30.03.1932
Neðri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í C-deild Alþingistíðinda. (3889)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hefi ekki haft aðstöðu til að hlusta á alla ræðu hv. þm. Vestm., enda mun þess ekki hafa verið þörf, því að það, sem ég heyrði af henni, var það sama sem hann og aðrir óvinir landhelgigæzlunnar hafa áður sagt oft og mörgum sinnum, bæði utan þings og innan. Þess vegna ætla ég ekki að halda eins langa ræðu og hv. þm. Vestm. En ég ætla að draga saman nokkur atriði í þessu frv. til þess að gera þeim gleggra fyrir, er hugsa með eigingjarnri óvild um allt, sem gert hefir verið til þess að ljósta upp um landhelgibrjótana.

Hv. þm. er það kunnugt, og getur heldur ekki neitað því, að síðan hans flokkur hætti að stjórna þessum málum og öðrum, hefir landhelgigæzlan stórum batnað. Það þarf ekki annað en að benda á Óðin, sem á fyrsta ári sínu tók 30 togara. Nú er þetta sama skip við strandgæzlu með sama útbúnaði og áður og sömu mönnum, og þó tekur það ekki nema fáa togara á ári í landhelgi. Þetta er ekki af því, að vörnin sé lakari en áður, og heldur ekki stendur það í sambandi við aukinn skipakost, heldur er annað, sem liggur hér á bak við. Það, að Óðinn tók svo marga togara á sínu fyrsta ári, en nú fáa, stafar af því einu, að landhelgigæzlan hefir verið betur rækt hin síðari ár en áður, eftirlitið strangara, og þess vegna hefir landhelgibrotum fækkað. Við getum líka tekið Ægi í þessu sambandi. Hann tók töluvert fleiri togara fyrsta árið en hann hefir gert nú síðari árin. Þetta er staðreynd, sem sýnir, að landhelgigæzlan hefir batnað við það, að íhaldið hætti á stjórna þessum málum. Og þetta kemur af því, að sú stj., sem nú fer með umboðsvaldið, stendur öðuvísi að vígi en fyrrv. stj., sem var það togaraeigendum, og í þeim hóp voru menn, sem sannazt hafði á, að væru brotlegir við landhelgilögin, og aðrir, þótt ekki væru dæmdir brotlegir, voru það samt í raun og veru. Það er því gefið, að aðstaða Framsóknar til þess að sýna óhlutdrægni í þessum málum er öll önnur en var hjá flokki hv. þm. Vestm., af því að í þeim flokki eru landhelgibrjótar, sem þurfti að sjá í gegnum fingur við Mér þykir rétt að lýsa þessu almenna viðhorfi, svo að sjáist, hvers vegna landhelgin er betur varin nú en áður. Landsstj. nú er algerlega óháð þeim mönnum, sem stóðu á hálsi íhaldsstj., eins og t. d. hv. þm. Vestm., sem allt gerði til þess að hindra, að landhelgivörnin væri í lagi vegna hagsmuna sjálfra lögbrjótanna. En svo má líka líta á annað í þessu sambandi, að skipstjórinn á Ægi, nýja skipinu, sem tók við vörnum eftir að íhaldsstj. var hætt að ráða þessum málum, hefir sýnt alveg sérstakan og framúrskarandi dugnað í starfi sínu, sem almennt er viðurkennt af öllum nema lögbrjótum togara. Þegar svo þessi maður er meira affluttur og níddur en nokkur annar — langtum meira en nokkur lélegur starfsmaður landsins hefir orðið fyrir —, þá er skiljanlegt, hvað hv. þm. Vestm. og hans fylgifiskar vilja. Þeir vilja lélega landhelgigæzlu eða eitthvert málamyndakák, en umfram allt vilja þeir ekki, að til starfans veljist duglegir menn, sem alltaf séu á verði og gæti skyldu sinnar. Ef þetta hefði ekki verið svona, ef landhelgigæzlan hefði ekki verið svona góð, þá hefði ekki verið beitt ofsóknum á hendur skipstjóranum á Ægi og hann bakbúinn og níddur. En skipstjórinn hefir nú einmitt orðið frægur fyrir árvekni sína og mikinn dugnað í vörnum landhelginnar.

Af því að hv. þm. Vestm. var að dylgja um, að það væri yfirmönnum varðskipanna að kenna, að sagt hefði verið upp mönnum á þeim, þá vil ég taka það fram, að svo er ekki. Það er vegna fjárkreppunnar, að ekki hefir þótt fært að halda öllum skipunum úti. Það er eins hjá ríkisútgerðinni og öðrum fyrirtækjum, að þegar ekki er hægt að gera út, þá er hásetunum sagt upp. Og hvers vegna ætti ríkið að halda öllum skipunum úti, þegar þess er hvorki þörf né heldur hægt að gera það? Ef hv. þm. Vestm. vill „krítisera“, að ríkið hafi ekki peninga til að halda skipunum úti, þá vil ég benda honum á, að hans kjördæmi, Vestmannaeyjabær, hefir ekki getað greitt sitt litla framlag, er það hafði lofað til gæzlunnar, og það er ekki af því að þá hafi skort viljann til þess, heldur er það kreppunni að kenna, sem komið hefir svo hart niður á kjördæmi hans, að bærinn mun eiga fullerfitt með launagreiðslur sínar. Hv. þm. Vestm. þarf því ekki að vera hissa á, þó að stj. haldi ekki fleiri mönnum á launum en hún hefir þörf fyrir.

Ég vil geta þess, að það eru tvö ár síðan Pálmi Loftsson forstjóri ríkisútgerðarinnar og ég tókum upp að hafa menn, sem hv. þm. Vestm. kallar „hlustara“, úti um land, þar sem mest brögð eru að því, að brotizt sé inn í landhelgina. Við sömdum við menn í ýmsum verstöðvum að senda skeyti á dulmáli til útgerðarstjórans við „Ríkisskip“ um grunsamleg, skip, og gengum svo frá, að skeytin var hægt að senda á nóttu sem degi. Hv. þm. getur spurt sjómenn í Garði, Höfnum, Grindavík, Ólafsvík og víðar, hvaða áhrif þetta hefir haft. Hér hefir storkostleg breyting á orðið, því að þegar íslenzku togararnir, sem helzt eru brotlegir í þessu efni, vita, að haft er auga á þeim úr landi og hægt er að koma að þeim, þar sem þeir eru að trolla, þrátt fyrir alla þeirra eigin „spiona“, þá hafa þeir orðið hræddir og fælzt landhelgina. Nú er vitanlegt, að brotlegir menn hér í bænum hafa varðmenn ekki eingöngu við höfnina, til þess að segja, hvenær varðskip fer eða er komið inn, heldur hafa þeir einnig njósnara á vissum stöðum kringum landið, alveg eins og ríkisstj. hér er því um venjulest stríð að ræða eins og milli lögreglu og glæpamannaforingja í stóru löndunum. Það er því ákaflega hlægilegt, þegar forsvarsmenn glæpamannanna, eins og hv. þm. Vestm., eru að bera sig upp undan því, að hlustað sé á brotleg skeyti. Og þegar komið er inn í þessa hv. deild, sést, að þar á sæti maður, sem haft hefir svik í frammi, og hann blygðast sín ekki fyrir að standa upp og halda ræðu um sín eigin svik, alveg eins og ósekur væri. (JJós: Hver er þessi maður?). Þegar menn, sem afhjúpaðir hafa verið fyrir svik — (ÓTh:

Nú er ráðh. að fá kast! ). — Ég vil biðja hv. þm: Vestm. að líta yfir deildina og athuga, hvort nokkur af þingbræðrum hans sýni í einu glögg merki um og sekt, þegar rætt eru um landhelgibrot. (JJós: Mætti deildin ekki vita, hver hann er, þessi maður ?) Ég treysti svo greind hv. þm., að hann geti sagt sér þetta sjálfur, eftir að hafa fengið þá vísbendingu, sem ég hefi nú gefið. þm. er svo kunnugur í sínum eigin herbúðum.

Ég vil þá taka fram niðurstöðuna af því, sem ég hefi sagt. Það er álit allra, sem að þessum málum vinna, að það sé sjálfsagt að hafa eftirlit með loftskeytanotkun veiðiskipa, til þess að brotlegir íslenzkir togarar hætti að stelast í landhelgina. Það er vitað, að engir hafa á móti þessu eftirliti nema togaraeigendurnir sjálfir. Það er stríð milli þeirra, sem hafa gætt landhelginnar, og hinna, sem brotlegir eru, eða þeirra manna, sem laumast í landhelgina til þess að stela björg fátækra manna í verstöðvum kringum land. þessir lögbrjótar hafa enga afsökun. Það hefir ekkert breytzt frá því, að Ágúst Flygenring bar fram ásakanir sínar á hendur lögbrjótunum. Hann sagði hér í þessari hv. d., að það væri eigingirnin og hagsmunavonin, sem lokkaði lögbrjótana til þess að laumast inn í landhelgina og stela fiskinum. Og hann játaði, að útgerðarstj. skipuðu skipstjórunum að fara í landhelgina. Og hann kvað ennþá harðara að orði; hann sagði, að skipstjórarnir væru blátt áfram reknir, ef þeir hlýddu því ekki að stelast inn fyrir landhelgilínuna. Og allar þessar þungu ásakanir voru bornar fram í sambandi við loftskeytatækin, er þá var verið að koma fyrir á íslenzkum togurum.

Það eru kannske send 10 skeyti til sama togarans á einni nóttu. Hver vill nú trúa því, að hér sé aðeins um saklaus verzlunarviðskipti að ræða? Nei, hér er um stór brot að ræða og skeytin send í sviksamlegum tilgangi.

Nú er búið að kaupa nýtt varðskip og bæta gæzluna á ýmsan hátt, en þó vill það brenna við, að vissir útgerðarmenn skipa sínum togurum að laumast í landhelgina, þegar þeir hafa fengið vitneskju í gegnum símann og þefara sína, að það muni vera óhætt. Ef njósn berst frá Vík, að varðskipið sé að fara vestur með, þá er óhætt í landhelginni nálægt Hjörleifshöfða. Þannig má hafa gagn af þessari þefarastarfsemi útgerðarmanna.

Það er alveg fullvíst, að eins og það er hægt að nokkru leyti að hindra fólk, sem hefir sjúkar hvatir og ástæður til óknytta í því að halda fast við sína bresti, þá er hægt að hræða togarana frá því að fara í landhelgina með því að fyrirmuna þeim að fá leiðbeiningar til þess úr landi frá útgerðarmönnum. Með fjölgun varðskipanna hefir tekizt að gera togarana ragari við landhelgina en áður, enda leita þeir tæplega þangað nú orðið, nema þeir standi undir stjórn í landi, en ef þau sambönd verða stöðvuð, eins og tilgangurinn er með þessu frv., þá er síðasta þættinum bætt við þær varnarráðstafanir, sem nægja til þess að landhelgin verði friðuð gegn ránsferðum botnvörpunga. Það er því beinlínis skylda löggjafarvaldsins að tryggja landhelgivarnirnar til fulls með því að gera þetta frv. að lögum.