11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (3928)

29. mál, fávitahæli

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég vil ekki gera þetta að kappsmáli. Ástæðan til þess, að ég hefi haldið fram okkar dagskrá, er sú, að landlæknir, sem bezt vit mun hafa hér á, taldi það vafasamt, að hægt væri að ljúka undirbúningi fyrir næsta Alþingi. Annað, sem gerir það að verkum, að síður er ástæða til að ýta undir málið, er hið erfiða ástand, sem nú er í landinu og gerir það ómögulegt að ráðast í stór byggingafyrirtæki. Annars tek ég það fram aftur, að ég vil ekki gera þetta að kappsmáli.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Hafnf. sagði um það, að skólar þeir, sem reistir hafa verið síðustu árin, standi tómir og ónotaðir, verð ég að segja það, að mér er ekki kunnugt um slíkt. Hélt ég, að þessir skólar væru sæmilega sóttir, og þó að það sé e. t. v. eitthvað minna núna í kreppunni, þá mun það lagast aftur, þegar batnar í ári. Þó getur það reyndar orðið atriði í undirbúningnum að athuga þessa tómu skóla.