21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í C-deild Alþingistíðinda. (4163)

134. mál, fyrning skulda

Flm. (Halldór Stefánsson):

Frv. Þetta fer fram á tvær breyt. á fyrningarlögum. Fyrri breytingin er í því fólgin, að kröfur út af sölu eða afhendingu á vörum eða lausafé, sem ekki er afhent sem fylgifé með fasteign, fyrnist á einu ári, í stað fjögra ára. Hin breytingin er sú, að það hafi ekki áhrif á fyrningu þessara skulda, hvort viðskipti haldast óslitin eða ekki milli skuldara og skuldareiganda.

Tilgangur frv. er sá, að vinna á móti skuldasöfnun lausaskulda, fyrst og fremst verzlunarskulda. Honum er ætlað að ná á þann hátt, að gera örðugra og varhugaverðara bæði fyrir lánveitanda og lánþega að stofna til slíkra skulda. má því segja, að frv. sé hemill á óverðskulduðu lánstrausti. Það er svo um lánstraustið sem margt annað gott, að það er tvíeggjað sverð, gott og gagnlegt, ef réttilega er með farið, en annars báðum aðiljum til skaða. Misnotað lánstraust hefir margvíslega bölvun í for með sér. Það leiðir til eyðslu umfram getu, og kemur þannig fram eins og fölsk kaupgeta í viðskiptum, fyrst innanlands, og svo erlendis, sem skiljanlegt er, þar sem ástæðan er sú, að verðmætið, sem á bak við átti að standa, hefir brugðizt. Af misnotkun lánstrausts stafa verzlunarskuldirnar og bankatöpin, en af því aftur skuldirnar við útlönd og vaxtakúgunin og álag á viðskiptin til að standast áfallin og væntanleg áföll.

Fyrningarlögin eru orðin nær 30 ára gömul, og því er ekki furða, þótt viðhorf hafi breytzt á svo löngum tíma og þau þyrftu einhverra umbóta við.

Á það ber einnig að líta í sambandi við fyrningarfrestinn, hvort lífsþarfir liðandi stundar eigi ekki að hafa meiri rétt en eldri þarfir, svo að gamlar skuldakröfur, þótt skýlausar og réttmætar hafi verið í upphafi, verði eftir vissan tíma að þoka fyrir þeim. En það hefir komið fyrir, einkum við innheimtu gamalla verzlunarskulda, að menn hafa verið sviptir brýnustu lífsnauðsynjum og möguleikum til að fullnægja þörfum liðandi stundar, vegna gamalla skulda.

þess er og að gæta, að hvað snertir afhendingu eða sókn á vörum og lausafé er fjögra ára fresturinn ekki annað en blekking,þar sem krafan helzt um áratugi án fyrningar, ef viðskipti haldast. Þetta er alveg óeðlilegt, og er í rauninni alveg sama og að verzlunarskuldir fyrnist alls ekki og er því gefinn meiri réttur en öðrum skuldum, sem þó að lögum er ætlað að vera rétthærri.