15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

5. mál, verðtollur

Haraldur Guðmundsson:

Við Alþýðuflokksmenn erum andvígir þessu frv., og eru rök okkar gegn því margkunn. Ég vil í þessu sambandi rifja upp fyrir deildinni, um hve háan toll er hér að ræða. 1930 nam hann 2338 þús. kr., og þetta hvílir á vörum, sem tollaðar eru fyrir með vörutolli, sem gaf þetta samna ár 1950 hús. kr. Þessir tollar hafa því gefið h. u. b. 4 millj. og 300 þús. kr., sem svarar til, auk álagningar á tollinn, 220 kr. á hvert 5 manna heimili. Eftir rannsókn skattanefndar hvílir ekki meira en 1/5 hluti tollanna á ónauðsynlegum vörum, en hitt á algengum fatnaði, búsahöldum o. þ. h. Þessi skattur nemur fullum 1/5 af innkaupsverði varanna. Er þó hér eingöngu átt við þær vörur, sem eru í 15% flokknum, því að í 30% flokknum er lítið um nauðsynjavörur.

Nú kreppir að atvinnuleysi og afurðir eru í lágu verði og því úr litlu að spila til að kaupa nauðsynjar frá útlöndum. Hvern styrk veitir nú ríkið þeim mönnum, sem missa helminginn af tekjum sínum vegna atvinnuleysis, og bændum, sem missa 2/3 af tekjum sínum vegna verðlækkunar afurðanna? Það leggur á þá skatt, sem nemur 220 kr. á 5 manna heimili og meira á þau, sem eru fjölmennari.

Fjmrh. sagði, að við jafnaðarmenn hefðum tekið okkur einokun á því að berjast fyrir fátæklingana, sem þó væri til lítils gagns. Óskandi væri, að þetta væri ekki satt, en hitt er víst, að gerðir hæstv. ráðh. styrkja okkur ekki í þessari baráttu. Við getum ekki tekið okkur neina einokun, en ef báðir hinir flokkarnir vilja velta byrðunum yfir á fátæklingana, verðum við auðvitað einir um að berjast fyrir rétti þeirra.

Hv. 2. þm. Skagf. hefir lýst yfir því fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, að flokkurinn myndi sitja hjá og bíða eftir úrslitum í stjórnarskrármálinu, og hefi ég ekkert við það að athuga. En samkv. stefnu sinni hlýtur þó flokkurinn að fylgja verðtollinum sem heppilegri leið. Hæstv. ráðh. áætlar nú verðtoll 1400 þús. kr. og vörutoll 1450 þús. kr., eða 150 kr. á meðalheimili. Ég skal ekki segja um, hve „varleg“ þessi áætlun er. Ef innflutningshöftunum er beitt, er líklegt, að verðtollurinn a. m. k. fari ekki fram úr þessu. En verði það ekki gert, fara tollar þessir fram úr 3 millj., sem lagðar eru á þá, sem hafa við erfiðust kjör að búa.