02.03.1932
Neðri deild: 18. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í C-deild Alþingistíðinda. (4026)

52. mál, fræðslumálastjórn

Flm. (Pétur Ottesen):

Hæstv. fjmrh. gat um það, að með því að ákveða þessum „kennslupróföstum“ 15 þús. kr. árlega, hefðu verið sparaður um 5 þús. kr. á ári, miðað við það, sem áður, er ríkissjóður þurfti að greiða prófdómendum vegna barnafræðslunnar 20 þús. kr. Það er að vísu rétt, að um dálítinn sparnað er að ræða fyrir ríkissjóð, en sá kostnaður, sem áður var greiddar úr ríkissjóði til prófdómenda, hefir með l. frá 1930 verið færður yfir á héruðin, því að þeim er gert að skyldu að halda prófunum eftir sem áður og bera kostnaðinn við þau. Allir sjá því, hverskonar sparnaður þetta er fyrir gjaldendur landsins; kostnaður, sem leiðir af starfi „kennsluprófastanna“, er nýr og aukinn kostnaður við barnafræðsluna, án þess að á nokkurn hátt sé dregið úr þeim kostnaði, sem fyrir var.

Hæstv. fjmrh. hélt því fram, að eftir l. frá 1930, og þá einlæglega fyrir starf „kennsluprófastanna“, væri hægt að fá betra yfirlit um barnafræðsluna í landinu. Þetta fæ ég þó ekki skilið, því að eftir l. frá 1926 á fræðslumálastjóri að skipta formenn skólanefnda og mun eflaust sjá um, að í það starf veljist góðir og hæfir menn, sem líti eftir fræðslunni og gefi fræðslumalastjórn allar nauðsynlegar upplýsingar um barnafræðsluna, hver í sínu héraði, auk þess sem fræðslumálastjóra berast árlega prófskýrslur, er sýna, hver árangur hefir orðið af kennslunni á því skólaári. Ég fæ því ekki betur séð en að fræðslumalastjóri hafi allgóða aðstöðu og þau gögn í höndum, sem nauðsynleg eru til þess að byggja á og fylgjast með barnafræðslunni í landinu, auk þess sem fræðslumalastjóri hefir að öðru leyti aðstöðu til að kynna sér þetta á ýmsan annan hátt.

Okkur hæstv. fjmrh. deilir talsvert á um gagnið, sem orðið hefir af starfi eða eftirliti „kennsluprófastanna“. En þar, sem ég þekki til og þetta er komið í framkvæmd, er litið á það sem hreinasta „humbug“, þó að menn fari í þessu skyni um landið hvert og endilangt eins og fuglinn fljúgandi og skjótist inn í skólana örlitla stund, eins og þegar kría sezt á stein.

Hv. 1. þm. Skagf, vildi láta vísa þessu máli til hv. menntmn., af því að hér væri um framtíðarskipulag að ræða. En ég vil benda honum á, að frv., sem samþm. hans, hv. 2. þm. Skagf., ber fram um breyt. á áfengislögunum, sem einnig er gert ráð fyrir að geti orðið til frambúðar, var vísað til hv. fjhn., og þó að það að efni til að öðru leyti hefði getað átt heima í annari n. Hv. deild leit eingöngu á fjárhagshlið málsins, og úr því slíkt fordæmi er skapað, fell ég ekki frá till. minni um, að frv. þetta gangi til hv. fjhn., þó að ég hinsvegar geri það ekki að neinu kappsmáli, í hvora n. það fer.