20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

5. mál, verðtollur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ég held, að hv. 1. landsk. hafi farið nokkuð mörg ár aftur í tímann, til þess tíma, þegar hann var að byrja sinn pólitíska lífsferil og skrifaði grein í blað þess flokks, sem hann var þá í — þeir eru nú víst orðnir sex, flokkarnir, sem hann hefir verið í —, líklega þá frægustu grein, sem hann hefir skrifað — skrifaði lýsingu á viðhorfi borgaranna til skattamála. Þá sagði hann, að íhaldsmenn vildu ekki borga skatta, þeir vildu hliðra sér hjá þeim og láta skattana koma niður á þeim fátæku (JónÞ: því fer nú Gróa ekki heldur upp í sveit með þessa sögu?) ; þeir vildu ekki greiða skatta til að leggja fyrir járnbrautir og því um líkt. Ég get skilið, að hv. 1. landsk. sé þetta viðkvæmt mál; hann mun nú vera búinn að finna, að það er ekki skemmtilegt fyrir hann að hafa skrifað þetta. Ég býst við, að hann hafi nú fundið, að það sé ekki heppilegt fyrir hann, að hann sem ungur maður byrjar lífið með því að gefa lýsingu af því, hvernig sá flokkur er, sem hann síðar bjó til og gaf nafnið Íhaldsflokkur — því að hann gaf sér sjálfur nafnið íhaldsmaður —, að í honum eru aðallega menn, sem tíma ekki, þó þeir séu ríkir, að borga neitt í ríkissjóð, tíma ekki að leggja neitt til opinberra þarfa, en vilja láta fátæklingana borga alla skattana. Það er náttúrlega leiðinlegt fyrir hv. 1. landsk. að hafa sagt þetta, en hann hefir sagt það. Nú er hann staddur í sporum þess flokks, sem hann var að lýsa 1908, og það var vit í því frá lágu sjónarmiði, því yfirliti, sem hann gaf þá um íhaldsstefnuna. En þegar nú er komið svo, að hann vill heldur ekki fylgja nefskattastefnunni í álagningu skatta, en það er sú stefna, sem frv. sem hér liggur fyrir, byggist á, og sem hann hefir lýst yfir, að væri stefna síns flokks — þegar komið er svo, að hann vill heldur ekki fylgja henni, þá er það af vöntun á borgaralegum tilfinningum fyrir velferð þjóðfélagsins, þá er það af því, að honum þykir svo mikið varið í að veikja þjóðfélagið, að hann vill hvorki borga til þess skatta frá sjálfum sér né heldur láta fátæklingana gera það. Nema þetta sé einn snúningurinn hjá honum undir þessari 6 flokka tilveru sinni, og að hann sé nú orðinn sócíalisti, og virðist það reyndar vera, að hann sé genginn á mála hjá þeim. Það er náttúrlega gott fyrir þá, á meðan það er. En ég vil benda hv. 1. landsk. og flokki hans á það, að það eru fleiri möguleikar til að ná sköttum en honum virðist hafa dottið í hug. Nú heldur hann, að hann hafi gert byltingu með því að neita að samþykkja þá skatta, sem ríkið þarf að fá, og þó það séu þeir skattar, sem íhaldsmenn vilja helzt hafa. Hver yrði svo afleiðingin, ef þetta tækist? Hún yrði auðvitað sú, að Vestmannaeyjum, sem er bær, sem íhaldið á, yrði ekki borgað það, sem þeim ber samkv. þeim skyldum, sem þjóðfélagið hefir tekið á sig, á réttum tíma. Auðvitað yrði þetta borgað, en ekki fyrr en einhverntíma seinna. Og ég vil ennfremur benda á það, að afleiðingin af því, ef íhaldið gengur frá nefsköttunum, sem það þó vill hafa, verður óhjákvæmilega sú, að Framsóknarflokkurinn halli sér þá meira að beinu sköttunum en hann hefir gert hingað til. Og þó draumur hv. þm. yrði uppfylltur, Þ. e. a. s., að höfðatölureglan komist í gegn, þá er hann svo kunnugur fylgi flokkanna í landinu, og eins flokksbræður hans, að þeir vita, að þeir yrðu samt í minni hluta. Ef hv. 1. landsk. vinnur það á með hótunum sínum, að þetta verði gert, þá verður það óhjákvæmilega til þess, að miðflokkurinn hallast meira að beinu sköttunum en hann hingað til hefir gert, til að vinna upp þá tolla, sem hann hafði, en fær nú ekki lengur. Og þetta verður ekki bara í eitt ár, heldur um langan tíma, um alla framtíð. Ég segi þetta ekki til að ógna hv: 1. landsk., heldur til að benda honum á, að ég er ekkert ólukkulegur yfir því, þó skattastefnurnar hér í landinu breytist nokkuð, þó tollarnir minnki og beinu skattarnir aukist. Ég sé ekki, hvers vegna braskararnir eigi ekki, eins og til dæmis hlutafélagið „Baun“, sem hefir innbyrt mikið fé — hvers vegna það á ekki að svara töluverðum skatti í stað fátæklinganna, sem hingað til hafa borgað alla skatta. Ég vil segja það, að ég lít á það sem eftirsóknarvert, að hv. þm. komi þannig fram eða beiti flokksáhrifum sínum þannig, að skattapólitíkin í landinu hljóti að breytast. Mér þykir bara gott, að sú hula, sem breidd hefir verið yfir fjárbrallsmennina, braskarana, stundum okrara, vil ég segja að henni verði svift af og að þeir fái að borga skattana í staðinn fyrir fátæklingana, sem hingað til hafa borgað þá. Stigi hv. þm. það spor að vera á móti sinni eigin skattastefnu, þá er mér það ekki óljúft, því ég hefi ekkert verulegt við því að segja, þó þeir efnameiri beri skattana, sem þeim hingað til hefir verið hlíft við, og að þeim sé nú létt af fátæklingunum. Ef því hægt verður að tala um einhver áhrif af draumórum hv. 1. landsk. í sambandi við stjskr., þá verða þau til þess að lækna eina meinsemd í þjóðfélaginu, sem þar hefir verið og enginn hefir staðið fremur að en hv. 1. landsk., en þessi meinsemd er sú skattastefna, sem hann fylgir. Ég álít þess vegna sjálfsagt, að Þjóðfélagið hafi ávinning af þeim glapstigum, sem hv. 1. landsk. er á, og ef hans till. verða samþ., geri ég mér vonir um, að svo verði.