20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

5. mál, verðtollur

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það er rétt hjá hv. 1. landsk., að baráttan um sjálfræði þjóðanna eða vald þegnanna í þjóðfélögunum hefir staðið í nánu sambandi við skattamálin þetta er alveg rétt. En hér er ekki um það að ræða, þegar talað er um, hvort eigi að hætta að taka þennan skatt, sem verið hefir — það gæti þá fremur átt við, ef um nýjan skatt væri að ræða, en ekki þó skattur, sem verið hefir, sé framlengdur —, því að það er vitað, að hann er ekki í neinu misræmi við vilja þjóðarinnar. Framsóknarflokkurinn hefir fylgt þessum skatti frá upphafi, og Sjálfstæðisflokkurinn, sem einnig fylgdi honum í upphafi, ber nú engin innri rök fram gegn því að halda honum.

Ég man eftir því, að þegar nýbúið var að lögleiða þennan skatt, þá stóð deilan um það, hverjum það væri að þakka. Þá deildu blöðin, Tíminn, Vísir og Morgunblaðið mest um það, hvort það væri hv. 1. þm. Reykv. eða hv. 1. landsk., sem ætti hann heiður að hafa komið skattinum á. Mig minnir, að Tíminn og Vísir þökkuðu það hv. 1. þm. Reykv., en Morgunblaðið hv. 1. landsk. Það er því ekki um það að ræða, að á bak við þennan skatt standi ekki meiri hl. þjóðarinnar. Þess vegna á röksemd hv. þm. ekki við í sambandi við þennan skatt. Skattaalöguvaldið er hjá þjóðinni í gegnum þá fulltrúa, sem hún hefir í þinginu. Milli þessa máls og stjskr.málsins er ekki um neitt samband að ræða, vegna þess að deilan er ekki um skattaálöguvaldið, því hér er engum skattalögum hægt að koma fram, nema að þeim standi fulltrúar meiri hl. þjóðarinnar. Og það er enginn ágreiningur um það, að þeir skattar verða að haldast, sem nú hafa gilt í 8 ár samkv. vilja greinilegs meiri hl. þjóðarinnar. Því í umr., hvorki manna á milli eða í blöðum, hefir ekki borið á neinni sterkri óánægju með þessa skatta.

Ég talaði með engri lítilsvirðingu um stjskr.málið. það, sem ég talaði með lítilsvirðingu um, er það, að flokkarnir keppa um þegnana sem mest þeir mega, og svo er umhyggja þeirra fyrir þeim ekki meiri en það, að þeir gefa heim rangar upplýsingar í svona málum. (PM: Í því efni ætti ráðh. að passa sitt eigið hreiður). Það er nú það, sem ég hefi reynt að gera. (PM: Ég á ekki við hæstv. ráðh. sjálfan). Hv. þm., sem greip fram í fyrir mér, passar sjálfan sig, en ég geri ráð fyrir, að honum veiti örðugt að passa alla sína flokksmenn, og geri ekki kröfu til þess.

Það mun nú ekki standa á mér til samkomulags í þeim öðrum málum, sem hv. andstæðingar vilja setja í samband við þetta mál. Ég viðurkenni það, að það er enginn annar grundvöllur til undir stjórnskipun en að þegnarnir séu jafnir. En það eru ýmsar aðrar ástæður en jafn atkv.réttur, sem þarf að taka til greina til þess, að þeir verði jafnir, en ekki ójafnir. Og ein aðalástæðan er sú, að það þarf að fyrirbyggja það, að flokkavaldið taki ráðin af þeim, sem þau raunverulega eiga að hafa, sem sé einstaklingunum. Og ég sé ekki betra ráð til að koma í veg fyrir það en að láta kjósa einn þm. fyrir hvern stað. Önnur aðalastæðan er sú, að þar, sem margir menn eru saman komnir, hafa þeir meira afl en þeir, sem búa strjálir. Þess vegna er það rétt, að þeir hafi meiri atkvæðisrétt, sem búa strjálir, en þeir, sem saman eru komnir á einn stað og hægra eiga með að beita afli samtakanna. Ef þessi tvö tillit verða tekin, bæði til þéttbýlisins og hins, að verja það virkilega „demokrati“, áhrifarétt einstaklingsins, þá mun ekki standa á mér í þeim efnum. En skattaalöguvaldið er hjá þjóðinni, og verður hjá þjóðinni þó þetta frv. verði samþ., því það þarf fulltrúa meiri hl. hennar til að samþykkja það. Þess vegna er alveg óhætt að samþ. það. Röksemd hv. 1. landsk. á því ekki við, nema um nýjar álögur væri að ræða, sem flokkarnir væru ekki sammála um. En um þennan skatt erum við sammála. En aðrar ástæður valda, sem kunnugt er, að flokkarnir kunna að vilja skjótast undan að gera skyldu sína í þessum efnum, en þær, að þeir vorkenni þjóðinni að borga.