15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í C-deild Alþingistíðinda. (4235)

149. mál, verðhækkunarskattur

Flm. (Halldór Stefánsson):

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða ýtarlega um smáagreiningsatriði á þessu stigi málsins. Þar sem málið er nýmæli, er það ekki nema eðlilegt, að menn greini á um bæði aðalefni þess og einstök atriði. Samt ætla ég að víkja að heim einstöku atriðum, sem gerðar hafa verið aths. við. Hv. 2. þm. Skagf. var enn að tala um hann mikla mismun á verði 1913 og 1932. Það er rétt, að sá verðmunur er mjög mikill, en hann snertir ekki þetta frv., því að þar er gert ráð fyrir, að aldrei sé leitað lengra fram eftir kaupverði en til fasteignaverðsins, sem ákveðið var með fasteignamatslögunum frá 1915, þ. e. a. s. til 1920.

Í þessu sambandi get ég líka minnzt á aths. hv. þm. V.-Húnv. við seinni hluta 4. gr., en sá hluti átti einmitt að taka það fram, að ekki skyldi leitað lengra fram með ákvörðun verðs en til 1920. Ef ráð þykir ekki koma nógu ljóst fram, að þetta tímatakmörkunarákvæði eigi við í öllum tilfellum, þá má auðvitað breyta orðalaginu, svo að ekki verði um villzt. Ég veit vel, að skoðanir manna um sölu þjóðjarða og kirkjujarða eru skiptar. Ég var sölunni upphaflega fylgjandi, en hefi skipt um skoðun í því efni síðan, og er það vegna þess, að mér virðist salan ekki hafa náð tilgangi. Það byrjar venjulegast með því, að jörðin er keypt í skuld að mestu leyti, svo er hún veðsett ýmislega, þangað til veðsetningin er komin upp í fullkomið söluverð. Jarðeigandinn verður auðvitað að standa straum af öllum skuldunum, en vegna veðsetninganna og skuldanna, sem á hvíla, er jörðin þá raunverulega komin í annara manna hendur, nema aðeins umráðarétturinn. Og endirinn verður oft sá, að jarðeigandinn megnar ekki að standa straum af skuldunum og jörðin kemst inn í lausasölu, og kemst þá oft í óeðlilega hátt verð.

Það er ekki nema von, að hv. 2. þm. Skagf. sé á móti þessu frv., ef hann lítur svo á, að verðhækkun, hvernig sem hún kann að vera til komin, eigi að vera skilyrðislaus eign jarðeigandans, — ég skildi svo orð hans. Frv. er byggt á þeirri hugsun, að hafi verðhækkunin orðið af völdum eigandans, beri honum hún með réttu, en hafi hún á engan hátt orðið fyrir hans tilstilli, sé fullkomlega réttmætt að taka hluta af henni til almennra þarfa. Það er eðlilegt, að slíkur gagngerður munur á skoðunum valdi slíkri afstöðu til mála, og mun kostur að ræða mál þetta betur síðar við hv. þm.

Það má vera hverjum manni augljóst, að sú mikla verðhækkun á fasteignum, einkum lóðum, sem orðið hefir á síðustu árum, á mikinn hátt í þeirri dýrtíð, sem nú ríkir í landinu, einkum í kaupstöðum, t. d. Rvík. Þetta verður mjög skiljanlegt, ef lítið er á það, að ekki stærra land en þarf sem byggingarlóð undir eitt myndarlegt hús skuli hafa getað komizt upp í verð, sem nemur jafnvel hundr. þús. króna. íbúð eða önnur afnot í slíku húsi hlýtur að verða mjög dýr, því að eigandinn verður að standa straum af þeim kostnaði, sem hann hefir lagt í húsið.

Þá ætlaði ég að víkja örfáum orðum að aths. hv. þm. V.-Húnv. Um 4. gr. er það að segja, að ég viðurkenni fúslega, að sjálfsagt sé að orða hana svo, að hún geti ekki misskilizt. Að þessu hefi ég vikið áður. Þá minntist hann á 18. gr., þar sem ætlað er að slá varnagla við því, ef seljandi ætlar að koma sér hjá verðhækkunarskattinum með því að tilgreina of lagt söluverð, og tók hann t. d., að eigandi vildi selja bornum sínum fasteign við lágu verði. Ég vil ekki fullyrða, að ekki sé hægt að líta öðruvísi á, en ég gæti ekki lítið á slíkt þeim augum, að með réttu sé hægt að telja, að seljandi væri að reyna að koma sér hjá verðhækkunarskatti, þótt. hann vildi afskrifa nokkurn hluta þess verðs, sem í jörðinni liggur, þegar hann ætlaði að selja hana barni sínu.

Þá minntist hv. þm. V.-Húnv. á það, að ákvæði frv. tækju ekki til erfðaleigu, og var á honum að heyra, að honum þætti þetta miður. Þessu er nú því til að svara, að við flm. höfðum aðeins þær fasteignir eftir skilgreiningu 1. gr. frv. í huga, sem ganga kaupum og sölum, og fórum af þeim ástæðum ekki inn á hetta svið. Má vel vera, að full ástæða sé til að taka leiguna sjálfa með í þessu, og má þá athuga það undir meðferð málsins, hvort ef til vill mætti ekki fella ákvæði þá átt inn í frv. — Annars get ég verið þakklátur hv. þm. V.-Húnv. fyrir undirtektir hans við frv., því að hann virtist vera samþykkur þeirri hugmynd, sem því liggur til grundvallar, og hygg ég gott að eiga samvinnu við hann um breytingar, því að ég geng þess ekki dulinn, að það standi um margt til bóta, og aths. hv. þm. báru því vitni, að hann ber góðan hug til málsins. Það er og rétt, sem hv. þm. síðast sagði í ræðu sinni, að hér er reyndar verið að „grípa guð í fótinn“, því að ég þóttist geta skilið, að hv. þm. ætti við — máltækið hefi ég ekki heyrt fyrr að ráðstafanir þær, sem í þessu frv. felast, kæmu of seint. Viðurkennum við flm. fúslega, að það hefði betur fyrr orðið, að ákvæði þessa frv. hefðu orðið að lögum, en hér á sem oftar við, að betra er seint en aldrei.