19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í C-deild Alþingistíðinda. (4071)

70. mál, ábúðarlög

Magnús Guðmundsson:

Mér finnst eins og hv. þm. V-Húnv. gangi út frá því, að þetta gjald frá leiguliða nægi til þess að byggja upp á jörðunum, miðað við þær kröfur, sem gerðar verða í framtíðinni til húsa á sveitabýlum. Kröfurnar hljóta að vaxa og eiga að vaxa, því að það eru hreinustu vandræði að sjá margar byggingar til sveita. Þeim er mörgum hróflað upp af vanefnum og fátækt. Til þess að bæta úr þessu og svo að hægt sé að byggja upp eins og kröfur tímans heimta, vil ég, að eigandinn sé skyldur að leggja fram á eignarjörð sinni vissan hluta af afgjaldinu árlega.