19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í C-deild Alþingistíðinda. (4242)

149. mál, verðhækkunarskattur

4242Flm. (Halldór Stefánsson):

Ég vil aðeins víkja að aths. hv. þm. N.-Ísf. um það, að frv., ef að l. yrði, myndi rýra veðhæfni fasteigna, og tók hann sem dæmi máli sínu til sönnunar, sem áður hefir verið tekið við þessar umr., hinn mikla verðmun nú og 1914. Það er vitanlegt, að miklar verðbreyt. hafa orðið síðan 1914. En ég vil á ný benda á það, að ekki er f frv. gert ráð fyrir, að kaupverð verði nokkurntíma rakið lengra fram en til þess mats, sem gert var samkv. 1. frá 1915 og ekki var ákveðið fyrr en 1920. Af þessu er það auðsætt, að ekki þarf að gera ráð fyrir þeim mikla verðmun á fasteignum, sem var fyrir eða um stríð og nú, heldur ber að miða við árið 1920, þegar verðlag fasteignanna var ákveðið. Hvað veðgildinu viðkemur, þá er óhugsandi, að það geti rýrnað af völdum skattsins, þar sem skatturinn kemur því aðeins til, að eignin hafi hækkað í verði frá því þegar veðgildi hennar var ákveðið.

Um annað atriðið, þar sem hann drap á, að verðgildi peninga hefði breytzt, þá er það rétt. Og það er atriði, sem rétt er að taka til athugunar., og er það þá til athugunar fyrir n.

Hv. 2. þm. Skagf. leiðrétti þann skilning, sem ég hafði lagt í orð hans. Ég skildi hann svo, að ekki væri undir neinum kringumstæðum réttmætt að skattleggja verðhækkun, á hvern hátt sem hún væri til komin. Ef ég hefi misskilið orð hans, tek ég gilt það, sem hann sagði, og er ágreiningur okkar á milli um það atriði þá niður fallinn. En viðvíkjandi hinu atriðinu, ef selt er milli skyldra, þá er það ekki ætlun frv. né okkar flm. þess, að skatturinn falli á, ef virkilega er selt lægra verði en kaupverðið eða raunverulegt verð er. Ég get ímyndað mér, að slíkar sölur færu einkum fram á milli ættingja, ef eigandinn hefir kostað miklu til eignarinnar, en telur, að kaupanda sé ekki fært að standa straum af því verði, sem jörðin er metin eða raunverulega kostar. Slíkt verður að teljast alveg eðlilegt og réttmætt og getur ekki talizt tilraun til að ætla að koma sér hjá skatti. En ef hinsvegar sýnilega er reynt að búa til falskt verð, þá eru ákvæði í frv., sem eiga að koma f veg fyrir, að slíkt sé tekið gilt.

Að öðru leyti er ekkert við því að segja, þótt menn beri fram sínar aths. um málið. Það getur verið ávinningur fyrir málið að fá þær nú þegar. Væntanlega tekur þá sú n., sem fær málið til meðferðar, þær til athugunar.