13.04.1932
Neðri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í C-deild Alþingistíðinda. (3975)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Jón Ólafsson:

Ég ætla, að réttast sé í þetta sinn að stytta mál mitt og jafnvel falla alveg frá orðinu við þessa umr. Bæði er það, að vörnin í málinu er orðin hin frækilegasta, svo litlu þarf þar á að bæta; einnig er umr. um málið orðin sæmilega löng. Þá er og nokkuð búið að ganga á tíma þingsins fyrir skilningsleysi stjórnarflokksins. Hefir kveðið svo rammt að því á þessu þingi, að málum bænda hefir t. d. ekki verið sinnt, heldur hefir þessu máli og fleiri hegómamálum verið varpað inn í þingið til umr. Eru þau góður spegill af sálarástandi þeirra, sem að þeim standa og ráða gangi mála hér á þingi, sem sé stjórnarflokksins.

Ég mun nú geyma rétt minn til að tala um mál þetta þar til við 3. umr., þ. e. a. s., verði ennþá sýnt það blygðunarleysi að varpa því inn í d. til umr. til þess að tefja fyrir öðrum nytjamálum. En sem sagt, ég fell frá orðinu nú, af því að ég myndi verða að flytja ádeiluræðu, en kæri mig ekki um það, þar sem búið er að skera niður umr., svo að enginn er til andsvara.