10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í D-deild Alþingistíðinda. (4103)

223. mál, viðskiptasamningar við erlend ríki

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég hefi auðvitað ekkert á móti því, að ríkisstj. leiti ráða og umsagnar utanríkismálanefndar um þetta mál. En við flm. höfum lagt það til, að þessar framkvæmdir yrðu gerðar í samráði við stjórnir landsmálaflokkanna á Alþingi, af því að Alþýðuflokkurinn á engan fulltrúa í utanríkismálanefnd og hefir því ekki tækifæri til þess að fylgjast með gangi mála þar.

Viðvíkjandi orðum hæstv. forsrh. hefi ég eiginlega ekkert að segja. En ég tel, að samningar okkar við Englendinga séu jafnskammt á veg komnir, þótt Sveinn Björnsson sendiherra hafi farið til Englands til þess að kynna sér þar tollamál. Og ég er á þeirri skoðun, að sjálfsagt sé að reyna að komast að heildarverzlunarsamningi við Rússa um vöruskipti á sem flestum sviðum.