15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í C-deild Alþingistíðinda. (4228)

149. mál, verðhækkunarskattur

Magnús Guðmundsson:

Það er rétt, sem hv. 1. flm. sagði, að mál þetta var til meðferðar í mþn. í tolla- og skattamálum, og gat ég ekki fylgt meðnm. mínum við afgr. þess. Frv. Þetta mun hafa verið borið fram á vetrarþinginu í fyrra, en komst vegna þingrofsins ekki það áleiðis, að séð yrði, hvernig hv. d. tæki í það. Við fyrstu umr. andmælti ég frv. nokkuð, og get ég að mestu látið nægja að vísa til þess nú, er ég sagði þá.

Ég vil sérstaklega fara fram á það við þá n., sem frv. fær til meðferðar nú, að athuga rækilega frágang þess. Ég hygg, að á því séu svo miklir smíðagallar, að það megi alls ekki ganga fram eins og það liggur fyrir. Þeir, sem fylgjandi eru hugmynd þeirri, sem í frv. felst, mega ekki loka augunum fyrir þeim agnúum, sem á frv. eru, heldur verða þeir að vinna að því að koma frv. í viðunandi búning, ef það á að ná fram að ganga.

Hv. flm. tók fram, að verðhækkun fasteigna stafaði oft af framkvæmdum hins opinbera og af því, að fólk safnaðist saman á vissa staði. Þetta er að nokkru leyti rétt. En að fólkið safnast saman og fasteignirnar hækka í verði er ekki síður bundið við verk einstaklinganna á þeim stað. Engar framkvæmdir koma af sjálfu sér, og það er nú svo þegar menn leggja fram fé og krafta sína, að menn vilja sjá einhvern árangur. Menn leggja fram fé í framkvæmdir einmitt til þess að gera eign sína verðmætari.

Annars held ég, að það sé ekki eins auðvelt eins og hv. flm. vilja vera láta að dæma um, hve mikið eða af hverju fasteignir hækka í verði. Ég held t. d., að það sé ekki nóg að líta á, hvað verð jarðar hækkar mikið að krónutölu á heim tíma, sem verðgildi krónunnar lækkar um helming. Ég álít því mjög óhyggilegt að setja lög um verðhækkunarskatt á slíkum tíma sem nú eru nema lagður væri um leið til grundvallar annar mælikvarði á verðmæti fasteigna heldur en gjaldmiðillinn, sem er á sífelldu flökti hvað verðgildi snertir.

Ég ætla ekki að fara að ræða um, hvort það hafi verið gert rangt í því árið 1907, þegar þingið heimilaði að selja þjóðjarðirnar bændunum, sem ábúð höfðu á þeim hefir alltaf fundizt sú stefna rétt, sem þar lá að baki. Hvað sem um þetta mál annars má segja, verður ekki borið á móti því, að þeim, sem jarðirnar eignuðust, hefir orðið það mikil hvöt til að gera þeim til góða. Það er ekki neitt, sem hvetur bændur eins mikið til að bæta jarðir sínar eins og vitundin um það, að þeir eigi þær og þeir séu því að búa í haginn fyrir sjálfa sig og afkomendur sína með verkum sínum.

Það er alls ekki hægt að sjá, að ríkissjóðsjarðirnar séu betur með farnar heldur en aðrar jarðir, heldur er það hvert á móti. Meðan ríkið átti margar jarðir, var hægt að þekkja þær úr á því, hvað þær voru verr setnar en þær jarðir, sem í sjálfsábúð voru.

Ég vil sérstaklega beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér, að einungis verði farið eftir verðgildi krónunnar eins og það er þegar sú sala fer fram, sem telja á verphækkunina af og verðhækkunarskatturinn reiknaður út frá því. Ég ætla ekki að fara mikið út í einstök atriði, en fæ þó ekki stillt mig um að minnast lítilsháttar á 10. gr. frv. Þar er svo ákveðið, að verðhækkunarskatt skuli ekki greiða þegar eigendaskipti verða án þess að endurgreiðsla komi fyrir eignina. Ég gæti hugsað, að það yrði ærið oft reynt að koma því þannig fyrir, að eignin væri gefin, til þess að losna við verðhækkunarskattinn. Ég vil ennfremur spyrja hv. 1. þm. N.-M. að því, hversu mikill verðhækkunarskattur yrði af jörð, sem árið 1913 var keypt fyrir 4 þús. kr. og nú seld fyrir 8 þús. kr., og á hvern hátt á að reikna verðhækkunarskattinn af þeirri jörð?