29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í C-deild Alþingistíðinda. (4209)

142. mál, skemmtunarskattur og þjóðleikhús

Héðinn Valdimarsson:

Þegar skemmtanaskattur var fyrst lögtekinn, þá átti hann að ganga til félagslegra þarfa í viðkomandi kaupstað eða kauptúni. Hér í Rvík var honum varið til barna- og gamalmennahæla og til að koma upp verkamannaskýli. Fyrir baráttu núv. hæstv. dómsmrh. var skattur þessi tekinn af bæjunum og lagður til þjóðleikhúss gegn mótmælum Rvíkur og annara kaupstaða, sem ekki fengu neinn annan tekjustofn í staðinn.

Nú vill hv. þm. Barð. taka hann aftur frá þjóðleikhúsinu og láta hann ganga til almennra þarfa ríkissjóðs. Við jafnaðarmenn gerðum á síðasta þingi till. um, að skattur þessi gengi til sérstakrar ráðstöfunar, atvinnubóta og atvinnuleysisstyrkja. Var það sanngjarnt, að skatturinn væri þannig notaður á heim stað, sem hann felli til.

Það er nú svo með þessa hv. þm., sem áður hafa verið jafnaðarmenn, að þeir eru sífellt að ræna hugmyndum og till. okkar jafnaðarmanna. Aðeins breyta þeir heim nokkuð, og þá jafnan til hins verra. Nú vill þessi hv. þm. láta skemmtanaskattinn ganga skilyrðislaust í ríkissjóð, í stað þess að við vildum láta nota hann í ákveðnum tilgangi. þessu get ég ekki verið sammála. Ég vil, að þessum skatti sé varið eins og við jafnaðarmenn lögðum til á síðasta þingi, eða þá að hann gangi til bæjarfélaganna eins og upphaflega var.

Það var skemmtilegt að hlusta á hv. þm. Borgf. Hann gat verið með þessu frv., ef hann bara fengi undanþágu fyrir sitt kæra Akranes, vegna þess að það kæmi með, ef l. tækju yfir kauptún, sem hafa færri en 1500 íbúa. Hann er á móti frv., ef breyt. nær yfir Akranes, annars getur hann verið með því. En það er vitanlega alveg eðlilegt, að Akranes fylgi með öðrum kauptúnum og kaupstöðum.

Ég mun fylgja þessu frv. til 2. umr. og n. En verð síðan á móti því, nema sú breyt. verði á því gerð, að skatturinn verði ákveðinn til atvinnubóta eða þá að hann verði látinn ganga til bæjarfélaganna.