01.03.1932
Neðri deild: 17. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í C-deild Alþingistíðinda. (4014)

51. mál, Menningarsjóður

Jónas Þorbergsson:

Ég er sammála hv. 2. þm. Skagf. um það, að einhvers staðar verður að berzt niður, svo að um munar, til að rétta hinn halla fjárhag ríkissjóðs, en hér er ekki borið niður svo að um muni í þessu efni, en að vísu svo að um munar fyrir fámennustu stétt landsins, og það einmitt þá stéttina, sem mestum misskilning mætir og við mesta örðugleika á að stríða, af þeim ástæðum meðfram. Ég tók það annars skýrt fram í minni fyrri ræðu, að ég er ósamþykkur þeirri stefnubreyt., sem í frv. felst, frá þeirri skipan, sem nú er á þessum málum, auk þess sem ég taldi það ekki svara kostnaði að hverfa frá þeirri hollu stefnu, sem mörkuð var með Menningarsjóði um þessa hluti. Sá ávinningur, sem ríkið hefði af þessu í 2 ár, er lítill sem enginn, og enda mjög tvísýnn, eins og ég áður sagði. — Það er að vísu alveg rétt hjá hv. 2. þm. Skagf., að bændur landsins verða fyrir barðinu á kreppunni ekki síður en aðrar stéttir í landinu, en eins og hæstv. dómsmrh. réttilega benti á, væri nær að taka það til athugunar, hvort ekki er rétt að reka verzlun þjóðarinnar með ódýrara hætti en nú gerist, og enda ekkert líklegra en að þar mætti grípa niður svo að um muni fyrir ríkissjóð. Ég fer ekki frekar út í þetta hér, en e. t. v. gefst tækifæri til að koma inn á það í sambandi við önnur mál, sem fyrir þinginu liggja.