10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (4118)

223. mál, viðskiptasamningar við erlend ríki

Hannes Jónsson:

Ég held, að þm. séu yfirleitt sammála um, að hér sé um mikilsvert mál að ræða og að það eigi eftir eðli sínu að heyra undir utanríkismálanefnd. En ég er hræddur um, að það sé ekki rétt eða þingleg aðferð að vísa þessari þáltill. til utanríkismálan. og ætla henni að fjalla um hana á milli þingfunda, af því að hún er ekki þingnefnd og starfar ekki að þingmálum á sama hátt og venjulegar nefndir í þinginu. Ég álít réttast að vísa þessu máli til stj., og svo getur hún snúið sér með það til utanríkismálanefndar, og mun ég gera það að till. minni.

Í sambandi við þessa þáltill. hefir talsvert verið talað um það, að fulltrúar jafnaðarmanna ættu ekki sæti í utanríkismálan., og að þess vegna hefðu þeir ekki aðstöðu til að taka þátt í meðferð þessara mála þar, en þó er nú búið að benda á leið til þess, að þeir geti fengið eitt sæti í n. Mér finnst það ekkert höfuðatriði, að allir flokkarnir fái að hafa fulltrúa í þeirri n., en hitt er aðalatriðið, að n. sé þannig skipuð, að þau mál, sem hún fjallar um, verði vel leyst og fái góð úrslit. Ég er alls ekki viss um, að það verði betur tryggt, þó að jafnaðarmenn hafi þar einn fulltrúa. En það kann að vera, að einhverjir aðrir líti svo á. Ég býst þó ekki við, að það sé ástæða til, að heill þingflokkur standi þar upp fyrir þeim og viki sæti úr n. — Ég hygg, að heppilegasta leiðin til þess að afgr. þetta mál á þinglegan hátt sé sú, að vísa þessari þáltill. til ríkisstj. og að hún beini henni síðan til utanríkismálan. Vænti ég þess, að hæstv. forseti taki þá till. mína til greina.