02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (4225)

150. mál, landvist erlendra hljómlistarmanna og um skemmtanaleyfi til handa úlendingum

Flm. (Pétur Ottesen):

Það er nú langt liðið síðan ég flutti þetta mál hér. Ástæðan var sú, að á síðustu árum hefir verið lögð stund á að mennta innlenda menn í hljómleikum, svo að hægt sé á þann hátt að fullnægja þörfinni hér. Er nú komið svo, að í Rvík hefir verið stofnaður félagsskapur 26 manna, sem fást við hljómleika í veitingahúsum bæjarins og við önnur tækifæri. En þrátt fyrir það, að mikið atvinnuleysi er hér, eru þó í landinu margir útlendingar, sem fengið hafa leyfi ríkisstj. til þess að stunda hér þennan atvinnurekstur. Hefi ég heyrt, að hér í bæ séu 12 slíkir menn, flestir Þjóðverjar, er leyfi hafa fengið til þess að stunda hljómleika. Leyfi þeirra nær aðeins til þess að spila á veitingahúsum, en þótt þeir hafi ekki víðtækara leyfi, eru þess dæmi, að þeir spili á ýmsum skemmtunum og útiloki þar íslenzka krafta. Þegar svo er ástatt sem hér, að það þrengir á öllum sviðum að, þá er nauðsynlegt, að landsmenn sitji að atvinnumöguleikum þeim, sem til eru, og er því ástæða til þess að vekja athygli á því, að setja beri hömlur við slíkum leyfum. Eru hér nógir kraftar, er fullnægt gætu skemmtanafýsn fólks. — Þetta var 1. atriði till. 2. liður hennar fer fram á það, að skora á ríkisstj. að láta lögreglustjóra landsins synja útlendingum að hafa hér hljómleika, samsöngva, töfrasýningar og þess háttar skemmtanir. Hefir komizt mikill rekspölur á það á síðustu árum, að útlendir hljómleikamenn og ferðatrúðar raki hér saman fé á þennan hátt. Er full ástæða til þess að banna þetta, enda er það svo, að fæst af því, sem þeir bjóða, hefir gildi fyrir þjóðina, þótt undantekningar séu máske einhverjar í því efni. Hefi ég því farið fram á það, að þessum mönnum sé bannað að halda slíkar sýningar hér. Er ástæða til að minna á það, að nú er hér útlendingur, sem heldur hér söngva og hljómleika fyrir fullu húsi kvöld eftir kvöld og rakar saman fé. Er það undarlegt, ef ríkisstj. tekur ekki í taumana til þess að sporna við þessu. Eins og ástandið er hér nú, er ástæða til að girða fyrir það, að útlendingar sæki fé til okkar á þennan hátt. Vænti ég þess því, að till. mín verði samþ. og að ríkisstj. taki hana til greina og hindri, að útlendingar stjaki innlendum mönnum frá þeirri atvinnu, sem hér er til á sviði hljómlistarinnar, og banni útlendingum að vera hér með sýningar eða hljómleika eða annað slíkt. Legg ég það ekki til, að þessu verði vísað til n., því að málið er svo augljóst, en annars er það á valdi hv. d., hvort hún vili gera það eða ekki.