13.05.1932
Neðri deild: 74. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í C-deild Alþingistíðinda. (4048)

70. mál, ábúðarlög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Það er ekki margt, sem ég þarf að segja viðvíkjandi ræðum þeirra hv. þm., er hér hafa talað um málið. Hv. samþm. mínum get ég vel verið sammála um það, að ýmsir agnúar muni vera á frv., sem sverfa þurfi af. Hann minntist á eitt atriði, er hann væri óánægður með, sem sé ákvæði 45. gr. Um kaupskyldu leiguliða á ábýlisjörð, að viðlögðum missi ábúðarréttar, ef landsdrottinn býður honum jörðina til kaups við fasteignamatsverði. Hv. þm. áleit þetta óréttlátt, því að það gæti komið illa við leiguliða. Það er alveg rétt. En ég held þó, eins og hv. 1. þm. Árn. að rétt sé að tryggja það, að landsdrottinn geti losnað við jörð sína, ef hann vill selja. Er erfitt að leggja slíkar kvaðir á landsdrottin, sem gert er í þessu frv., ef ekki eru einhverjar útgöngudyr fyrir hann til þess að losna við jarðir sínar, ef hann þarf nauðsynlega.

Þá geri ég ekki eins mikið úr erfiðleikum leiguliða á því að kaupa ábúðarjörð sína með eins árs gjaldfresti og hv. þm. Ætti það að vera hægt í venjulegu árferði að fá nægilegt lánsfé til þess að kaupa jörð við fasteignamatsverði. Væri ég fús til þess að athuga, hvort ekki væru til aðrar leiðir til að ná þessu marki, en ég held, að ekki sé hægt að loka þessu alveg. Hefi ég heyrt það á landeigendum, að þeir telji þetta ákvæði nauðsynlegt sjálfra sín vegna, þar sem gengið sé svo nærri heim í öðrum atriðum. Væri það varhugavert að loka alveg fyrir þeim þessum útgöngudyrum.

Hv. 2. þm. Skagf. og hv. 1. þm. S.-M. gerðu báðir aths. við skilgreiningu orðsins „jörð“. Ég skal fúslega kannast við, að skilgreiningin á þessu sé ekki svo glögg sem skyldi. Og ég get vel fallizt á, að skilgreining hv. þm. sé betri. E. t. v. væri hægt að setja ákvæði um þetta, eitthvað í líkingu við það, sem hv. 1. þm. S.-M. drap á. Ég tel því rétt, að þetta atr. sé athugað nánar.

Ég held, að það sé þá ekki fleira að sinni, sem ummæli hv. 2. þm. Skagf. gefur mér ástæðu til að minnast á.

Hv. flm. frv., 1. þm. Árn., talaði nokkuð um frv. og brtt. landbn. Virtist hann þeim að mörgu leyti samþykkur. Þó kom hann fram með nokkrar aths. við sumar þeirra. Skal ég stuttlega minnast á þau niðri og þá fyrst á það, er hann sagði um (i. brtt. n., sem er um fyrningargjald leiguliða af húsum.

Hv. flm. fellst að vísu á það, að landbn. væri á réttri leið með uppástungu sinni, er kemur fram í þessari brtt., sem er sú, að leggja ákveðið fyrningargjald á leiguliðana. En mér virtist hann þó sammála hv. 2. þm. Skagf. um, að sú leið, er um getur í brtt., myndi eigi vera vel heppileg. Betra myndi vera að mynda fyrningarsjóð. Ég gat nú um þetta í framsöguræðu minni í gær. Hygg ég því, að gott samkomulag geti orðið um að breyta til í þá átt. En það þarf þó vel að athugast. Og ákvæði um slíka sjóðsstofnun myndi leiða til fleiri breyt., sem þá verða að athugast og ákveðast um leið.

Það var einkum 22. brtt. landbn., sem hv. flm. lagði á móti. Sú brtt. er um það, hvernig skipta skuli kostnaði við endurbyggingu, ef hús eyðast af völdum náttúrunnar eða af óviðráðanlegum orsökum. Þótti hv. flm. þrengt um of að kosti leiguliða með ákvæðum brtt. En sú skipting er þar á gerð, að leiguliði leggi til allt innlent efni, svo sem möl og grjót, ef um steinbygggingar er að ræða, eða strengi, hnausa og annað, ef um torfbyggingar er að ræða. Auk þess á hann að annast alla flutninga á efni í bygginguna, einnig á útlendu efni. Hv. flm. benti á, að þetta kæmi mjög misjafnt niður á leiguliðana, eftir því, hvar þeir væru búsettir. Og að þetta gæti orðið tilfinnanlegur skattur fyrir þá, sem langt ættu að sækja til kaupstaðar. Hún hélt því fram, að leiguliði myndi oft kjósa eða neyðast til að ganga frá jörð fremur en að ganga undir slíka kvöð. Ég held, að hér sé nú fullfreklega að kveðið hjá hv. flm. Í fyrsta lagi kemur það nú sjaldan fyrir, að hús eyðist á þennan hátt, þó að dæmi séu að vísu til þess, einkum í jarðskjálftum. Og í öðru lagi verður þetta sjaldnast svo hár skattur, að leiguliða sé ekki vel fært að rísa undir honum. Hitt er vitanlega rétt, að flutning á útlendu efni verður að miða við næsta kaupstað, enda var það meining landbn. Hitt kemur vitanlega ekki til mála, að landsdrottinn geti þröngvað leiguliða til að sækja efni til bygginga eitthvað á annað landshorn. Þessi kvöð er vitanlega miðuð við það, að efnið sé flutt frá næsta verzlunarstað. Má hæglega gera brtt. um þetta, svo slíkt orki ekki tvímælis.

Þótt þessi kvöð sé lögð á leiguliða, sem í brtt. getur, þá verður samt hans þáttur í byggingarkostnaðinum aldrei nema lítill hluti af endurbyggingarkostnaði, og því minni, sem byggingin er dýrari og úr vandaðra efni.

Þá er 23. brtt., um að niður falli 36. gr. frv., en í þeirri gr. er leiguliða gefin heimild til að krefjast endurmats á leigumála, ef hann þykir óþarflega hár. Ég tók því fram í frs. ræðu minni, að n. hefði litið svo á, að leiguliði gæti hæglega misnotað þennan rétt sinn. Hv. flm. viðurkenndi líka, að gr. væri óheppilega orðuð. Ef rétt væri að halda þessu ákvæði, ætti landsdrottinn líka að hafa gagnkvæman rétt gagnvart leiguliða, ef leigumali væri óeðlilega lágur. Má vitanlega athuga nánar, hvort rétt sé að taka slíkt ákvæði upp í greinina, ef hv. þdm. verða ekki ásáttir um að fella hana niður. Annars sýnist ekki mjög athugavert, þótt um leigumálann gildi frjáls samningur. Leiguliði gæti misnotað þetta ákvæði með því að bjóða hátt í jörð til að ná ábúðarrétti á henni, krefjast svo endurmats og fengið leigumálann lækkaðan, e. t. v. þegar á næsta ári. þetta gæti, að óþörfu, valdið landsdrottni tjóni. En þetta má athuga nánar. Landbn. gat aðeins ekki sætt sig við frvgr. eins og hún er nú.

Ég þarf þá lítið fleira að taka fram vegna þess, er hv. flm. sagði. Hann minntist að vísu á þá breyt., sem við leggjum til, að gerð sé á bráðabirgðaákvæðum frv. Hann virtist sætta sig við það, en hafði þó á orði, að marka þyrfti nánar í l., hvenær þau kæmu til framkvæmda. En ég hygg þó, að bezt sé að láta þá samninga um leiguábúðir, sem nú eru, gilda þangað til þeir renna út. Það er líka vani löggjafarinnar að grípa ekki aftur fyrir sig til þeirra samninga, sem áður hafa verið gerðir. Og ég hygg, að það ákvæði, að l. komi til framkvæmda smátt og smátt, komi réttlátlegar niður heldur en ef þau kæmu í öllum tilfellum þegar til framkvæmda. Þeir, sem hafa byggt jarðir sínar til skamma tíma, koma þá fyrr undir ákvæði laganna, en þeir, sem hafa byggt þær til langs tíma, njóta þess þó, ef þeim þykir verra að vera þessum l. háðir. Þetta ákvæði yrði þó einkum gagnlegt ríkissjóði, sem hefir leigt jarðir sínar til lífstíðar. Fyrir hann yrði það hagkvæmara að gera húsabætur á jörðum sínum smátt og smátt heldur en að taka þær allar fyrir í einu. Á sama hátt fengist og meiri reynsla um úttekt jarða og húsa heldur en ef sú úttekt á að fara fram á öllum leigujörðum þegar eftir að l. hafa öðlazt gildi.

Þá þarf ég að svara hv. 1. þm. S.-M. nokkrum orðum. Hann áleit, að smíðalýti væru á frv. — Ég skal ekki deila við hann um það út af fyrir sig. Hann taldi, að með frv. væru lögð óeðlileg höft á samningfrelsi manna. því til sönnunar nefndi hann a. m. k. 3 atriði. Hið fyrsta var, að frv. gerir ráð fyrir lífstíðarábúð, með takmörkunum þó. Hann áleit, að styttri ábúðartími ætti líka að vera leyfður. Ég lít svo á, að ef víðari útgöngudyr eru gefnar um þetta en um getur í frv., þá megi löngum skjóta sér undir það, og er þá grundvöllurinn undir þessu frv., sem er lífstíðarábúðin, burtu tekinn. Ef til þess er ætlazt, að leiguliðar sýni jörðum þeim sóma, sem þeim eru leigðar, þá verður líka ábúðarréttur þeirra að vera langur. Ef hann er stuttur, það er ekki hægt til þess að ætlast, að þeir geri neitt það, sem verða má jörðinni til þrifnaðar. Það, hvað jarðirnar hafa verið byggðar til skamms tíma, hefir einmitt verið meinið, sem staðið hefir í vegi fyrir því, að leigujarðirnar hafi fylgt þeirri þróun, sem orðið hefir um ræktun og aðrar Umbætur jarða á síðustu áratugum. Ég hygg því, að aðalreglan eigi að vera undantekningarlaus lífstíðarábúð, þó þannig, að ábúandi geti sagt upp jarðnæði með hæfilegum fyrirvara. En að öðru leyti hafi hann rétt til að sitja á jörðinni æfilangt, með þeim undantekningum einum, sem í frv. getur, sem eru eiginafnot jarðareiganda eða nánustu vandamanna hans. Ég lít því svo á, að þessi höft til að tryggja leiguliða ábúðina, séu nauðsynleg. Og ég hygg einnig, að þau verði í þágu jarðareiganda, þegar til lengdar lætur. Einnig fyrir hag landsdrottins mun bezt verða séð með því, að leiguliðinn geti starfað sem sjálfstæður maður.

Annað, sem hv. 1. þm. S.-M. fannst varhugavert, var það ákvæði frv., að það væri fortakslaus skylda landsdrottins að sjá fyrir nauðsynlegum húsum á leigujörð sinni og auka við þau eftir þörfum. Hér er nú að vísu um nýmæli að ræða, ef skammt er litið. En áður fyrr hvíldi þó þessi skylda á landsdrottnum, þó hún væri úr gildi numin með fullkomnu lagaleysi. Og þær minningar, sem við afnám þeirrar skyldu eru tengdar, eru þess eðlis, að varasamt er að vera að halda þeim í nokkrum heiðri. Ef þessi ákvæði hefðu aldrei verið afnumin, þá mundi mönnum finnast jafnsjálfsagt, að hús fylgdu leigujörð, eins og það nú t. d. þykir sjálfsagt, að blað fylgi skafti á skóflu, ef hún er leigð til notkunar. Hvorugt má vanta, ef gagn á að vera af hlutnum. Ég vona, að þegar menn fara aftur að venjast þessu, þá þyki það alveg sjálfsagt. Svo er það a. m. k. í mínum huga, að það eigi ekki að orka tvímælis, að hús eigi að fylgja jörðu. Ef leiguliði situr jörð sína svo vel, að hún þoli aukna áhöfn vegna þeirra umbóta, er hann hefir gert, þá tel ég það ekki nema sjálfsagt, þegar leiguliði hefir þannig aukið verðmæti jarðarinnar, að landsdrottinn leggi til nauðsynlegar viðbætur við húsakost hennar. frá mínu sjónarmiði er ekkert athugavert við þetta. Hingað til hefir þetta gengið svo, að jarðir hafa verið byggðar leiguliðum, húsalausar að mestu eða öllu. Leiguliðarnir hafa þá verið tilneyddir að byggja, en þar sem þeir hafa oftast enga tryggingu getað fengið fyrir því, að þeir fái endurgoldinn þann kostnað, er þeir hafa lagt fram, þá hefir það orðið til þess, að þeir hafa neyðzt til að hrúga upp sem allra ódýrustum köfum, sem byggðir hafa verið til einnar nætur. Þetta hefir svo orðið að endurtaka hvað eftir annað. Jarðirnar hafa með þessu lagi staðið í stað, þegar bezt hefir látið, eða þá að þær hafa níðzt niður. — Þetta og hinn stutti leigutími hefir verið orsök til þess, að leigujarðir hafa verið verr setnar en þær, sem eru í sjálfsábúð. Og það hefir alveg hamlað því, að leigujarðirnar gætu orðið sæmilega hýstar. Skylda landsdrottna að hyggja á leigujörðum sínum, eða að yfirtaka hús, sem leiguliði hefir byggt, ef úttektarmenn telja, að þörf sé fyrir þau fyrir það verð sem metið er, er því að mínu áliti alveg sjálfsögð og réttmæt. Með þessu er verið að skapa möguleika fyrir því, að umbætur geti orðið sem jafnastar á jörðum, hvort sem þær eru í sjálfsábúð eða leiguábúð. Hv. 1. þm. S.-M. hélt því fram, að kjör þau, sem leiguliðar ættu við að búa, væru ekki eins erfið og ég hefi haldið fram. Hann sagðist ekki þekkja, að þeir ættu við neina afarkosti að búa. — ég hélt nú ekki neinu slíku fram. Ég veit, að afgjald af leigujörðum hefir oft verið lagt. En landeigendur hafa það þó í hendi sinni. Og ef frv. verður breytt eins og hv. þm. vill, þá verður fyrirkomulagið hvorki fugl né fiskar. Það, sem einkennir leigujarðirnar, er húsakosturinn og umbæturnar, sem hvorttveggja standa að baki því, sem er á þeim býlum, sem eru í sjálfsábúð. Og þetta mein liggur áreiðanlega meira í fyrirkomulaginu sjálfu heldur en því, að leiguliðarnir séu yfirleitt meiri búskussar en sjálfseignarbændurnir. Aðalástæðan er áreiðanlega sú, að frá hálfu löggjafarvaldsins hefir verið verr að þeim búið. Ég tel það skyldu löggjafarvaldsins að hittast svo til með löggjöfinni, að þeir, sem sama atvinnuveg stunda, eigi við lík skilyrði að búa, að svo miklu leyti sem hægt er að tryggja það með löggjöf. Og sit löggjöf þarf að vera svo úr garði gerð, að hún tryggi þessi höfuðatr. svo vel, að þar séu engar smugur á til að smjúga í gegn. Hv. 1. þm. S.-M. minntist að lokum á það, að sum atr. þessa frv. væru þannig vaxin, að þau gætu leitt til þess, að fólksstraumurinn úr sveitunum til kaupstaðanna mundi verða meiri en áður, ef l. kæmu til framkvæmda. — Mér var það satt að segja ekki vel ljóst, á hvern hátt hann rökstuddi þetta. Ég hefði heldur haldið, að ein ástæðan til þess, að fólkið hefir flúið úr sveitunum, væri sú, að illa hefir verið búið að leiguliðunum. Það er einmitt ekki sízt úr moldarkofum leigujarðanna, sem fólkið flýr til kaupstaðanna. Ef býlin verða bætt að húsakynnum, svo að fólki liði vel í þeim, tel ég það eitt hið helzta bjargráð til þess að halda fólkinu í sveitum landsins og varna því, að býlin leggist í auðn, þau, sem annars er lífvænt á. Hitt er vitanlega sjálfsagt, að undanþiggja þær jarðir þessari kvöð, sem eru svo snauðar að landskostum, að ekki er neinu til þeirra kostandi. En svo álít ég, að því sé varið með sum býli og jafnvel heilar sveitir. Og það er engin meining að láta menn kosta miklu til umbóta á slíkum býlum.

Það er rétt, að með ákvæðum frv. er úttektarmönnum fengið mikið vald í hendur. Ef þeir starfa ekki vel og sanngjarnlega, þá getur svo farið, að þeir misbjóði landsdrottnum í mati því, sem þeim er ætlað að framkvæma. En þó þetta geti mistekizt, þá vil ég þó miklu fremur vænta þess, að það takist vel. Úttektarmenn eru yfirleitt svo valdir, að það eru færir menn, vel kunnugir allri aðstöðu og færir að dæma um, hvað við á á hverjum stað og geta því tekið tillit til allrar aðstöðu. Ég tel enga hættu á því, að þeir muni fara neitt harkalega að gagnvart landsdrottnum. Skal ég svo ekki ræða meira um þetta að sinni.