21.03.1932
Sameinað þing: 6. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (4200)

91. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég hefi litlu að svara síðasta ræðumanni, en vil þó endurtaka það, að ef skipuð verður n. til þess að athuga útgjöld ríkisins, þá er bezt, að sú n. hafi ekki önnur verkefni. Að öðru leyti mun ég ekki taka þátt í þeirri viðleitni hv. þm. að sýna fram á það, að enda þótt jafnaðarmenn og sjálfstæðismenn séu sammála í þessu máli, þá megi engan veginn skilja það svo sem þeir séu sammála í öðru. Er þetta varnagli, sem flokkar þessir hafa hvor gegn öðrum, enda þótt almenningur megi ekki greina þetta í sundur.

Hv. 2. landsk. og þm. Vestm. bar saman um það, að nauðsyn bæri til, að Alþingi réðist í að færa niður útgjöld ríkisins. Kom fram undrun og ánægja hjá þeim yfir því, að stj. skyldi hafa komizt að þessari niðurstöðu líka. Þarf þó ekki að undra það, því að hugir allra eru nú fullir af þessu, hvernig bæta mætti afkomu ríkissjóðs. Er þetta einnig viðfangsefni þingsins, er ekki stj. einnar. En viðvíkjandi því, hvernig bezt muni að hátta n.skipun þessari, held ég enn fram þeirri skoðun, sem ég hefi lýst áður, að ný þingn. muni ekki geta unnið verk, sem hinum hefir ekki tekizt. Er það óhjákvæmilegt, að n. þessi starfi utan þingtímans. Í þessu liggur skoðanamunur okkar hv. 1. landsk., sem er einungis formlegs eðlis, um það, hvort n. skuli þingkjörin eða stjórnkjörin. En ég lít svo á, að þótt n. tæki til starfa áður en þingi lýkur, þá muni aðalstarf hennar vera milli þinga, og hefi ég því lagt áherzlu á það, að í henni sitji aðeins 3 menn, er skipaðir séu af stj. eftir till. flokkanna. Verður réttlætið flokka í millum bezt tryggt með stjórnskipaðri n., eins og hv. 2. landsk. benti á. Hér liggur ekki á bak við neinn skoðanamunur um það, hvernig n. eigi að starfa eða hvar valdið eigi að vera. Hitt liggur í hlutarins eðli, að þingið skipar þingnefnd.

Hv. 1. landsk. sagði, að sér væri ekki ljóst, hvernig ég hugsaði mér starfið, ef n. starfaði utan þingtímans. Hugsa ég mér það þannig, að hún taki til athugunar hverja stofnun ríkisins af annari og athugi, hvernig spara megi og draga úr kostnaði án þess að mikið missist við. Mætti gera þetta í samráði við stj., án sérstakra ráðstafana þingsins, og væri slíkt vinningur, sérstaklega þar sem þing er svo skipað sem nú er, að till. þarf að hafa fylgi fleiri en eins flokks til þess að ná samþykki í báðum deildum. Slík n. yrði aðeins ráðgefandi, og bæri stj. ábyrgð á því tilliti, er hún tæki til hennar. Margt er erfitt í þessu efni, og er bezt, að málin séu íhuguð áður af fulltrúum flokkanna, t. d. samræming launa utan launalaga o. fl. Eru ýmsir hlutir erfiðir fyrir stj. við að eiga, svo sem úthlutun jarðræktarsjóðsstyrks, og þarf þar að fá umsögn þingsins eða fulltrúanna á þingi, áður en vitað er, hvað muni ná fram að ganga á þingi. Vil ég nefna það, að það þarf tryggingu fyrir því, að ekki þurfi hver að vera svo hræddur við annan, að enginn þori að gera það, sem rétt er. Nefndi ég jarðræktarsjóðsstyrkinn til dæmis, af því að þegar verðlag lækkaði, var gerð sú ráðstöfun, að dagsverk var stækkað sem því nam. Þegar lækkunin var komin, hugsuðu menn sér strax, að hér væri leið til þess að vinna fylgi bænda, og þótti þá sjálfsagt að halda því fram, að hér væri verið að ræna bændur réttindum. Kom hér fram gagnrýni, sem hafði þau áhrif að færa allt í gamla horfið. Fjárhagur ríkisins á því talsvert undir hugarfarinu, eins og því, að ekki þurfi hver að vera hræddur við annan, af því að enginn sé viss um, að hinir hafi í frammi „fair play“.

Slík n. sem þessi myndi hafa mörg verkefni, og vil ég bæta því við það, sem hv. 1. landsk. sagði, að ég sem fjmrh. myndi leita umsagnar n. um fjárgreiðslur stj., sem ekki eru fyrir þingheimildir. Ef slík n. væri til, yrði aðstaða hennar lík og utanríkismálan. milli þinga. Væri það sjálfsagt, að fjmrh. talaði við hana um ýms ákvæði þingsins, ef öll ábyrgð ætti ekki að lenda á stj.

Hv. þm. talaði óglöggt um verðtoll eða gengisviðauka. Eins og ég hefi minnzt á, er það rétt, að breytingar hafa orðið á verðtolli og gengisviðauka. En það var aðalatriðið fyrir mér, að þessir stóru tollar komu upp meðan hann var í uppsiglingu sem fjmrh. Var þar ekki neinni kreppu um að kenna, heldur áttu þessar tekjur að fara til endurgreiðslu ríkisskulda. Blandar hann hér saman orsökinni og því, sem seinna varð. Á Alþingi 1924 var mikið rætt um kreppu, og mátti segja, að þar héngi sultardropi úr hverju nefi, en árangurinn varð sá, að skattar voru hækkaðir að mun. Var þetta gert til þess að jafna tekjuhalla, sem verið hafði í mörg ár. Gekk svo í þeirri kreppu, að ekki varð mikið úr sparnaði. Er þetta reynsla fleiri fjmrh. en hv. 1. landsk., og hafa sagt mér merkir menn, að ekki sé auðvelt að velta af ríkinu verkefnum, sem það er búið að taka á sig. — Þó fór svo, að 1924 var eitthvert hið mesta góðæri, sem hér hefir komið, en það er regla um slík góðæri og hallæri, að þau koma hér ekki fram fyrr en ári seinna en annarsstaðar, vegna þess, hvernig þjóðarbúskap vorum er háttað. Þessi tekjuauki, sem jafna skyldi tekjuhallann, fór í greiðslu ríkisskulda, og skal ég ekki halla á hv. 1. landsk. fyrir það. En um það má auðvitað segja, að gullkrónuskuldirnar hefðu líka verið meiri, ef aldrei hefði verið borgað neitt. Annars hefði ég þó talið réttara, að ráðizt hefði verið í nokkuð meiri framkvæmdir en gert var þá, en skuldagreiðslur stundaðar nokkru minna og á þann hátt jafnað meira á milli ára um framkvæmdir ríkisins.

Það er mikið talað um það, að nú vanti verklegar framkvæmdir. Eitt af stærri slagorðunum nú er, að í fjárl.frv. sé ekki ætlað nóg til verklegra framkvæmda. Ég veit nú varla, hvernig þetta hugtak, verklegar framkvæmdir, er skilgreint. Ég hygg þó, að oft sé átt við vegi, síma, brýr og þessháttar. Ég hygg, að hugtak þetta sé notað gagnstætt við hugtakið launagreiðslur til starfsmanna ríkisins, sem á þingmálafundum er oftlega metið, að fari til einskis gagns. Í það fjárlfrv., sem nú liggur fyrir þinginu, hefir verið sagt, að verklegar framkvæmdir vanti. Í tilefni af þessu umtali hefi ég athugað verklegar framkvæmdir 1926 og borið þær saman við þær verklegar framkvæmdir, sem lagt er til, að verði árið 1933 samkv. fjárlfrv. Kemur út hér um bil sama tala. Sá munur er helzt, að meira hefir verið byggt 1926. En sú grein fjárl., sem mest hefir þanizt út á síðari árum, er 16. gr., en í henni eru veittar upphæðir til allskonar verklegra fyrirtækja, svo sem Búnaðarfél. Íslands, sandgræðslu, gjöld vegna jarðræktarlaganna, tillag til verkamannabústaða, skógrækt og margir fleiri slíkir hlutir, sem eru í eðli sínu verklegar framkvæmdir. Það er ekkert vit í því að segja, að vegir séu verklegar framkvæmdir, en ekki t. d. ræktun. Útkoman verður þá þessi, að í fjárlfrv. mínu, sem sagt er að feli einungis í sér greiðslur til embættismanna, er komið til móts við hv. 1. landsk. um tillögur hans 1926, á hans mesta framkvæmdaári.

Á 16. gr. fjárl., sem er orðin mjög stór, er máske helzt hægt að spara. Ég hefi lagt til, að það væri gert, og fjvn. hefir það nú til athugunar, hvort hægt sé að færa útgjöldin meira niður þar en ég hafði þorað að leggja til. Fjvn. er í raun og veru sparnaðarn. þingsins, sem reynir að takmarka útgjöldin sem mest í vondum árum, en fer lengra um fjárframlög í góðum árum. Það var sagt, að þingið ræki slælega það verkefni sitt að spara, og því væri nauðsyn að setja á fót nýja n. En sú n. myndi vitanlega fara að eins og aðrar n. þingsins. Þær reyna vitanlega að spara á vondu árunum. En öll störf n. verða árangurslaus, nema þingið sjálft vilji spara. Ég hefi nú at hálfu stj. sýnt vilja hennar með samningu fjárlfrv., þar sem farið er fram á raunverulegan niðurskurð, sem nemur millj. kr. Það má kannske komast nokkuð lengra, en varla þó svo nemi mörg hundruð þús. kr., að óbreyttum lögum. Ég hefi því rætt það við fjvn., hvað tækilegt væri að gera á því sviði, t. d. að fresta lögum. Munu till., gerðar í samráði við mig, koma frá henni um það, hvað hægt sé að gera.

Hv. 1. flm. talaði um það, hvort till. þessi væri í samræmi við stjskr. Ég læt hann og hæstv. forseta eina um að útkljá það atriði.

Þá sagði sami hv. þm., að þjóðin væri nú farin að skilja, að ekki verður haldið lengur áfram á þessari eyðslubraut. Það er vitanlegt, að afkoman og fjárhagurinn hjá ríkissjóði gengur í öldum eins og alstaðar annarsstaðar. Á erfiðum tímum verður að spara. Þetta veit þjóðin. Og hún verður sjálf að fara nákvæmlega eins að. Hún eykur framkvæmdir sínar á góðu árunum, en dregur saman á erfiðum tímum. Við þetta verður ekki ráðið. En viðleitnin á að vera að komast í það ástand, sem verður. Það er ekki hægt að komast í samræmi við það geigvænlega ástand, sem nú ríkir. Það verður að gera ráð fyrir einhverjum bata.

Ég hefi ekki óskað, að hv. 1. flm. færi að fyrirverða sig fyrir fyrri ræðu sína í þessu máli, eða að hann beygði sig í auðmýkt. En sú ræða var þó af allra lakasta tægi, eða eins og ræður gerast verstar á þingmálafundum. En með síðari ræðu hans get ég verið sæmilega ánægður. Hún var miklu betri, og er ekki mjög margt, sem ég þarf að athuga í sambandi við hana. Þó þótti mér það koma úr hörðustu átt, þegar hv. þm. fór að tala um dýra strandgæzlu og óhófseyðslu til hennar, langt fram yfir það, sem ríkið hefir efni á. Hv. þm. átti nú ekki að koma þetta neitt á óvart. Þegar þriðja skipið var keypt, þá mátti sjá þetta fyrir. Óðinn kostaði ríkissjóð í rekstri um 300 þús. kr. og hitt varðskipið ekki minna. Gamli Þór kostaði nál. 200 þús. kr. á ári. Það var því fyrirsjáanlegt, að þrjú skipin myndu ekki kosta minna en 800 þús. kr. í rekstri. Þetta átti hv. þm., sem var kaupunum mjög fylgjandi, að sjá fyrirfram og láta það ráða áhrifum sínum á það, hvort skipið væri keypt eða ekki. Það er ekki sæmilegt að segja, að hægt sé að reka þessi skip miklu ódýrara nú en áður var gert, einmitt á meðan hv. þm. hafði áhrif á stjórnina.

Hv. þm. sagði, að eyðslan í sambandi við björgunarstörf Ægis hefði gengið svo fram af stj., að hún hefði nú leitað til sjútvn. um lagfæringu á því. Mér skilst nú, að hér eigi hv. þm. við björgunarlaunin. En ráðstöfun þeirra var algerlega lögbundin, svo stj. gat engin áhrif á það haft, önnur en þau að fara fram á, að lögunum verði breytt. Björgunarlaunum á Ægi er ráðstafað með 1., líkt og gerist á skipum yfirleitt, ákveðinn hluti til skipshafnarinnar. En það mun enginn hafa séð fyrirfram, að þarna gæti verið um verulegan tekjustofn að ræða. Hv. stjórnarandstæðingar sáu það ekki heldur. Björgunarstarf Ægis hefir gengið miklu betur en nokkur gat búizt við. Og þegar reynsla var um það fengin, lagði stj. strax til, að þessu væri breytt. Hér getur því ekki verið um neitt ásökunarefni að ræða á hendur stj. Hún gat af alveg eðlilegum ástæðum ekki hagað þessu öðruvísi fyrr en reynsla var fengin um það, þar sem enginn hafði séð það fyrir, að björgunarlaunin myndu nema svona verulegri upphæð. Hv. þm. sagði, að stj. hefði engar tilraunir gert til að stöðva fjáreyðsluna. Ég hefi nú bent á fjárlfrv. því til sönnunar, að þetta sé ekki rétt. Þótt hv. þm. segi, að það sé kák eitt að klípa þannig af, þá verður hann að gæta þess, að ekki er hægt að hreyfa við lögboðnum gjöldum að lögum óbreyttum. Og ef það er engin stefnubreyting að klípa þannig af gjöldunum, þá hefir líka stefnan verið sú áður að færa þau niður. Um niðurfærslu þeirra gjalda, sem lögboðin eru, kemur til kasta þingsins. Um það hefir verið rætt við n. þingsins. En til þess að koma þar fram nokkrum sparnaði þarf samstarf milli flokka. Að öðrum kosti er það óhugsanlegt.

Hv. þm. var að tala um reglur á Englandi og sagði, að þar giltu margar reglur, sem ekki giltu hér. Var á honum að heyra, að þær væru góðar, svo að hann ætti að geta tekið undir þá till. mína, að skipuð væri n. af stj. einmitt eftir enskri fyrirmynd. En svo fór hann að tala um, að við ættum að setja á þjóðstjórn, líkt og gert var í Englandi. Ja, þjóðstjórnin er nú engin regla, sem þar hefir verið fylgt. Hún var sett á stofn undir þeim sérstöku kringumstæðum, að samstarf fékkst ekki innan stjórnarflokksins um að bjarga fjárhag þjóðarinnar með því að færa niður útgjöldin og afla nýrra tekna. Strandaði þó samkomulagið meir á fyrra atriðinu. Við þetta klofnaði flokkurinn, og tók þá nokkur hluti hans höndum saman við andstöðuflokkana og myndaði hina svo kölluðu þjóðstjórn. Ef þingið hér vill hvorki spara né afla nýrra tekna — því það að spara nægir ekki til þess að tryggja hag ríkissjóðs —ef, segi ég, hvorki fæst fram sparnaður eða meiri tekjur, þá vil ég ekki lengur bera ábyrgð á þeirri stöðu, sem ég nú er í. Ég mun þá fara eftir þeirri reglu, sem ekki einungis gildir í Englandi, heldur og um hinn menntaða heim yfirleitt, að ef ráðh. getur ekki leyst þau málefni, sem leysa þarf, þá fer hann frá og veitir öðrum tækifæri.

Ég hefi enn eigi séð, að sömu ástæður séu fyrir hendi hér og þær, sem sköpuðu þjóðstjórnina í Englandi. Og þær ástæður verða ekki fyrir hendi meðan þm. sjá, að það þrennt verður að gera: að halda í þær tekjur, sem fyrir eru, að spara svo sem fært er, og að finna nýja tekjuauka, sem þurfa að svara einni millj. kr. eða svo, til þess að geta mætt erfiðleikum yfirstandandi tíma. Undir þessa nauðsyn verður þingið að beygja sig, og það er alveg víst, að þjóðin ætlast til þess. Og það er ekkert undarlegt við það, þótt slíkt komi ekki svo mjög fram í þingmálafundargerðum. Það er ekki venjulegt, að þjóðin óski eftir nýjum tollum. Það var heldur eigi gert árið 1924. Þótt þjóðin láti einkum í ljós óskir um sparnað, þá mun hún nú skilja það vel, að ef duga skal, þá verður nú að leita annara ráða, samhliða sparnaði.