11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (3927)

29. mál, fávitahæli

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég vil bara beina örfáum orðum til hv. 3. landsk. Það er víst ekki tilætlunin, þótt breyting hv. 6. landsk. komi til atkv., að ráðast eigi í kostnaðarsöm stórvirki, heldur undirbúning. Það er ætlazt til, að safnað verði skýrslum um það, hve margir fávitar eru til á landinu. Myndi landlæknir að sjálfsögðu annast þetta, með því að fá um það skýrslu héraðslækna.

Þá er og annað, sem athuga þarf, og það er rekstur þessa fávitahælis. Yrði að afla upplýsinga um það, hvernig slíku er fyrir komið ytra, og myndi landlæknir vera sjálfkjörinn til þess. Ætti þetta að vera hægt án mikils tíma eða tilkostnaðar. Þá er hið þriðja, sem til greina kemur, að reisa hælið. Er auðvitað ekki um það að ræða fyrr en fjárveiting liggur fyrir frá Alþingi. Útgjöld yrðu því lítil, þótt till. þessi yrði samþ., en engum blandast hugur um nauðsyn á slíku hæli sem hér er farið fram á. Annars held ég, að við höfum nógu margar byggingar, er nota mætti sem fávitahæli. Væri ekki skaði að því, þótt tekinn væri einhver skólinn og honum breytt í slíkt hæli. Þessir skólar uppi til sveita eru hvort sem er að leggjast niður fyrir of litla aðsókn. Auk þess yrði þetta hæli nokkurskonar skóli fyrir þessa sjúklinga. Ég vil því mælast til þess við hv. d., að hún styðji þessa till., svo að hægt sé að fá einhvern árangur fyrir næsta þing. Eins og komið hefir fram hjá hv. 3. landsk. og öllum, sem lagt hafa til málsins, er þörfin aðkallandi.