29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í C-deild Alþingistíðinda. (4177)

141. mál, skirteini til vélstjórnar

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Ég geri ráð fyrir því, að hv. 4. þm. Reykv. hafi upplýsingar þær, sem hann hefir fengið, frá einhverjum vélstjórum, og þykir mér ekki nema eðlilegt, að þeir séu því andvígir, að mönnum séu veitt vélstjóraréttindi, sem ekki hafa notið kennslu í þessari grein, en það verður vissulega einnig að taka tillit til þeirra manna, sem gegnt hafa vélstjórastörfum undanfarið vegna vöntunar á skólagengnum vélstjórum, og reynzt hafa ekki síðri að dugnaði og leikni í þessum efnum en hinir, sem skólagengnir eru.

Eins og hv. 4. þm. Reykv. réttilega tók fram, hefir sjútvn. einum rómi lagt til, að frv. verði samþ., en síðan n. gerði þá ályktun hefir henni borizt frv., sem skrifstofustjórinn í atvmrn. hefir samið, þess efnis, að um næstu þrjú ár geti allir þeir, sem gegnt hafa vélstjórastörfum í 5 ár eða lengur, fengið endanleg skírteini til þessa starfa, en að eftir þann tíma sé loku skotið fyrir þetta með öllu. Þetta frv. er nú í prentun og verður lagt fram hér í deildinni á næstunni, og ef það nær samþykki þingsins, verður það frv., sem hér um ræðir, að vísu óþarft, því að þá geta allir þeir, sem gegnt hafa vélstjórastörfum þennan tilsetta tíma, þessi maður sem aðrir, fengið slík réttindi án sérstakra laga, en þar sem nú er mjög liðið orðið á þingtímann og því óvíst um, að frv. geti náð samþykki, enda þótt það hefði fylgi þingsins, vildi ég mega leyfa mér að mælast til þess, að þetta frv. yrði samþ. hér nú og afgr. til Ed. Gæti frv. þá beðið þar, unz útséð er um það, hvernig um hitt frv. fer.