15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í C-deild Alþingistíðinda. (4231)

149. mál, verðhækkunarskattur

Magnús Guðmundsson:

Hv. flm. þessa frv. hafa báðir vikið að því, að tilætlunin væri að miða skattinn við verðgildi peninga á hverjum tíma. Ég álit, að með þessu sé í rauninni kippt fótunum undan hugmyndinni í þessu frv. og að eftir því sé ómögulegt að leggja á verðhækkunarskatt, sem í rauninni sé verðhækkunarskattur. Það getur alveg eins orðið skattur á verðlækkun, og þá er hugmyndum þeim, sem í frv. felast, algerlega snúið við. Baðir hv. flm. segja, að þetta verði ekki haft á annan hatt. Sýnir það ekki einmitt, hversu óframkvæmanleg þessi hugmynd er? Þetta er augljóst hverjum, sem um það hugsar. Við skulum taka það dæmi, að maður, sem árið 1913 hefir keypt jörð fyrir 4 þús. kr., selur hana nú fyrir 8 þús. kr. Á hann þá að greiða verðhækkunarskatt af þessum 4 þús. kr., sem söluverðið er hærra en kaupverði? Hvað hefir þessi jörð hækkað í verði? Þegar hann keypti jörðina, var kr. í 100 gullaurum, en nú í 50–60. Að mínu áliti hefir þessi maður ekki grætt neitt, eða mjög lítið. Það má að vísu segja, að það fari að nokkru eftir því, hvað hann ætlar að gera við krónurnar, er hann selur. Ef hann ætlar að greiða með þeim skuld, græðir hann. En ætli hann að kaupa aðra jörð, — hvað græðir hann þá? Ekkert. En hann verður að greiða verðhækkunarskatt, þótt í rauninni sé ekki um neinn gróða að ræða. Þetta er einmitt höfuðgallinn á þessu frv. Skatturinn getur alveg eins lent og hlýtur oft og tíðum að lenda á þeim, sem engrar eða aðeins ímyndaðrar verðhækkunar njóta. Þetta eitt út af fyrir sig gerir þennan skatt óhæfan eins og hann er hugsaður eftir frv.

Hv. aðalflm. kvaðst vera samþykkur þeirri hugsun, sem í raun og veru lægi bak við sölu þjóðjarða, en sú sala hefði brugðizt vonum sínum. Ég veit ekki, hvaða vonir hann hefir gert sér, en mér þykir undarlegt, ef hann, sem er á svipuðum aldri og ég, man ekki eftir því, að áður en farið var að selja þessar jarðir mátti þekkja þær úr fyrir það, hversu miklu verr þær voru setnar en þær jarðir, sem voru í sjálfseign. Nú segist hann vilja bæta úr þessu með því að láta leiguliðana fá erfðaábúð á jörðunum. Í þessu efni vantar allar till., og er það þó atriði, sem vel hefði mátt verða þessu máli samferða. Ekki er víst, að menn hafi sömu hvatir til þess að bæta jörð, þótt þeir hafi erfðaábúð á henni. Það fer eftir því, hvort sá, sem féð leggur í jörðina, getur búizt við, að afkomendur hans vilji njóta þess.

Hv. þm. Seyðf. viðurkenndi, að vera myndu smíðalýti á þessu frv., og ætla ég ekki að fara út í það sérstaklega. Það er ekki nema eðlilegt, eins og hann tók fram. Það, sem hann ræddi einna mest um, var verðhækkunin á landi. En það virðist svo, sem báðir hv. flm. hafi gengið út frá því í frv. sínu, að þessi verðhækkun hefði komið svo að segja af sjálfu sér. Þetta er alls ekki svo. Verðhækkunin hefir orðið fyrir tilverknað landsmanna sjálfra. hún er fram komin fyrir það starf og þá atorku, sem þeir hafa sýnt í endurbótum á þessum eignum sínum. Hvað halda hv. flm. t. d., að verð lóðar hækki mikið við það, að byggt er á henni gott hús, sem hægt er að leigja fyrir gott verð? Meðan lóðin stendur ónotuð er hún lítils virði, en undir eins og gott hús hefir verið reist á henni, sem svarar vöxtum og afborgunum, vex verð hennar stórkostlega.

Það er eftirtektarvert, að til þess að geta réttlætt þennan skatt þarf að ganga út frá því í dæminu, sem ég tók, að skuld á fasteign hafi staðið óhreyfð frá því að kaupin voru gerð 1913. Með öðru móti verður þessi skattur ekki réttlættur. Hitt er vissulega miklu tíðara, að maður, sem keypti fasteign 1913, sé nú, á árinu 1932, búinn að borga hana að mestu, og ef svo er, er grundvöllur skattsins horfinn, af því að hlutaðeigandi hefir ekkert grætt. þær 8000 kr., sem hann færir fyrir eignina, eru ekkert verðmeiri vegna falls peninganna en þær 4000 kr., sem hann gaf fyrir hana 1913, svo að ég haldi mér við dæmið, sem ég tók.

Þessir gallar gera það að verkum, að ég tel mér ekki unnt að fylgja frv. Það er eftirtektarvert, að baðir hv. flm. hafa sagt, að torvelt væri að koma þessu fyrir, nema með því að miða við krónuverðið á hverjum tíma. En einmitt þetta sýnir, að þessi skattur er yfirleitt ekki réttlátur, þótt hann í einstökum tilfellum geti verið það.