23.03.1932
Neðri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í C-deild Alþingistíðinda. (4170)

141. mál, skirteini til vélstjórnar

Haraldur Guðmundsson:

Ég tel þetta frv. mjög varhugavert og að Alþ. fari inn á hættulega braut, ef það samþ. Það óbreytt. Alþingi er alls óhæfur dómari um það, hvort einhver er fær um að vera vélstjóri á gufuskipi eða ekki. Það hefir enga þekkingu í þessu efni og verður að byggja dóm sinn á miðjafnlega áreiðanlegum vottorðum. Auk þess lít ég svo á, að um leið og sett væru lög um það, hverja þekkingu vélstjórar verða að hafa, og námstími þeirra fyrirskipaður til tryggingar, verði jafnframt að tryggja þeim, sem leggja þetta nám á sig aðgang að starfi umfram aðra. Þeir, sem ætla að gera vélstjórn að atvinnu sinni, verða að vinna 3 ár á verkstæði fyrir sárálítið kaup, fyrst í stað a. m. k. Þeir verða að sigla 1 ár sem kyndarar og síðan að stunda 2 vetra nám. Samt eru nú nægilega margir vélstjórar fulllærðir hér á landi. Auk þess eru nú 39 menn á vélstjóraskólanum, og af þeim eiga 13 að útskrifast í vor. Er það því harla varhugavert að veita mönnum undanþágu, sem ekki hafa vélstjóraréttindi lögum samkvæmt. Er mér kunnugt um, að mótmæli hafa komið fram gegn slíkum undanþágum frá Vélstjórafélagi Íslands og vélstjóraskólanum. Þó játa ég það, að það er hart að svipta þá menn þessum rétti, sem áður hafa flotið á undanþágum, þar sem margir þeirra búa við þröngan kost. En eins og ég sagði áðan, þá er Alþingi óhæft til þess að gerast dómari í þessum málum. Ef horfið er að því ráði að veita mönnum, sem áður hafa siglt sem vélstjórar, undanþágur, þá væri bezt, að Alþingi setti sérstök lög um prófraun handa þessum mönnum.