10.03.1932
Neðri deild: 25. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í C-deild Alþingistíðinda. (4130)

118. mál, húsnæði í Reykjavík

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég hefi leyft mér að bera þetta frv. fram enn á ný. Ég hygg það orki ekki tvímælis, að hinar sömu ástæður séu enn ríkjandi hvað húsnæði snertir í þessum bæ, sem áður, hafa legið að flutningi þessa frv. Því verður ekki á móti mælt, að mikill hluti bæjarbúa lætur af hendi mjög mikið gjald fyrir húsnæði sitt, og í mörgum tilfellum um skör fram, bæði um sanngirni og greiðslugetu. Á þetta hafa ekki verið bornar brigður, enda er hér um óyggjandi staðreyndir að ræða. Þetta er höfuðatriði málsins, og af þessum ástæðum hefi ég leyft mér að flytja þetta frv. sem tilraun til nokkurra umbóta á þessum sviðum.

Á síðasta þingi var nokkuð að frv. vikið og einstökum atriðum þess. Hefi ég nú tekið til greina sumar þær bendingar, sem þá komu fram, og breytt frv. í nokkrum smávægilegum atriðum, en í höfuðatriðum og stefnu er frv. óbreytt, sem sé tilraun til þess að koma í veg fyrir húsaleiguokrið hér í bæ. Hin smávægilegri atriði, sem gerð voru að umræðuefni í sumar á þinginu og talin voru valda erfiðleikum í framkvæmdinni, hefi ég flest numið burt úr frv. (EA: Ekki öll). Flest a. m. k. (EA: b-nei). Já, það gat að mínu áliti ekki komið til mála að nema burt ákvæðið um hámark húsaleigu, því þá væri fyrir það girt, að lögin kæmu að nokkru gagni.

Þá skal ég víkja nokkuð að breyt. þeim, sem ég hefi gert á frv. frá því í sumar. Upphaflega var gert ráð fyrir því, að skriflega samninga skyldi gera um húsnæði. Þetta þótti ýmsum vera óþarft ákvæði, og eftir þessu frv. eru munnlegir samningar látnir nægja, en báðum aðilum er eftir sem áður rétt að leita álits nefndarinnar um leigumálann. Ennfremur er því bætt við, að leigusali geti sagt upp húsnæði, ef hann telur sig þurfa, án sérstakrar greinargerðar hvers vegna. (EA: Það er nú gott). Hinsvegar er ákvæði um það, að bæjarstj. megi taka til ráðstöfunar autt húsnæði. Þá er og numið burt það ákvæði, að óheimilt sé að láta utanbæjarfólki hús í té. Ég geri ekki ráð fyrir þeim fólksstraumi til bæjarins, eins og nú er ástatt, að það út af fyrir sig geri framkvæmd laganna erfiðari.

Þá var því og haldið fram, að hundraðsgjald það, 15% af fasteignaverði og 5% af verði sömu lóðar, sem taka mætti sem húsaleigu, væri allt of lagt. Þess vegna hefi ég tekið upp viðbótarákvæði í 10. gr. frv., þar sem n. er heimilað að taka til yfirvegunar og ráða leigumálanum, enda þótt hann fari upp úr þessu hundraðsgjaldi, ef ástæður leigusala mæla sérstaklega með því. Mér virðist það ekki með öllu útilokað, að þegar hús eru ný og vönduð, þá geti þessi hundraðstala undir vissum kringumstæðum verið of lag, miðað við fasteignamat. Mér er tjáð af fróðum mönnum, að húsnæði sé ærið misjafnt hér í bæ, bæði um útbúnað og frágang allan og raunverulegan dýrleika. Það er því eftir atvikum bæði rétt og skylt að taka tillit til þess, þar sem fært þykir.

Ég geri ekki ráð fyrir, að það orki tvímælis, að einna mestur dýrleiki á lífsnauðsynjum í þessum bæ sé á húsnæði. Vel má það vera, að ekki verði ráðin bót á því til fulls með lagasetningu, en eftir mínum kunnugleikum er enginn vafi á því, að slík löggjöf myndi ráða hér bót á að nokkru. Þeir tímar eru nú framundan, að sjáanlegt er, að leita verður allra ráða til þess að draga úr dýrtíðinni, en hvað Reykjavík snertir, og um leið allt landið, þá er það fyrst og fremst húsaleiguokrið, sem heldur dýrtíðinni uppi. Um það verður ekki deilt. Og eftir horfum yfirstandandi tíma og afkomu atvinnurekstrar til lands og sjávar er það ekki sjáanlegt, að þeir verði þess megnugir að halda uppi starfsemi sinni áfram, ef kaupgjald allt og verðlag er slíkt sem, nú er. Eins og dýrtíðin er í Reykjavík, þá er það lítt hugsanlegt, að allur almenningur geti bjargazt áfram með þær litlu tekjur, sem þvílíkir atvinnuleysistímar gefa í aðra hönd, ef dýrtíðin og húsaleiguokrið verður svo óskaplegt sem nú er og verið hefir að undanförnu. Þess vegna hefi ég ráðizt í flutning þessa máls hér á Alþingi, og það er trú mín, að ef frv. þetta nær fram að ganga, þá gæti það orðið til stórmikilla bóta á núverandi ástandi, a. m. k. hvað snertir allmikinn hluta bæjarbúa.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið að sinni, en vænti, að hv. þd. lofi því að ganga fram, og geri ég það að till. minni, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til allshn.