10.03.1932
Neðri deild: 25. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í C-deild Alþingistíðinda. (4136)

118. mál, húsnæði í Reykjavík

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég nenni ekki að eltast við öll þau smáatr., sem hv. 4. þm. Reykv. tíndi hér fram, en vil aðeins víkja að nokkrum atriðum í ræðu hans. Hann viðurkenndi eins og aðrir, sem andmælt hafa þessu frv., að talsvert húsaleiguokur myndi eiga sér stað í þessum bæ. Það var ekki heldur von, að hann vildi mæla því í gegn, þar sem sannað er, að slíkt á sér því miður stað. Hann var að leita að ástæðum fyrir því, að húsaleigan væri svona há, og fann tvær. Hin fyrri var sú, að leigusala kynni að falla illa við leigjanda, þykja hann ganga illa um hús, vera sóðalegur o. fl. þessh., og ætlaði svo að bæta þessa galla hans með því að láta hann greiða meira fé fyrir húsnæðið ég geri nú satt að segja lítið úr þessum ástæðum. Ég held nefnilega, að þeir, sem yfir húsnæði hafa að ráða, vilji yfirleitt heldur vera alveg lausir við slíka leigjendur en að taka nokkrum krónum meira af þeim fyrir húsnæðið. Ég býst við, að þessi ástæða megi sín afarlítils og að húsaleiga í Rvík sé ekki hærri fyrir þær sakir, þá benti hv. þm. á aðra ástæðu, og hún var sú, að húsnæði í Rvík væri of lítið. Þessi ástæða ein út af fyrir sig væri ærin á móti málinu, bara ef hún væri fyrir hendi. Það má að vísu vera, að húsnæði hér í bænum hafi verið heldur lítið, en þó hefi ég bæði í vetur og sumar veitt því athygli, að talsvert er af auglýsingum í blöðunum, þar sem hús eru til boða. Er þetta á annan veg en lengi hefir tíðkazt hér í bæ. Bendir það til þess, að húsnæði sé ekki af svo mjög skornum skammti, þótt e. t. v. væri æskilegra, að greiðara væri um í þeim efnum. Hv. þm. lagði aðaláherzluna á þetta atriði. Hitt nefndi hann aftur á móti ekki, sem miklu máli skiptir, hverskonar leigumálar eru ríkjandi í bænum, eða við hvaða verði menn vilja láta húsnæði sitt í té. Það getur oft verið svo, að húseigendur telji sér fremur hag í því að láta sumt af húsum sínum standa autt en lækka leiguna. Mér finnst, að þeir menn, sem væru svo fjárhagslega illa staddir, að þeir þyrftu að gripa til þessa óyndisúrræðis, ættu fremur að byrja á því að lækka leiguna. En sé því ekki til að dreifa, er hægt að halda nokkru af húsnæðinu auðu, en leigja hinn hlutann þeim mun dýrara, og halda á þann hátt uppi leigunni. Hv. 4. þm. Reykv. veit, að þetta tíðkast oft í almennum viðskiptum. Nærtækt dæmi því til sönnunar er það, er nokkrir menn komu af stað einokun á einni vörutegund hér á landi. Ég á hér við olíusöluna. Viðskiptamenn voru bundnir samningum um að skipta aðeins við þetta eina fyrirtæki, og með því móti helzt verðið stórkostlega uppi. Þetta liggur fyrir skjallega sannað. Verðið helzt sannarlega ekki uppi af þeim sökum, að of lítið væri til af öllu, heldur af því, að verzlunin var komin á eina hönd og hún réð verðinu. (EA: En eru húsin í Reykjavík komin á eina hönd?). Nei, að vísu ekki. (ÓTh: En fáar?). Já, tiltölulega fáar, borið saman við fólksfjölda. Þetta veit hv. þm. G.-K. vel, þar sem birt hefir verið opinberlega skýrsla um þetta mál og úbýtt hér á Alþingi. Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að örva þyrfti húsabyggingar hér í bænum og taldi það bezta raðið við þessum vanda. Ég skal játa það, að það myndi e. t. v. ráða bót á hinni þau húsaleigu, ef hægt væri að örva mjög ódýrar byggingar, en þó vildi ég ekki ábyrgjast, að svo færi. En af því að hv. 4. þm. Reykv. lagði svo mikla áherzlu á það atriði, að menn mættu ekki fá lægri húsaleigu en nú er án þess að verða vanskilamenn og ganga á gerða samninga, þá vil ég varpa fram á spurningu, hvernig færi, ef húsaleigan þrátt fyrir allt lækkaði. Yrðu þá þessir menn ekki sömu vanskilamennirnir? Ef svo er ekki, er það játning á því hjá hv. þm., að þessir menn búast við, að aðdragandinn að nægilegri húsaaukningu verði svo langur, að þeir geti á þeim tíma verið búnir að afborga mikið húseignir sínar. Annars yrðu þessir menn sömu vanskilamennirnir, hvort sem húsaleigan lækkaði vegna sérstakra ráðstafana eða af sjálfsdáðum. Þessu er ekki til neins að mótmæla. En það er rétt að minnast á það í þessu sambandi, hvílíkt böl þessi okurleiga er fyrir alþýðu manna í þessum bæ. Og þegar sú hlið málsins er athuguð, fullyrði ég hiklaust, að fjöldi manna greiðir nú húsaleigu langt um efni fram, og mjög margir húseigendur taka meiri leigu en nauðsyn og réttlæti krefja. ÓTh: Eru þeir nú orðnir „mjög margir“ húseigendurnir? Var þetta ekki allt saman í fárra manna höndum?).

Hv. 4. þm. Reykv. svaraði þeirri kröfu minni til hans um betri lausn á þessu máli en í frv. mínu felst á þá leið, að það væri strax betra að flytja ekki þetta frv. Þetta er nú hans skoðun. Á svona litlum röksemdum voru mótmæli hans reist. Og þó einkum er hann viðurkenndi, að húseigendur tækju meiri leigu en þeim bæri. Þá vek hann orðum sínum að Búnaðarbankanum. Það mál er þessu óskylt, og ætla ég ekki að leiða það inn í umr. að sinni, þótt hv. þm. gæfi tilefni til þess.

Hv. 2. þm. Reykv. þarf ég litlu að svara. Hann hóf ræðu sína á því að tala um ósamræmið á milli brunabóta- og fasteignamatsvirðinga hér í bæ. Þetta er rétt. Og ég get viðurkennt, að þar sem hvor virðingin fyrir sig er lögð til grundvallar fyrir gjöldum, þá er þar ekki fullt samræmi á milli, og er það illt. Að ég lagði ekki brunabótavirðingu húsanna til grundvallar í þessu frv., stafar af því, að kunnugir menn hafa sagt mér, að brunabótavirðingin myndi vera nokkru ofan við hið raunverulega verð. Ég veit að vísu, að húseignir kosta meira en fasteignamatsverðið bendir til, og sökum þess hafði ég prósentutöluna þetta hærri en hóflegt myndi, ef fasteignamatið væri hið raunverulega verð. Svo hefi ég einnig gætt þess, að ef eitthvað bæri á milli, væri hinni væntanlegu nefnd mögulegt að mæta þeim ástæðum, sem fram kynnu að koma. Hv. þm. taldi sig því samþ., og vænti ég þess, að hann standi við það.

Þá vek hv. 2. þm. Reykv. að því, að þótt menn hefðu komizt yfir ódýr hús og stæðu sig því betur við að leigja þau við vægu verði, þá væri hæpið, að rétt væri að skylda þá til þess. (EA: Já). Já, þarna skilur okkur gersamlega a. Ég álít, að yfirleitt, og ekki sízt á öðrum eins örðugleikatímum og nú eru, eigi umhugsunin um velferð alþýðu manna að sitja í fyrirrúmi. Þegar ákveðið var, hve háa vexti menn mættu taka af fjármunum sínum, var ekkert tillit tekið til þess, hversu mikinn kostnað eigandinn hafði haft við öflun þeirra. (EA: Við hvað á hv. þm.?). Ég á við l. um lögleigu. Hv. þm. veit bezt, á hvern hátt þessi 1. eru til komin. Sú ákvörðun var tekin af löggjafarvaldinu til þess að vernda hagsmuni almennings. (EA: Mér virðist þetta einungis sanna mitt mál, og ekkert annað). Þvert á móti. Sá, sem hafði haft mikinn kostnað við öflun fjármunanna, mátti ekki taka hærri vexti af þeim en hinn, sem e. t. v. hafði eignazt þá að kostnaðarlausu. (EA: M. ö. o. þeir máttu taka jafnt). Hv. 2. þm. Reykv. vill þó ekki halda því fram, að hús, sem kostað hefir 10 þús. kr., hafi kostað eigandann jafnmikið og annað, sem kostaði 17 þús. kr. (EA: En eftir l. eiga þeir að fá jafnt).

Þá sagði hv. 2. þm. Reykv., að bankarnir myndu ekki hafa lánað mikið fé til þessara dýru bygginga. Óbeint hafa þeir gert það, enda stóð það ekki í þeirra valdi að hindra, að einstakir menn tækju fé út úr bönkunum til þess að leggja í þessi dýru hús. Mér hefir verið sagt, að á nokkrum lóðum, sem eru eign bæjarins, sé bannað að byggja annarskonar hús en hinar svonefndu „villur“. Það sé blátt áfram skilyrði til þess að fá að byggja á lóðum þessum að hafa húsin með ákveðnu sniði. Þótt það sé svo sem hv. 2. þm. Reykv. segir, að þeir menn, sem byggja þessi dýru hús, leigi fyrir neðan sig (EA: Eða ofan), þá væri miklu æskilegra, að allt öðruvísi væri byggt og meir við hæfi almennings.

Ég var alls ekki í minni ræðu að víkja nokkru að hv. 2. þm. Reykv. né öðrum, sem í þessu máli hafa talað, viðvíkjandi þeirra eigin byggingum. Það kemur mér ekkert við. Ég nefndi aðeins þessar byggingar sem dæmi þess, hve miklir fjármunir eru settir í lítið húsnæði og stuðla því að dýrri húsaleigu. Annars er mér kunnugt um, að þessi hv. þm. á prýðilegt hús við eina af götum bæjarins, þótt ekki komist það undir þetta „villu“-heiti, og þótt svo væri, þá veit ég, að hann myndi ekki andmæla frv. Þess vegna. (EA: Mér er persónulega alveg sama um þetta atriði). Ég hefi líka gengið út frá því.