10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (4101)

223. mál, viðskiptasamningar við erlend ríki

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég þarf ekki að fylgja till. þessari úr garði með langri ræðu, því að það er kunnugt, hve mikil vandræði eru með afurðasöluna og afkomu atvinnuveganna hér á landi. Þau ráð, sem menn leita til erlendis í þessum málum, eru samningar við lönd þau, sem skipt er við, gagnkvæmir að meira og minna leyti. Nú er það svo, að í Englandi, sem er mikið viðskiptaland okkar, standa fyrir dyrum samningar um viðskiptamál milli þess og nýlendnanna. Þegar þeir samningar eru búnir, geta Englendingar farið að semja við aðrar þjóðir. Nú ættum við Íslendingar að standa vel að vígi að fá hagkvæma samninga við þá, þar sem við verzlum svo mikið við England og kaupum af þeim miklu meiri vörur en þeir af okkur. Er því áríðandi, að stj. standi vel á verði um þessa hluti, og fyrir því höfum við leyft okkur að skora á hana að leita samninga, í samráði við stjórnmálaflokka á Alþingi, við erlend ríki, að þau kaupi íslenzkar afurðir eða ívilni um tollakjör þeirra. Sérstaklega skorum við á stj. að fá aflétt innflutningstolli á fiski í Englandi og ná samningi um sölu síldar til Rússlands. Eins og nú standa sakir, er fyrirsjáanlegt atvinnuleysi í sumar, m. a. ef ekki verður gert út á síld. En fáist ekki samningar um aukna síldarsölu, má telja hæpið, að það verði gert, því að síldarútgerðin verður þá svo vafasamur atvinnuvegur. Fyrir því höfum við flm. till. þessarar lagt áherzlu á, að reynt sé að ná samningum um sölu síldar til Rússlands, en öðruvísi en með vöruskiptum verða þeir tæplega fáanlegir. — Vildi ég svo leyfa mér að mælast til þess, að till. þessi verði samþ.