10.03.1932
Neðri deild: 25. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í C-deild Alþingistíðinda. (4134)

118. mál, húsnæði í Reykjavík

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki blanda mér í deilu hv. flm. og hv. 3. þm. Reykv. En þegar um það er að ræða, hver greiði Reykvíkingum er gerður með þessu frv., þá er það áreiðanlega hinn mesti bjarnargreiði. Það fer um afleiðingar frv. líkt og segir í sögunni af manni einum, þegar fluga settist á vanga hans. Vinur hans, Björn að nafni, vildi koma honum til hjalpar og sló hann í andlitið með hnefanum til að flæma burt fluguna, en af högginu hlaut maðurinn þann áverka, sem leiddi til bana. Síðan hafa hin misheppnuðu vinahót verið nefnd „bjarnargreiði“.

það er óneitanlega eitthvað sérkennilegt við það, að hv. flm. skuli vera að troða þessum greiða upp á Reykvíkinga, þegar allir þm. bæjarins beiðast undan honum og eru frv. mótfallnir. Það er ólíklegt, að þeir geri það af illum hug til sinna kjósenda, en hitt er þeim öllum ljóst, að hér er aðeins um kák að ræða. Hv. flm. mælir fyrir þessu frv. með því að þylja upp raunarollur um vandræði almennings hér í bænum og ýmiskonar fróma þanka um að bæta úr ástandinu, en það eru engin rök fyrir gildi frv. Við játum, að það er erfitt fyrir fátæklinga að greiða háa húsaleigu, en það er ólíklegt, að þeim gangi það betur, þó að hún verði enn hærri. Og ég sé ekki betur en að þetta frv. leiði til þess, að húsaleigan hækki.

Ég mun vera þannig á vegi staddur, að ég er líklegur til að komast í húsnæðisnefnd hér í bænum samkv. þessu frv., þar sem ég hvorki er leigjandi né á hús til þess að leigja út, og get því litið óhlutdrægt á málið. — Athugum nú, hvernig stendur á, að húsaleigan er mismunandi og að menn verða að taka dýrar íbúðir. Ég get hugsað mér tvennskonar ástæður fyrir því. Hin fyrri er sú, að ef leigjandinn er óæskilegur, hávaðasamur og hirðulítill eða hefir slæma framkomu, þá getur verið, að húseigandinn hækki leiguna til þess óbeinlínis að ýta honum burt. Og ég skil ekki, hvers vegna húseigendur mega ekki hafa dálítið mismunandi mat á leigjendum. Hin ástæðan er sú, sem alltaf er meginástæðan, ef einhver hlutur er seldur of dýrt, að of lítið er til af þeim hlut. Það gæti enginn leigt húsnæði óeðlilega dýrt, ef nóg væri til af húsum.

Annað atriði í þessu máli, sem ég vil benda á, er það, að þó húsaleigan sé ekki ósanngjarnlega há, getur hún fyrir því yfirleitt verið of há. Það stafar af því, að húsin eru of dýr. Ef hægt væri að koma upp ódýrari húsum, sem þar af leiðandi væri hægt að leigja fyrir minna verð, þá myndu menn eflaust gera það. Ég held því, að orsakirnar til hinnar háu húsaleigu hér í Reykjavík séu fastari fyrir og rótgrónari en það, að það dugi jafnalgengt og einfalt ráð eins og það að skipa eina nefndina ennþá til þess að hún lækki. Ef í n. væru skipaðir sanngjarnir menn, þá mundu þeir yfirleitt staðfesta það verð á íbúðunum, sem nú er. Hún mundi e. t. v. lækka leiguna í rétt einstaka tilfelli, ef sérstakur okrari ætti í hlut. Þó það sé auðvitað leiðinlegt, ef menn okra á náunganum, þá held ég, að þær undantekningar réttlæti ekki þessa lagasetningu, því það mun ekkert vera algengara, að okrað sé á íbúðum en öðru, sem leigt er eða selt. Það, sem hér þarf að gera, ef koma á í veg fyrir of háa húsaleigu, er að örva húsabyggingar þangað til svo mikið er til af íbúðum, að ekki sé hægt að leigja eina tiltölulega hærra en aðra.

Eitt einstakt atriði í frv. vil ég minnast á. Er það hámarkið, sem á að vera á húsaleigu, 15% af fasteignamatsverði hússins, að viðbættu 5% af lóðarverðinu eftir fasteignamati. Mér þykir mjög einkennilegt, að hér skuli miðað við fasteignamatsverð, þar sem menn aftur á móti verða að greiða tekjuskatt af húseignunum miðað við brunabótavirðingu. Fasteignamatsvirðing er oft svo langt undir kostnaðarverði, að 15% hámark á leigu miðað við hana næði ekki nokkurri att. Það myndu margir, sem byggt hafa fyrir dýr lán, verða þegar vanskilamenn, ef þeir mættu eigi leigja dýrara en þetta. Að vísu hefir verið settur öryggis„ventill“ í niðurlag 10. gr., með því að heimila húsnæðisnefnd að ákveða hærri leigu, ef henni þykir sýnt, að kostnaðarverð hússins sé svo hatt, að 15% af fasteignamati sé ekki viðunandi leigumáli fyrir húseiganda. En mér finnst það ansi hart, að menn þurfi að eiga það undir úrskurði nefndar, hvort menn verða vanskilamenn eða ekki. Nú hefir húseigandi e. t. v. reiknað húsið út og getur leigt það fyrir það verð, að hann getur staðið í skilum, og getur hann þá átt á hættu, að n. banni honum að leigja nema fyrir lægra verð. Auðvitað verða slíkar ráðstafanir til að aftra mönnum frá að byggja; menn forðast að láta fé sitt í eignir, sem eru að einhverju leyti ófrjálsar. Þetta er meginástæðan gegn frv. Hömlurnar, sem það gerir ráð fyrir, verða til þess, að færri ráðast í að byggja, framboð á íbúðum minnkar og húsaleiga hækkar þar af leiðandi.

Ég ætla ekki að fara að ræða mikið um dýrtíðina hér í Reykjavík. En starf hv. flm. þessa frv. gegn henni virðist raunar vera ennþá óeigingjarnara heldur en hv. samþm. minn lýsti, því það er ekki óæskilegt fyrir nærsveitirnar, að það haldist svona þó nokkur dýrtíð hér í Reykjavík. Það er ekkert að því fyrir þær, að talsvert miklir peningar fljóti hér, að veltan sé mikil hjá bæjarbúum, því þá eru markaðsskilyrðin betri.

Ég skal ekki blanda mér inn í deilur framsóknar- og jafnaðarmanna út af byggingu verkamannabústaða. Ég er á móti slíkum byggingum af þess opinbera, eða með beinum stuðningi þess, vegna þess, að reynslan annarsstaðar hefir sýnt, að þegar farið er að gera sérstakar ráðstafanir í þessa átt, dregur það úr byggingum yfirleitt. Menn, sem annars hefðu byggt af eigin rammleik, fara að bíða og bíða, í þeirri von að lenda undir einhver vildarkjör. Ef opinberar ráðstafanir eiga að verða til þess, að meira sé byggt en ella, verða þær að vera mjög stórkostlegar. Það er ekki sanngjarnt af hv. flm. að heimta af hverjum, sem andmælir frv. hans, að hann hafi á reiðum höndum annað ráð til að húsaleigan í Reykjavík lækki. Það setja margir út á kvæði og benda á galla þess, þó þeir geti ekki sjálfir ort betur. ég get að vísu bent á betri leið í þessu máli heldur en að samþ. frv., og það er að samþ. Það ekki. Þegar ráðlagt er að setja lög til að koma í veg fyrir háa húsaleigu, sem myndu frekar hafa áhrif í þá átt að hækka húsaleiguna, þá er betra ráð fólgið í því að setja þau lög ekki.

Það væri einnig ráð til að lækka húsaleiguna að útvega lánsfé með hagkvæmum kjörum. Það er ráðstöfun til bóta, ef það væri hægt. nú hefir veðdeildin verið svo að segja lokuð til langs tíma. Yfirleitt er eina ráðið, sem að gagni getur komið í þessu efni, að örva menn á heilbrigðan hátt til að byggja sem mest.

Ég greiddi atkv. á móti búnaðarbankalögunum þegar þau voru afgr. héðan úr hv. d., hefi líklega verið sá eini, sem það gerði. Það var nú af ýmsum ástæðum, en fyrst og fremst var það af því, að ég sá, hvar fiskur lá undir steini að því er veðdeildina snerti. Það var verið að kljúfa hana með því að setja nýja veðdeild handa sveitunum, en skilja kaupstöðunum eftir veðdeild Landsbankans. Fram að heim tíma var skárra að fá þar lán til bygginga en nú er. En þarna ráku á eftir fulltrúar þess hluta landsmanna, sem tiltölulega flesta fulltrúana hefir á þingi. Að slíta þannig í sundur veðdeildina fannst mér því svipað og að leysa uppskipunarbát aftan úr mótorbát, sem á að draga hann. Þegar Reykjavík er orðin ein eftir með veðdeild Landsbankans, þá er ekki mikil von til þess, að mikið verði lagt í sölurnar til þess að bæta verðbréfamarkað hennar. Ég er ekki að halda því fram, að það sé heilbrigt, að ríkið taki lán til veðdeildarbréfakaupa. Er vonandi, að ríkisveðbankinn bæti á sínum tíma úr þörfinni með verðbréfasölu erlendis. En meðan ekki er hægt að útvega sæmilegt lán til bygginga, held ég, að ekkert sé hægt að gera í þessu máli, sem að verulegu gagni kemur.

Húsaleigunefnd gæti e. t. v. lækkað húsaleigu í einstaka húsi, og væri það ekki nema gott. En það gagn svarar alls ekki til þess fyrirkomulags, sem frv. gerir ráð fyrir, til þeirra óþæginda og kostnaðar, sem það mundi hafa í för með sér, ef að lögum yrði.