20.05.1932
Neðri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í C-deild Alþingistíðinda. (4084)

70. mál, ábúðarlög

Sveinn Ólafsson:

Ég vil út af orðum hv. 1. þm. Skagf. endurtaka það, sem ég var búinn að benda á áður, að réttmætt getur verið og óumflýjanlegt að ráðstafa jörð um stuttan tíma, og að óhæfilegt er að aftra því með l., að slíkar ráðstafanir verði gerðar, hversu mikil nauðsyn sem á því kann að vera. Hv. þm. segir reyndar, að það opinbera geti tekið jörð af ábúanda þegar þörf krefji. Hvar stendur það í frv.? ég sé ekki, að frv. tryggi því opinbera þennan rétt nokkursstaðar. Það getur t. d. komið fyrir, ef læknissetri, sem er opinber eign, þarf að ráðstafa stuttan tíma, eins og ég nefndi fyrr, að af lífstíðarábúð leiði hinn mesta vanda. Læknir verður ekki talinn til skylduliðs landeiganda, þegar svo stendur á, og frv. hannar fortakslaust að taka jörð úr ábúð nema landeigandi eða næstu vandamenn hans taki við ábúð, þess vegna er ákvæðið um lífstíðarábúð óhafandi þegar ástæður eru þær, sem ég nú hefi lýst.

Að því er snertir þann skilning hv. 1. þm. Skagf. á hinni skrl. brtt. minni, að landeigandi geti fortakslaust útilokað umsækjanda um jörð frá því að komast að, ef till. verður samþ., vil ég benda á það, að þrátt fyrir brtt. er umsækjanda opin leið til þess að fá það metið, hvort nauðsyn beri til bráðabirgðaráðstöfunar eða um yfirvarpsástæður einar sé að ræða. Getur umsækjandi vissulega skotið máli sínu undir þá menn, sem hafa bæði rétt og skyldu til að skera úr slíkum ágreiningi á hverjum stað.

Það má segja, að ekki skipti miklu máli nú, hvort till. mín verður samþ. eða ekki, af því að vitanlegt er, að frv. dagar uppi á þessu þingi, en það rekur að því síðar, að taka verður ákvörðun í þessu efni, og ég trúi ekki öðru en að bráðlega opnist augu hv. 1. þm. Skagf. fyrir því, að ekki verður hjá því komizt að heimilu, að jörð megi raðstafa til bráðabirgða, þegar slík ráðstöfun er nauðsynleg.

Ég hefi áður drepið á það, að þegar landeigandi þarf að hafa jörð tiltæka handa barni, foreldri eða öðrum nánustu ættingjum, má hann þó ekki eftir frv. ráðstafa jörðinni um stundarsakir, heldur á að neyða hann til að gefa út byggingarbréf um lífstíðarábúð, sem svo kemur ábúanda á óvart að fellur úr gildi einn góðan veðurdag. Get ég ekki séð kostina við það að láta bráðabirgðaábúð koma fram á þennan hátt. Slík byggingarbréf mundu áreiðanlega verða ábúanda til meiri skaða en ávinnings, enda væru þau sannkölluð svikamylla.

Ég skal svo ekki eiga í frekari deilum út af þessu máli. Læt ég mér í léttu rúmi liggja, hvernig fer um brtt. mínar, af því að ég veit, að málið dagar uppi í þinginu, en till. koma aftur fram af nauðsyn og verða viðurkenndar þótt síðar kunni að verða.