11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (3926)

29. mál, fávitahæli

Guðrún Lárusdóttir:

Ég verð að halda fast við mína brtt., eins og hv. 3. landsk. með sinni dagskrá. Sé ég ekki, að það sé nokkrum manni í óhag, þó að farið sé fram á þessa breytingu. Talaði ég við landlækni nýlega og spurði hann, hvort hann myndi leggjast á móti brtt., og kvað hann nei við. Fyrir mér vakti það, að bráðum mætti fara að sjást árangur af þessu starfi og að ekki þyrfti að bíða lengur en til næsta þings. Á síðasta þingi hafði barnaverndarn. tilbúið frv. um byggingu fávitahælis, og afhenti formaður n.. stj. þetta frv. En síðan hefir ekkert gerzt í málinu. Gerir ekkert til, þó hert sé á um framkvæmdir.

Hvað viðvíkur meðferð aumingja hér á landi, þá er hún auðvitað misjöfn. Margir meðhöndla þá vel. En þess ber að gæta, hvaða þyngsli eru að þeim á heimilum, hvaða áhrif það hefir á systkini þeirra að alast upp með þeim o. s. frv. Eru margir, sem stynja undir þessari þungu byrði. Marga fávita er líka farið illa með hér á landi. Þessu vil ég að verði af létt. Það er engin tortryggni eða vantraust á hæstv. stjórn, sem fyrir mér vakir, heldur það eitt, að ég vil fá að sjá einhvern árangur sem allra fyrst.