18.02.1932
Efri deild: 4. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í C-deild Alþingistíðinda. (3986)

19. mál, umsjón nokkurra ríkiseigna í Ölfusi

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. lýtur að því, að ákveðið sé með lögum, að ólaunuð nefnd hafi umsjón með fimm jörðum ríkissjóðs í Ölfusi. Þetta er ekki stórmál, en getur þó skipt miklu um jarðir þessar, vegna hinna miklu framtíðarmöguleika þar. Þar eystra hefir nú verið byrjað á að reisa berklahæli og ennfremur hefir verið rekið þar gróðrarhús, og byrjað á túnrækt og garðrækt, einkum fyrir landsspítalann. Þar sem nú má búast við, að eignir þessar verði einkum notaðar í sambandi við heilbrigðismál, er svo ákveðið í frv., að sjálfskipaðir skuli vera í þessa nefnd: landlæknir, einn af yfirlæknunum við landsspítalann, kjörinn af yfirlæknunum, læknirinn við Reykjahælið, ráðsmaðurinn við Reykjabúið og ráðsmaður landsspítalans. Má telja víst, að þessum mönnum sé fullkomlega trúandi til að sjá um, að möguleikar jarðanna verði hagnýttir sem bezt. Legg ég til, að málinu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til allshn.