20.05.1932
Neðri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í C-deild Alþingistíðinda. (4073)

70. mál, ábúðarlög

Sveinn Ólafsson:

Ég saknaði þess við fyrri hluta þessarar umr., að hv. 2. þm. Reykv. gerði þá ekki grein fyrir brtt. sínum, og í raun og veru hafði ég hugsað mér að bíða eftir skýringum hans með að taka til máls.

Ég skal láta þess getið um þær brtt., sem fram eru komnar, að þær eru yfirleitt til bóta að mínum dómi, enda þarf frv. mikilla bóta við til þess að það megi verða að lögum. En þótt allar brtt. yrðu samþ., tel ég samt enn svo mikla galla á frv., að mjög varhugavert væri að gefa því gildi, ekki aðeins forms vegna, heldur líka efnis.

Eins og áður verð ég að halda því fram, að ákvæði 9. gr. um skilyrðislausa lífstíðarábúð séu þess eðlis, að ekki megi lögleiða þau, nema þá ef tekin væru upp víðtæk undanþáguákvæði, sem tryggðu jarðeigendur gegn tjóni og rangsleitni.

Alveg það sama er að segja um þá fortakslausu skuld landeigenda að byggja á leigujörðunum við hæfi eða eftir kröfum hvers ábúanda. Það er svo fráfælandi kostur fyrir jarðeigendurna, að það mundi oft leiða til þess, að þeir yrðu að losa sig við jarðirnar, jafnvel þó að þeir yrðu að sæta afarkostum, og láta þær af hendi fyrir sáralítið verð. M. ö. o. er með þessu gengið svo nærri 63. gr. stjórnarskrárinnar, að ég held, að hvergi í íslenzkum lögum séu dæmi til þess, að eigendum fjármuna séu gerðir slíkir afarkostir. Ekki gildir neitt slíkt um hús, ekki um skip og ekki svo ég viti um nokkurt það fé, sem leigt er eða lánað öðrum til afnota.

Að því er snertir meingölluð fyrirkomulagsatriði frv. get ég bent á það sem dæmi, að ef ákvæði 2. gr. verða að lögum, verður ekki hægt að víkja sér hversfótar í neinu því, er lýtur að samningu jarðarparta eða skiptingu jarða í fleiri býli, nema sækja leyfi til þess um torsótta vegu, fá samþykki úttektarmanna og Búnaðarfél. Íslands.

Nú liggur fyrir brtt. frá landbn. við 1. gr. um skilgreiningu á nafninu jörð. Er þar gert ráð fyrir, að jörð skuli talið sérhvert sveitabýli, sem metið er sérstaklega og framfleytir a. m. k. sem svarar 6 kúgildum. Þarna er þá komin sú skilgreining, sem n. telur eðlilega, og ég get fallizt á, að hún sé dálítið nær lagi heldur en sú sem í gr. hefir staðið. En hugsum oss mann, sem á tvö slík 6 kúgilda samliggjandi smábýli, bæði laus úr ábúð og að hann vilji taka þau sjálfur til ábúðar. Ef frv. verður að lögum, má hann það ekki, nema úttektarmenn og Búnaðarfél. Íslands samþ. það. Hann má ekki hagnýta sér sína eigin eign á hann veg, nema leita fyrst til matsmannanna og Búnaðarfél. Alveg er það eins eftir þessari sömu gr., ef landeigandi vill skipta ábúðarjörð sinni í fleiri býli, t d. á milli barna sinna. Hann verður að fá til þess samþykki úttektarmanna og Búnaðarfél. Íslands. Slík fyrirmæli í lögum eru þess eðlis, að ekki geta liðizt eftir gildandi þjóðskipulagi í þessu landi. Slík höft hafa aldrei þekkt verið í þessu landi. Það getur verið, að þeir, sem lengst ganga í áttina móti sócialistum og kommúnistum, geti fellt sig við þau, en þeir, sem hafa mætur á fortíðar og nútíðar þjóðskipulagi munu ekki aðhyllast víðtækari breyt. á því en þörfin krefur.

Ég hefi þá bent á örfátt af því, sem þarf að athuga og gjalda varhuga við, ef þetta frv. á að ná fram að ganga.

Ég vil ekki tefja tímann með því að taka hér upp til umr. fleiri greinar og rekja misfellur þeirra. Ég lít yfirleitt svo á, að það megi ekki koma fyrir, að þetta frv. verði að lögum eins og það er nú. því verður að umsteypa gersamlega áður. Og ef svo skyldi fara, að það yrði samþ. út úr þessari hv. d., og þannig skapaður möguleiki fyrir því, að það geti orðið að lögum í svipaðri mynd og það nú er í, þá vil ég a. m. k. þvo hendur mínar af því verki og mun því greiða atkv. á móti frv. út ú d. Hinsvegar greiði ég vitanlega atkv. með þeim brtt. öllum, sem telja má til bóta.

Ég skal svo ekki tefja tímann frekar, og mun láta mér hægt og ekki taka mér nærri, þótt mér verði harkalega svarað.