir þá, væri nokkurt hæli til handa þeim.

Þá báru svörin það með sér, að tvísýnt var um ekki allfá börn, að þau næðu nokkurn tíma fullum þroska, þó að aðstandendur kinokuðu sér við að telja þau til fábjána. Að þesskonar börnum sé nauðsynleg sérstök aðhlynning og allt önnur meðferð en heilbrigðum börnum, segir sig sjálft. Með því að veita þeim hana í tíma yrði vafalaust spornað við ýmsum vandræðum og erfiðleikum, bæði fyrir þau sjálf og þjóðfélagið í heild sinni. Fæst heimili eru fær um að gera það. Verður því að sjá þeim fyrir því á annan hátt, og þá verður eina leiðin hæli, þar sem þeim veitist öll nauðsynleg aðhlynning og hjálp.

Að hér sé um verulegt nauðsynjamál að ræða, hygg ég, að öllum geti komið saman um. Neyð smælingjanna og sæmd þjóðfélagsins krefst þess, að þessu máli verði hrundið í framkvæmd hið allra fyrsta.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira, en legg til, að málinu verði vísað til allshn.