15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í C-deild Alþingistíðinda. (4230)

149. mál, verðhækkunarskattur

Haraldur Guðmundsson:

ég skal ekki lengja mikið þessar umr. Mér er áhugamál, að frv. þetta komist til n., en vil þó bæta örfáum orðum við ræðu hv. 1. flm., og þá einkum ú af aths. hv. 2. þm. Skagf.

Ég vil taka undir það, sem hv. 1. flm. sagði, að smíðalýti munu að sjálfsögðu finnast á frv. þessu, og er ekki nema gott eitt við því að segja, að bent sé á þau, bæði af hv. þm. og svo væntanlega af n. Það segir sig sjálft, að þótt flm. séu allir af vilja gerðir, geta aðrir en þeir ef til vill séð betur. Hinsvegar skildist mér á hv. 2. þm. Skagf., að grundvallarhugsun frv. sé ill hans augum og honum andstæð. Ég skal ekki ræða mjög um stefnumál í þessu sambandi, en aðeins leyfa mér að benda á þá verðhækkun, sem kunnugt er, að orðið hefir á skömmum tíma hér á landi. Árið 1908 var að tilhlutun skattamálan. samin skrá yfir verðmæti fasteigna á öllu landinu. Samkv. því var verð allra jarðeigna í sveitum og lóða í kaupstöðum alls 11,2 millj. króna. Eftir fasteignamati, sem framkvæmt var á árunum 1916–1918 samkv. l. um fasteignamat frá 1915, var landverð jarða og lóðaverð um 42 millj. króna. á þessum tíma, rösklega 10 árum, hefir landverðið í heild fast að því fjórfaldazt. Langmest af þessari hækkun kemur að sjálfsögðu á þá staði, þar sem fólksfjölgunin er mest. Árið 1908 er verð allra lóða í kaupstöðum 3 millj. 489 þús. kr.

Þessar sömu eignir, lóðir og lendur í kaupstöðum, eru eftir fasteignamatinu frá 1915 20 millj. 200 þús. kr. Það hefir því 6–7-faldazt á þessum 10 árum. Þetta sýnir, hve geysileg verðhækkunin er, og engum dettur í hug, að hún sé orðin fyrir aðgerðir lóðaeigenda. Hún er einungis afleiðing fólksfjölgunarinnar og aðgerða hins opinbera, en orsakir hennar verða á engan hátt raktar til aðgerða einstakra eigenda. Þessi stórfellda verðhækkun hefir að sjálfsögðu margvíslegar afleiðingar og yfirleitt skaðlegar fyrir þjóðfélagið. Þetta háa verð, sem skapazt hefir af þessum sökum, heimtar sínar rentur, sitt eftirgjald á sínum tíma. Ég skal sérstaklega benda á eitt dæmi. Ríkisstj. keypti lóðarskika undir símastöðina nýju við Vallarstræti. Það er kyrrlatur staður. Verðið, sem goldið var fyrir blettinn, var 150 kr. fyrir hvern fermetra eða 120 þús. kr. alls. Fyrir lóðarskikann undir húsið er greitt meira en fasteignamatsverð allra jarða í 3 hreppum í kjördæmi hæstv. forsrh. Þessi verðhækkun hefir ekki orðið vegna aðgerða lóðareigandans, heldur vegna fólksfjölgunar í bænum. Og við það, að þetta stóra og veglega hús hefir verið reist á lóð þessari, hafa tvær lóðir, sem liggja næst því, hækkað stórkostlega í verði, og maðurinn, sem átti þær, grætt stórfé bara vegna þessara aðgerða, sem hann sjálfur tók engan hátt í. Það er sú stefna að fyrirbyggja, að einstaklingur taki þannig verðhækkun án eigin tilverknaðar, sem liggur til grundvallar frv.

Ég vil benda á annað dæmi. Niðri í miðju Austurstræti var fyrir hálfu öðru ári síðan keypt loð undir verzlunarhús fyrir 230 kr. hver fermetri. Þetta gífurlega kaupverð verður vitanlega ekki gert arðberandi á annan hátt en þann að leggja vexti og afborganir á vörurnar, sem þarna eru seldar. Ég hirði ekki að rekja fleiri dæmi, en eftir því, sem, ég hefi komizt næst, hefir landverð nálega fimmfaldazt frá því 1907 til 1928. Að vísu er þetta ekki byggt á niðurstöðu nýjasta fasteignamats, því að það er ekki enn prentað, en ég hafði önnur gögn í höndum og hv. n. getur nú fengið niðurstöðutölur þess og reiknað út frá því. Hækkun landverðsins hefir vitanlega orðið meiri í kaupstöðum en í sveitum, og mest í hinum stærri kaupstöðum.

Um einstök atriði þessa máls skal ég ekki fjölyrða. Lægsti verðhækkunarskattur er áætlaður 20% af verðhækkuninni einni saman. Og það er gert í samræmi við l. um Skeiðaáveituna, sem eru einskonar verðhækkunarskattslög, þar sem gert er ráð fyrir, að til ríkissjóðs falli 20% af þeirri verðhækkun, sem kemur fram á jörðunum. Skatturinn fer síðan stighækkandi, unz komið er að vissu marki. Nú skal ég játa, að það hefir nokkuð til síns máls, sem hv. 2. þm. Skagf. benti á, að sökum þess, að miðað er við peningaverð jarðanna getur skatturinn komið nokkuð misjafnt niður, því að hið raunverulega verðgildi peninganna getur verið mismunandi. Meðan landverð hefir fimmfaldazt, hefir gildi peninga rýrnað um helming. Raunveruleg verðhækkun er því ekki nema hér um bil 21/2 til 3 sinnum á fasteignunum. Til þess að sýna, hve þetta gæti komið ranglega niður, spurði hv. þm., hvernig ætti að reikna verðhækkunarskatt af þeirri jörð, sem keypt hefði verið á 4 þús. kr. fyrir árið 1914, en seld nú, þegar gengi peninga er helmingi minna en þá, fyrir 8 þús. kr. Mér skildist á hv. þm., að enginn eðlilegur grundvöllur væri undir skattinum. En þetta er hinn mesti misskilningur. Ef maður hefir keypt jörð fyrir 4 þús. kr., sem hann, eins og venja er, hefir fengið að láni, en á skuldina ógreidda þegar hann selur jörðina, þá getur hann greitt hana til fulls, en haft hreinar 4 þús. kr. ágóða. Og því er svo farið, að venjulega má rekja slík skuldaskipti samfara verðlagsbreyt., og sé ég því ekki betur en reikna beri eftir verðgildi peninga á hverjum tíma. Annan verðmæli er ekki unnt að nota. Og það, sem haft er á móti því að miða þennan skatt við peningaupphæð, má og bera fram sem rök móti því að ákveða hvaða skatta sem er í peningaupphæðum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að taka fleira fram um þetta og eigi lengja umr., ef hægt væri að koma málinu til n. nú.