29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í C-deild Alþingistíðinda. (4176)

141. mál, skirteini til vélstjórnar

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég verð að játa, að ég hefi ekki gefið frv. þessu nægilegan gaum meðan það hefir verið hér á ferðinni, einkum af því, að sjútvn. mælti óskipt með frv. En síðan frv. var hér til 2. umr. hefi ég talað við nokkra menn um frv., og af heim viðtölum hefi ég komizt að því, að hér er um varhugavert mál að ræða.

Er augljóst, að ef það á að fara að tíðkast, að menn geti með sérstökum lögum fengið skírteini til þessa starfa, sem aðrir verða að gegnumganga sérstakan skóla til að fá, er þessi stétt í veði. Skal ég ekki draga það í efa, að þetta geti verið færir menn, sem orðið geti góðir vélstjórar, þó að ekki hafi þeir gengið í neinn skóla, en aðeins lært iðn sína af því að vinna að henni. En því verður að halda fram, að ekki er unnt að fá betri tryggingu í þessum efnum en fæst með því að krefjast ákveðins náms af þessum mönnum. Og ef menn geta orðið hæfir til þessa starfs án nokkurs náms, þá ættu þeir ekki að vera síður hæfir við að gegnumganga ákveðið nam í þessu skyni, heldur betri og meiri sómi stétt sinni. Auk þess er á það að lita, að þegar verið er að gera kröfu til þess, að menn gangi á skóla til að afla sér þessara réttinda og er nú fjöldi slíkra manna á vélstjóraskólanum —, er ekki sanngjarnt, að öðrum séu veitt samskonar réttindi án þess að þeir hafi tekið á sig það aukaómak að ljúka þessu námi.

Ég býst ekki við því, að ég muni með þessum orðum stöðva þetta frv., sem hefir fengið meðmæli sjálfrar sjútvn. og enda siglt við góðan byr gegnum þingið til þessa, en ég sé mér ekki fært að greiða frv. atkv. af þessum ástæðum, og vildi aðeins gera grein fyrir atkv. mínu með þessum orðum.