01.03.1932
Neðri deild: 17. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í C-deild Alþingistíðinda. (4009)

51. mál, Menningarsjóður

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Í l. um Menningarsjóð er svo fyrir mælt, að árlegar tekjur ríkissjóðs af ólöglegu áfengi, hverju nafni sem nefnist, renni til Menningarsjóðs. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fer fram á það, að á yfirstandandi ári og næsta ári falli helmingur þessara tekna til ríkissjóðsins. Vitanlega er frv. borið fram vegna hins erfiða ástands, sem nú er hjá ríkissjóði, og ákvæði frv. eru svona tímatakmörkuð af því, að frekar er búizt við, að rætist úr þeirri kreppu, sem nú er, á næsta ári. Það þarf ekki að draga það í efa, að hagur ríkissjóðs á þessum tveimur árum verði svo erfiður, að allverulega þurfi að draga úr öllum framkvæmdum til opinberra þarfa, og þá sýnist mér það ekki vera nema sjálfsagt og eðlilegt, þótt einnig sé drepið úr þeirri starfsemi, sem gert er ráð fyrir með l. um Menningarsjóð. Ég skal ekki fara fleiri orðum um málið meðan ekki koma andmæli fram.