19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í C-deild Alþingistíðinda. (4239)

149. mál, verðhækkunarskattur

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vil benda hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, á að athuga, hvort hér er ekki um að ræða ráðstöfun til þess að rýra veðhæfni fasteigna óhæfilega mikið. Mér virðist, að svo muni vera. Ég er sannfærður um, að nú, síðan gildi peninga lækkaði svo mjög, eru jarðir, sem t. d. voru keyptar fyrir 4000 kr. á árunum 1912–1914, ekki verðmætari en þá, þó þær sett veðsettar fyrir 7–8 þús. kr. með 1., 2. og 3. veðrétti. Og ef samt á að leggja á slíkar eignir verðhækkunarskatt, sem ganga á fyrir veðskuldum, þá er sýnilegt, að bankar og aðrir lánveitendur geta ekki lánað eins hátt út á þær og ella.

Þó að lán út á 1. veðrétt séu að vísu miðuð við helming af fasteignamatsverði, þá er það nú svo, að flestir þurfa að fá meira út á jarðir sínar, þurfa að veðsetja þær öðrum og þriðja veðrétti, til þess að geta keypt búslóð og nýtt þær. Mér virðist því, að frv. eins og það er nú gæti haft þau áhrif, að veðhæfni fasteigna rýrni of mikið.

Ég verð að taka í sama strenginn og þeir, sem haldið hafa fram, að sá maður, sem t. d. hefir keypt jörð á 4000 kr. fyrir stríð, sé ekkert betur haldinn af að fá 8000 kr. fyrir hana nú. Hann fær fleiri pappírskrónur heldur en hann lagði út, en ekki meira verðmæti. Líka ímyndaða verðhækkun er síður en svo ástæða til að skattleggja. Yfirleitt er of lítið gert að því að brýna fyrir fólki, að krónutalan er ekki öruggur mælikvarði á verðmæti eigna, vegna þess hvað verðgildi gjaldmiðilsins er breytilegt Í þessu efni sem öðrum verður að taka fyrst og fremst tillit til hins raunhæfa.