19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (4157)

187. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum

Pétur Ottesen:

Það rekur að því, að ekki verður komizt hjá því að taka tillit til óska frá veiðistöðvunum um það, að fiskiskipaflotinn njóti meira öryggis og verndar en verið hefir. Eftir því sem útgerðin vex og fiskiveiðar eru stundaðar af meira kappi, einkum um háveturinn, eykst slysahættan og sú hætta jafnframt, sem veiðarfæri eru undirorpin af völdum togaranna. Þetta hvorttveggja gerir þörf á björgunar- og eftirlitsstarfsemi aðkallandi fyrir sjómenn. Vestmannaeyjar hafa notið slíkrar verndar í mörg ár, enda mun það mála sannast, að þorsknetaveiðar hefðu ekki getað átt sér stað þar nema með föstu eftirlitsskipi. Að öðrum kosti hefði sá atvinnuvegur verið dauðadæmdur. Enda hafa Vestmannaeyingar lagt í mikinn kostnað vegna þessa eftirlits, fyrst lagt fram fé til skipakaupa og síðan lagt út fé til rekstrar árlega.

En þörfin er víðar mikil en í Vestmannaeyjum. Við Faxaflóa eru á annað hundrað bátar, sem sækja sjó í svartasta skammdeginu. Á þessum slóðum er sjór stundaður frá því í nóvember og fram í maí. Á þessum tíma, og þó einkum í janúar, febrúar og marz, er mestur afli. Sjósóknin í hvert skipti tekur allt að því sólarhring, ef vont er veður. Mér er kunnugt um, að á Akranesi fara bátar á sjó venjulega kl. 11–12 að kvöldi og koma aftur að, ef sæmilega gengur, kl. 5–7 daginn eftir, en eru sólarhring úti, ef illt er sjóveður. Þessari sjósókn hlýtur því að fylgja mikil hætta. Togarar eru sem kunnugt er margir á Faxaflóa, og veiðarfærum sjómanna stafar hin mesta hætta af þeim. Ég hefi hér í höndum bréf frá 18 formönnum í Sandgerði, þar sem þeir skora á þing og stjórn að láta eitt varðskip vera á verði í Faxaflóa um veiðitímann. Þeir segja svo í þessu bréfi um hættu þá, er veiðarfærum stafar af völdum togara:

„Togarar hafa á undanförnum vertíðum gert mikil spjöll á veiðarfærum báta hér, og hefir það farið í vöxt, en virðist þó aldrei hafa verið eins mikil brögð að því sem nú, þar sem nú er orðið nokkuð sama hvar línan er lögð í sjó á þessum venjulegu fiskimiðum okkar, þá er maður aldrei óhultur um veiðarfærin fyrir togurum, og er fyrirsjáanlegt, að veiðistöðinni er stórhætta búin, verði ekkert að gert í þessu máli“.

Sömu sögu er að segja frá Keflavík, Njarðvíkum og Akranesi. Allar þessar veiðistöðvar eru undir sömu sökina seldar. Hafa verið samþ. till. á þingmálafundum á Akranesi, er ganga í þessa átt.

Ég veit, að erfitt er að verða við þessum óskum öllum og fella ákveðna dóma um, hvar hættan er mest, því að hún er alstaðar mikil, einkum í háskammdeginu. En þörfin er svo brýn, að ekki verður til lengdar komizt hjá að sinna henni.

Ég held, að eins og málið horfir við nú, sé það heppileg leið, sem sjútvn. hefir lagt til, að farin yrði, að fela stj. og Fiskifél. að rannsaka, hvaða leiðir séu heppilegastar í þessu máli. En menn verða að skilja, að svo stór sem fiskiflotinn er orðinn og sjósókn löng og djörf; er ekki hægt að komast hjá því að veita mannslífunum aukið öryggi og tryggja veiðarfæri manna fyrir ágangi togaranna. Það fer vitanlega saman, að fiskibátarnir og togararnir sækja þangað, sem fiskurinn er á hverjum tíma, og þetta eykur auðvitað hættuna fyrir veiðarfæri manna af völdum togaranna. Ég vænti þess, að stj. og þeir aðilar, sem með þetta mál eiga að fara, finni heppileg ráð til þess, að öryggi manna og veiðarfæra verði betur tryggt en verið hefir.