10.03.1932
Neðri deild: 25. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í C-deild Alþingistíðinda. (4138)

118. mál, húsnæði í Reykjavík

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég held, að þessi „villu“þræta sé dálítið utan við málið, því að þótt einhverjir hafi reist sér dýr hús og búi í þeim sjálfir, hefir það engin áhrif á húsaleiguna í Rvík yfirleitt, frekar en skrauthýsi t. d. í Lundúnum hafa það. Ég sé ekki, að húsaleiga sé yfirleitt of há. Ég vil alls ekki kannast við það, að hér væri „húsaleiguokur“, eða að það tíðkaðist mjög. Ég er ekki svo kunnugur í bænum, að það geti ekki verið innan um og saman við menn, sem okra á húsum sínum, en algengt er það ekki. Og ef það væri til, þá stafaði það einungis af of litlu húsnæði, því að menn geta ekki okrað á hlutum, sem nóg er til af. Húsnæðisvandræðin ein fá orsakað slíkt okur. Það mun vera rétt hjá hv. þm., að talsvert sé farið að sjást af húsnæðisauglýsingum í blöðunum, og það ber vott um, að vandræðin eru ekki eins mikil nú og áður. Annaðhvort stafar það af því, að aðstreymi til bæjarins hefir minnkað eða húsnæði er meira til en áður. En hvað synir þetta? Einungis það, að ef svona heldur áfram, er húsnæði komið að því að lækka í verði, Þótt ein og ein íbúð sé leigð, hefir það ekki nokkur áhrif á heildarverðið. En fari að verða margir húseigendur, sem verða að leita á til þess að fá leigjendur, í stað þess að leigjendur leituðu á áður, þá fer það eins og með erlendan gjaldeyri, að leigan hlýtur að lækka. Ég get sagt það sem dæmi um húsnæðisvandræðin, að ég frétti, að maður nokkur hér í Rvík ætti von á að fá embætti úti á landi og spurði hann því, hvort ég myndi geta fengið íbúðina hans. ég var sá 63. í röðinni, sem spurði um slíkt ! 62 voru komnir á undan mér, af því að þá hafði grunað, að þarna myndi losna íbúð ! Annað dæmi. Það dó kona hér í bænum, og viðbúið var, að maðurinn myndi hætta að halda heimili. Þegar ég frétti það, fór ég til mannsins, þó ekki fyrr en búið var að jarða konuna. En það var of seint. Menn höfðu byrjað að spyrja eftir íbúðinni undireins og konan veiktist ! Það eru einmitt þessi vandræði, sem orsaka, að húsaleigan fer upp úr öllu valdi. Hér í Reykjavík eru eins og annarsstaðar nokkuð erfiðir tímar, og má því vera, að menn sæki minna til bæjarins en áður og þá rýmkist um. Og e. t. v. fer það svo, að fái hv. 1. þm. Árn. Þetta samþ., þá verði hann svo heppinn að koma, eins og skottulæknarnir, með meðalið, þegar lækningin er að koma af sjálfu sér, en þakka svo sér þetta eftir á. Húsaleigan getur líka lækkað vegna erfiðleikanna um greiðslu. Það er æfinlega svo, að þegar menn eiga erfitt með að greiða, þá fara húseigendurnir að sigta betur úr þá, sem þeir vilja skipta við, og þeir vilja heldur leigja þeim, sem eru öruggir um greiðslu, fyrir lítið eitt lægra verð. Þetta verður til þess, að húsaleigan fer lækkandi, og ég get ímyndað mér, að þannig verði það á næstu árum hér í Rvík. En allt þetta er aðeins einn sorglegur vottur um, hvernig þetta ástand er. Þegar hátt verð er einhversstaðar, blómgast viðskipta- og atvinnulíf. Þannig hefir það verið hér í Rvík undanfarið. Það er því blandin ánægja að sjá þetta háa verð lækka sífellt.

Það mun vera rétt hjá hv. þm., að eftir skipulagsuppdrætti bæjarins eru vissir hlutar hans, sem bannað er að byggja nema einbýlishús á. Það eru vissar götur, sem ætlazt er til, að byggð verði einungis sambýlishýs við, og einbýlishúsin aftur við aðrar. hér er verið að hugsa um útlit bæjarins. Það þykja skemmtilegri og hollari hús, sem standa ein sér, með rúmgóðum görðum í kring, heldur en sambýlisbyggingarnar. Það má vel vera, að þetta þyki heldur mikill „lúksus“, en menn hér langar nú til þess að vera eins og annarsstaðar. En ef menn ætla að spara alla skapaða hluti, þá væri bezt að lögbjóða mönnum að búa í einhverjum hottentottakofum, einhverjum „leirkrúsum“, eða jafnvel snjóhúsum eins og Eskimóar. Nei, hér er aðeins verið að hugsa um útlit bæjarins. Það þykir fara betur á því að skipa litlum húsum saman í hverfi, og svo stórum aftur annarsstaðar. Þetta er mikil framför frá því, sem áður var. Ég sný ekki aftur með það, sem ég benti á aðan, að það er strax betra að láta vera að setja þessi l. en setja þau. Það er mín meginröksemd, að það eigi ekki að gera neitt til þess að draga úr byggingum, en það gera þessi l.

Svo er það aðeins eitt, sem ég vildi svara í ræðu hv. þm. Hann sagði, að það væri orðið allvíðtækt, að menn heldu íbúðum óleigðum til þess að hafa áhrif á leiguna. (JörB: Það sagði ég aldrei). Og hv. þm. tók til dæmis um það, hve slík áhrif gætu orðið hættuleg, að olíuhringur hefði myndazt hér fyrir nokkrum árum og látið menn kenna mjög hart á sér. Þetta er algerlega ósambærilegt. Fyrst er það nú, að íbúðir eru alls ekki komnar á eina hönd, og m. a. s. ekki á fáar hendur. Ég veit varla um nokkurn mann, sem hefir sett stórfé í húseignir, sem hann leigi út. Það kann að vera, að sami maður eigi e. t. v. 2 hús, en varla mun um stórhringa að ræða í þeim efnum. Það er svo gerólíkt um steinolíuhring og þessar húsabyggingar, að það er yfirleitt svo með leigusala, að þeir mega enga íbúð láta óleigða, en hin feiknastóru félög, sem stofnuð eru með millj. og milljarða króna höfuðstöl, geta auðveldlega verzlað sér til skaða í einu landi meðan þau eru að níða niður keppinauta og ná allri verzluninni undir sig. En þetta getur ekki komið til greina hér.

Mér skildist, að hv. þm. fellist á það, að íbúðirnar væru ekki á fárra manna höndum, a. m. k. talaði hann um, að ósanngjarnir leigjendur væru mjög margir, en ef íbúðirnar væru á fárra manna höndum, þá skil ég ekki, hvernig ósanngjarnir leigusalar gætu verið mjög margir, því að ekki geta þeir ósanngjörnu verið fleiri en leigusalar yfirleitt.

Ég held annars, að ekki sé ástæða til þess að ræða þetta þrautrædda mál frekar. Það er eðlilegt, að fram komi ár eftir ár sömu röksemdirnar, en mér finnst, að hv. þdm. ættu að taka nokkurt tillit til þess, að allir þm. bæjarins, sem þó eru ekki oft allir sammála, skuli nú allir einhuga um að leggja á móti þessu frv.