07.05.1932
Neðri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (3947)

448. mál, fækkun opinberra starfsmanna

Jónas Þorbergsson:

Það væri fyllilega óréttmætt að segja, að þetta þing sýndi ekki viðleitni í þá átt að vilja endurskoða starfsskipulag þjóðfélagsins í þeim tilgangi að færa það saman og minnka kostnaðinn með því að færa niður sem flest af útgjöldum ríkisins og stofnana þess. Þessi till. hygg ég að sé sú fjórða í röðinni, sem fer í þessa átt, og má heita, að hún sé hinum að mestu leyti samhljóða.

Enginn neitar því, að það er fyllilega eðlilegt, sérstaklega á slíkum krepputímum og nú eru, að slíkar till. komi fram, því það er jafnan og ekki sízt á þessum tímum nauðsynlegt að spara eins og hægt er útgjöld ríkissjóðsins. En eins og ef til vill síðar mun koma fram í umr. um annað mál á dagskrá þessa fundar, þá má sýna fram á það, að tillögur sem þessi eru ekki einhlítar. Það verður á fleiri hliðar að líta, ef bæta á afkomuna. Ég get tekið til eitt dæmi, án þess ég ætli að fara að vekja sérstakar umr. um það, að á síðastl. 10 árum hafa bankarnir afskrifað um 35 millj. kr. Þetta gífurlega tap verður að endurgreiðast bönkunum með hækkuðum vöxtum á starfsfé atvinnuveganna og hækkuðu kostnaðarverði á framleiðslu varanna. En bak við þessa starfsemi hefir ríkið staðið með sínum ábyrgðum.

Ég tel nú ástæðulaust eftir ræðu hæstv. fjmrh. að lýsa örðugleikunum á launalækkun þeirra starfsmanna ríkisins, sem 3. liður till. ræðir um, meðan einkastofnanir halda við háum launum sinna manna. Það er kunnugt, að bankarnir greiða nú starfsmönnum sínum 60% dýrtíðaruppbót, þar sem ríkið greiðir aðeins 171,3%, og við starfrækslu bæjarfélagsins hér í Reykjavík hefir með sameinuðum atkv. fulltrúa sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna í bæjarstjórn verið samþ. að halda áfram að greiða 40% dýrtíðaruppbót. Enda þótt ég viðurkenni viðleitni till.manna í þá átt að lækka starfsmannalaun, þá þarf að vera eitthvert vit í þeim, ef þær eiga að vera framkvæmanlegar. Það er ekki hægt að ætlast til þess, ef ríkið á að geta haldið áfram að láta vinna þessi störf, að það geti kreist blóðið undan nöglum sinna manna með því að skammta þeim svo lág laun, að þeir eigi erfitt með að draga fram lífið, meðan fyrir hliðstæð störf annarsstaðar eru greidd miklu hærri laun.

Hv. frsm. gat um, að forstjóri Viðtækjaverzlunarinnar hefði óhæfilega há laun. Laun hans munu að vísu vera í hærra lagi, miðað við sumar aðrar óskyldar ríkisstofnanir, en alls ekki hærri en laun við sambærilegar einkastofnanir. Ég skal leyfa mér að taka eitt dæmi til þess að sanna mál mitt. Þegar viðgerðarstofa útvarpsviðtækja var stofnuð, reyndist erfitt að fá færan mann til að veita henni forstöðu. Ég hafði ekki annað ráð en að leita til þeirrar stofnunar, sem líklegust var að hafa hæfa menn, og réði mann, sem starfað hafði við rafveitu Reykjavíkur. En þessi maður gaf engan kost á að taka við starfinu nema með því að fá nokkuð há laun. Þó réði ég hann fyrir lægri laun heldur en hann áður hafði haft hjá bænum, en hann tók starfið, af því að hann taldi sig með því fá víðtækara og frjálsara verksvið fyrir sína kunnáttu. Þetta litla dæmi sýnir, hve erfitt er fyrir hið opinbera að keppa við stofnanir eins og bæjarfélagið eða bankana eða Eimskipafélagið um hæfa menn, og sýnir það, að annaðhvort verður ríkið að borga eins há laun eða það verður að sætta sig við að hafa lakari menn til þess að vinna þýðingarmikil og vandasöm störf. Úr því að hv. frsm. gerði að umræðuefni launagreiðslur við ríkisstofnanir, þá ætla ég að gera lítilsháttar samanburð á launagreiðslum við tvær stofnanir, þar sem önnur er ríkisstofnun, en hin einkafyrirtæki; það eru landssíminn og Eimskipafélagið. Landssímastjóri hefir 7–8 þús. kr. laun, sem með dýrtíðaruppbót munu vart verða hærri en 9 þús. kr. á ári. Hinsvegar hjá Eimskipafélaginu, sem að vísu kallast einkafyrirtæki, en er eins og kunnugt er mjög háð þjóðinni og nýtur mikils fjárstyrks úr ríkissjóði, hefir forstjórinn samkv. samningi, er flokksmenn hv. flm. hafa gert, ekki minna en 19 þús. kr. föst laun. Auk þess hefir hann 4 þús. kr. húsaleigustyrk. Og ennfremur er honum ákveðinn ágóðahluti af rekstri fél., er nemur minnst 3000 kr. á ári, og þessi ágóðahluti skal greiddur, hvort sem félagið hefir nokkurn ágóða af rekstrinum eða ekki, og eins þó að halli sé á rekstrinum, eins og verið hefir undanfarin ár. Hvað þessi ágóðahluti getur orðið hár, ef um rekstrarágóða væri að ræða hjá félaginu, veit ég ekki. Nú læt ég það að svo stöddu óumtalað, hvort skynsamlegt sé að greiða þessi háu laun, en þegar komið er með till. um að lækka 9 þúsund króna laun landssímastjóra, þá finnst mér ekki ótilhlýðilegt að benda á þetta hliðstæða dæmi. Ef nauðsynlegt er að sníða ríkisstofnununum stakk eftir vexti, þá á það að mínu áliti ekki síður við um slíkar stofnanir þjóðarinnar sem Eimskipafélagið. Annars er hægt að fara út í víðtækari samanburð í þessum efnum og verður gert í sambandi við aðra till., sem hér liggur fyrir til umr.

Út af ummælum hv. flm. þess efnis, að komið hefðu fram við útvarpið tillögur um 30 þús. kr. sparnað í rekstri þess, þá er það að vísu rétt, að við útvarpið hefir verið rætt um sparnað og verður rætt um sparnað. Hinsvegar mun hv. þm. byggja á ófullnægjandi og röngum upplýsingum um þær till., er hann kveður hafa komið fram. Get ég frætt hann um það, að eigi hafa verið bornar fram till. um 30 þús. kr.

Það er rétt hjá hv. flm., að till. þá, sem hér liggur fyrir, báru hv. flm. fram í fjvn. í þeirri von, að n. vildi flytja hana. Það var látið í ljós í n., að 3 fyrstu liðina gætu allir nm. verið sammála um, en að því er snertir 4. liðinn, þá man ég a. m. k., að ég lýsti því yfir, að ég væri á móti honum, þar sem hann auk þess væri um svo óskylt efni. Að því er snertir 3 fyrstu liði till., þá hefir hv. Ed. afgr. till. shlj. þessari till., svo þess vegna verður hún að álítast óþörf; ennfremur er búið að kjósa n. eftir till. Ed. til þess að inna rannsókn af höndum í þeim efnum, sem till. fjallar um, og sú n. er þegar tekin til starfa. Ég skal geta þess, að ég hefi nýlega afhent þessari n. ýtarlega skýrslu um störf alls þess fólks, sem vinnur í þágu Ríkisútvarpsins, og launagreiðslur þess. Ef till. sem þessi hefði komið fram í byrjun þings, þá gat hún haft nokkra þýðingu, en nú þegar samskonar till., en þó víðtækari, er þegar samþ. og komin til framkvæmda, væri það blátt áfram hjákátlegt að samþ. till. þá, sem hér liggur fyrir. Um síðasta lið till. hefi ég það að segja, að honum er ég algerlega mótfallinn. Hinsvegar mun vera á leiðinni till. í hv. Ed., sem fer í sömu átt og 4. liður, er komin lengra áleiðis og fær væntanlega afgreiðslu. Ég sé því ekki ástæðu til þess, að hv. d. afgr. þessa till., en leyfi mér að leggja til, að henni verði vísað til stjórnarinnar.