29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í C-deild Alþingistíðinda. (4178)

141. mál, skirteini til vélstjórnar

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki hefja mikil andmæli gegn þessu frv., og er enda ekki kunnugur þessu máli frá rotum. Veit ég t. d. ekki, hve margir slíkir menn enn eru eftir, sem gætu stytt sér leið með þessu móti og þannig dregið úr atvinnumöguleikum þeirra, sem ekki hafa hlíft sér við að ganga undir þetta nám. Þetta er hinsvegar fjórða undanþágan frá vélstjóralögunum, sem borin er fram á þessu þingi, og það má gera ráð fyrir, að þeir séu ekki ómargir, sem enn koma hér til greina. Allir þeir mörgu, sem á vélstjóraskólann ganga, gera það í því trausti, að þeir með því hafi öðlazt meiri rétt en hinir, sem ekkert vilja á sig leggja í þessu skyni. Það má að vísu segja, að það sé hart að veita þeim mönnum ekki vélstjóraréttindi, sem lengi hafa starfað að vélgæzlu, en heim er opin sú sama leið sem hinum, að ganga í skólann, sem ætti að veitast heim fremur létt, enda þótt það yfirleitt sé erfiðara fyrir fullorðna menn að sitja og nema í skóla. Mér er og sagt, að ýmsir þessara manna hafi gert þetta, og ekki ættu þeir þó að hafa staðið betur að vígi í þessum efnum en þeir menn, sem nú er verið að sækja um undanþágur fyrir, og þó að það sé hart að bægja þessum mönnum frá, er þó hitt enn meira misrétti vegna þeirra, sem lagt hafa á sig nam í þessu skyni, því að með því er verið að opna þeim leið til að komast hjá öllum erfiðleikum í þessum efnum.

Út af hinu frv., sem hér var verið að boða, vil ég aðeins segja það nú, að ég er ákaflega hræddur um, að í sama horfið sæki aftur um þessar undanþágur, enda þótt frv. væri samþ. og meiningin sé að taka fyrir undanþágurnar með öllu eftir 3 ár. Er ekki vafi á því, að þessar undanþágur verða til að eyðileggja vélstjóraskólann, og hér er líka í raun og veru um það að ræða, hvort við eigum að hafa faglærða menn á okkar skipum eða ófaglærða. Ég hefi ekki vit á vélum, , en ég veit þó, að vélgæzla er mikið og vandasamt starf, og þar sem hér er auk þess um dýr tæki að ræða, verður að krefjast ákveðinnar skólagöngu af öllum vélstjórum undantekningarlaust. Álít ég því, að bezt sé að taka nú hreinlega fyrir allar þessar undanþágur, því að þótt þær verði leyfðar í 3 ár enn, eins og yrði samkv. frv., sem verið var að boða um þetta, verður jafnhart eftir hann tíma að bægja þessum mönnum frá, auk þess sem á það er að líta, að hér er ekki verið að steypa neinu yfir menn, sem þeim komi á óvart, og enda sanngjarnast, að eitt verði látið ganga yfir alla jafnt í þessum efnum.