21.03.1932
Sameinað þing: 6. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (4194)

91. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Jón Þorláksson:

Nokkur ágreiningur virðist vera um það milli mín og hæstv. fjmrh., á hvern hátt ætti að skipa n. til þess að vinna það verk, sem n. samkv. till. á þskj. 91 er ætlað að leysa af hendi. Hinu ber hann ekki á móti, að svo sé nú ástatt, að nauðsyn beri til, að Alþ. geri að sínu leyti athugun um, hvað unnt sé að gera til niðurfærslu á útgjöldum ríkisins. Hæstv. fjmrh. vildi hafa n. stjórnskipaða, en ekki þingkjörna. Vísaði hann máli sínu til stuðnings í það, að allar n. á Englandi væru stjórnskipaðar. Lét hann það í ljós sem sitt álit, að allar slíkar n. ættu að vera stjórnskipaðar. En út af þessu vil ég endurtaka það, sem ég í raun og veru var búinn að segja í fyrri ræðu sinni, að hér er að ræða um þingnefnd, til þess að starfa meðan Alþ. situr og inna af hendi verk, sem Alþ. þarf að láta framkvæma fyrir sig. Og hvað sem líður tilhögun Englendinga um n.skipanir, er það föst ófrávíkjanleg regla á okkar landi, að allar innanþingsnefndir eru þingkjörnar, og það getur ekki komið til mála að víkja frá þeirri tilhögun. Um hitt er ég honum sammála, að n., sem starfa utan þings, ættu yfirleitt að vera að forminu til stjórnskipaðar, en þó er nú frá því brugðið. T. d. starfar utanríkismálanefnd utan þings og er þingkosin, og er ekkert á móti því, að svo sé um fleiri n. Það er aðeins formsatriði, hvernig slíkar mþn. eru skipaðar, en hitt er meiri fjarstæðan, þegar farið er fram á, að þingið láti bjóða sjálfu sér upp á stjórnskipaða n. þm. til þess að vinna innanþingsstörf. Slíkt getur ekki átt sér stað, og ég geri ráð fyrir, að ummæli hæstv. ráðh. stafi af því, að það hafi verið svo fast í huga hans, að þessi n. yrði að starfa lengur en meðan þing situr, en það er þó ekki ætlun okkar flm. Við viljum með henni fá n., sem starfar meðan þing situr, og eftir því hverjar till. hennar yrðu, yrði athugað, hvort ástæða þætti til þess að gera sérstakar ráðstafanir milli þinga um athugun á niðurfærslu útgjalda ríkisins.

Þá tók ég sérstaklega eftir því, að hæstv. ráðh. sagði, að fyrir sitt leyti óskaði hann þess að hafa n. milli þinga, er skipuð væri mönnum úr öllum flokkum. Það stóð ekki alveg ljóst fyrir mér, hvaða verkefni hann ætlaði þessari n., en ég skildi þó orð hans svo, og gerði það af góðum huga, að skilja þau svo, sem hann ætti við það, að hér yrði tekin upp samskonar venja og í nágrannalöndunum, að stj. leyfi sér ekki að nota fé án heimildar frá fjárveitingarvaldinu, nema bera það undir n., sem er til og skipuð mönnum úr öllum flokkum. Ég get ekki annað en glaðzt af því, ef það hefir verið þetta, sem hæstv. ráðh. vildi láta í ljós með þessum ummælum sínum. Og mér er sérstök ástæða til þess, ef minn skilningur er réttur, að láta í ljós ánægju yfir þeirri framför, sem orðið hefir innan stj. í þessu efni frá því á síðasta þingi. Mönnum var það þá þegar orðið ljóst, að fjáreyðsla stj. utan heimilda var komin langt fram úr því, sem samrýmanlegt er við stjórnarskrá landsins, og öll stjórnartilhögun var að sliga gjaldþol landsmanna. Af hálfu Sjálfstæðisfl. var farið fram á það við hæstv. forsrh., sem þá gegndi störfum fjmrh., að stj. féllist á, að skipuð væri n. milli þinga mönnum úr öllum flokkum, til þess að stj. gæti snúið sér til hennar um samþykki fyrir eyðslu á ríkisfé umfram fjárveitingar, þegar ríkisstj. þætti alger nauðsyn bera til, enda féð ekki notað nema með samþ. slíkrar n. En það verð ég að segja, að þótt komi fyrir endranær, að hæstv. forsrh. sé ekki sérlega fljótur að taka afstöðu eða ákveðinn í svörum, vantaði ekkert á það í þetta sinn, því að ég fékk fljótt nei við þessari málaleitun, algert afsvar um það, að stj. tæki í mál að eiga slíka n. sér við hlið. Ef það er rétt skilið hjá mér, að hæstv. fjmrh. hafi látið gagnstæð svör í ljós, er ég honum þakklátur fyrir þau, og það sýnir, að hann hefir þó dálitla ábyrgðartilfinningu og tilfinningu fyrir því, að stj. á ekki að eyða fé á sitt eindæmi án þess að fjárveiting sé fyrir hendi. En þetta er annað verkefni en þeirri n. er ætlað, sem till. okkar fjallar um.

Þá fór hæstv. fjmrh. dálítið út í sögu skattamálanna frá 1924–1926. Gat hann þess m. a. í því sambandi, að menn þyrftu að tala af nákvæmni um þau mál. En það þótti mér hann ekki gera, þegar hann var að lýsa þessum málum. Hann sagði, að verðtollur og gengisviðauki hefðu verið settir árið 1924, sem rétt er, en svo sagði hann, að þeim tekjum hefði verið haldið alla mína ráðherratíð. Þetta er ekki talað af nákvæmni. Báðum þessum 1. var breytt, þannig að skattar voru lækkaðir, áður en mín stjórnartíð var á enda, eða á þinginu 1926. Hann sagði, að skattarnir 1924 hefðu verið settir á verulegum krepputímum. Það er nú alls ekki rétt. Árið 1924 var ekkert kreppuár. Það var góðæri fyrir atvinnuvegina og verzlun, þótt það væri ekki að sama skapi hagstætt fyrir ríkissjóðinn, og má segja, að hann væri í nokkurri kreppu, þegar stjórnarskipti urðu snemma á árinu, því að hagur hans var þá mjög þröngur. En þessir skattar voru lagðir á í því sérstaka augnamiði að greiða skuldir, sem safnazt höfðu fyrir, og til þess voru þeir líka notaðir. Ég gæti sagt ýmislegt um afstöðu í skattamálum þá og nú, en finn þó ekki ástæðu til þess að draga slíkt inn í þessar umr., því tækifæri munu gefast seinna í sambandi við önnur mál.

Það var svo ekki meira úr ræðu hæstv. fjmrh., sem ég þykist þurfa að svara. Hann gerði enga tilraun til þess að mæla á móti því, að nú bæri brýna nauðsyn til þess að gera athuganir um, hvar væri tiltækilegt að spara og færa niður útgjöld ríkissjóðs. Hann benti á það, að vildu menn spara, yrðu þeir líka að neita sér um eitthvað af því, sem nú fæst fyrir þessi útgjöld. Og það er nú raunar ekkert annað en það, sem menn vissu áður. En svo virðist sem ýmislegt af því, sem landsmönnum nú er veitt á ríkissjóðskostnað, muni ekki vera þeim eins mikils virði og féð, sem til þess gengur. Og það er að sjálfsögðu verkefni þessarar n. að benda fyrst á niðurfærslu á þeim sviðum, þar sem hún álítur, að landsmenn beri minnst úr býtum fyrir peninga sína.

Ég veit ekki, hvort ég þarf að gera frekari grein fyrir þörf á athugun á þessu sviði. Ég veit, að öllum hv. þm. er það ljóst, að útgjöld ríkissjóðs eru nú komin í það horf, að þrátt fyrir skatta, sem atvinnuvegir landsmanna í raun og veru þola ekki, eru ekki horfur á, að ríkissjóður geti haldið áfram að sinna sömu verklegum framkvæmdum og hingað til hafa verið taldar nauðsynlegar innan þjóðarbúskaparins, og eru áframhaldandi starfsemi að hinum eiginlegu framförum í landinu á sviði verklegra mála. En svona er nú komið, og það vegna þess, að öll útgjöld ríkissjóðs, útgjöld, sem a. m. k. ekki veita þjóðinni neinar sýnilegar verklegar framkvæmdir, eru orðin töluvert hærri nú á hverju ári en útgjöld ríkissjóðs, að meðtöldum framlögum til venjulegra verklegra framkvæmda, voru um það leyti sem stjórnarskiptin urðu 1927, svo að ekki sé farið lengra aftur í tímann. Það er því áreiðanlega komið svo, að ekki verður hjá því komizt að nema staðar og gera einskonar endurskoðun á því, sem þessi breyt. hefir valdið. Nema staðar og líta um öxl og meta þau gæði, sem þjóðin nú árlega fær fyrir þær 2–3 millj., sem á hana eru lagðar umfram það, sem var 1927, til venjulegs rekstrar þjóðarbúsins.

Ef þetta þing snýr sér ekki neitt að því að athuga þetta mál, er ég alveg viss um, að þegar hv. þm. fara héðan og koma heim í sín kjördæmi, munu þeir fá þann dóm, að þetta þing hafi slælega rekið þau verkefni, sem harðast knúðu að.

Í rauninni hefði verið eðlilegra, að till. eins og þessi, sem við berum fram, hefði komið frá stjórnarflokknum þegar í þingbyrjun. En úr því að það hefir nú orðið hlutskipti okkar stjórnarandstæðinga að bera till. fram, vænti ég þess þó, að stjórnarflokkurinn sjái og skilji, hverjar þarfir kalla nú að og samþ. nú þessa till.