04.05.1932
Neðri deild: 67. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í C-deild Alþingistíðinda. (4265)

149. mál, verðhækkunarskattur

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Mér kemur dálítið á óvart, að byrjað hefir verið á 2. umr. þessa máls. Ég vek snöggvast af fundi daginn sem átti að taka það fyrir, og var mér sagt, að frv. hefði verið tekið út af dagskrá.

Skildi ég það svo, að umr. hefði verið frestað frá byrjun. Þykir mér leitt að hafa ekki heyrt, hvað hv. frsm. meiri hl. hefði um málið að segja.

Það var nokkuð rætt um þetta frv. við 1. umr. og mætti það þá þegar nokkrum andmælum. Geri ég ráð fyrir, að hv. frsm. meiri hl., sem einnig er 1. flm. frv., hafi í upphafi þessarar umr. borið fram eitthvað svipuð rök fyrir því og við 1. umr. ég vil geta þess aðeins, að það var þá bent á ýmsa smíðagalla á frv., sem talað var um, að leiðrétta mætti í n. Það hefir þó ekki veri gert. Hv. meiri hl. hefir á engan hátt leitazt við að sníða af frv. þá agnúa, sem óneitanlega eru á því, og minni hl. var vitanlega ekki að fara út í það, þar sem hann leggur til, að frv. verði ekki samþ.

Sú stefna, sem fram kemur í þessu frv., er auðvitað ekki ný. Það hefir mikið verið rætt um ákveðna stefnu í þjóðhagsmálum, sem byggð er á því, að ríkið eigi rétt á verðhækkun fasteigna, sérstaklega alls lands. Sú stefna hefir þó verið hugsuð öðruvísi í framkvæmd heldur en gert er ráð fyrir í þessu frv., því skatturinn átti samkv. henni ekki að vera bundinn við sölu eignanna, heldur við það verð, sem talið er, að þær séu í á hverjum tíma. Og þeir, sem beitt hafa sér fyrir þeirri stefnu, heldu því fram, að hér væri um svo mikil verðmæti að ræða, að ríkin gætu að mestu leyti komizt hjá að leggja á aðra skatta en verðhækkunarskatt. Þeir byggðu á því, að allir ættu jafnan rétt til landsins og þess vegna ætti verðhækkunin á því aldrei að renna í vasa einstaklinga, heldur í sameiginlegan vasa allra landsmanna, ríkissjóðinn.

Þessi stefna spratt eiginlega upp af sérkennilegri reynslu í því landi, þar sem hún kom fyrst fram, nefnilega Ameríku. Menn horfðu þar á stór landflæmi, sem áður voru óbyggð og verðlaus, byggjast smátt og smátt og hækka í verði um hundr. og þús. milljóna. Og Henry George, sem telja má höfund þessarar stefnu, sýndi fram á, að þannig sköpuðust svo mikil ný verðmæti, að þau mundu nægja til þess að standa undir kostnaðinum af allri starfsemi ríkisins. En þessi stefna hefir ekki sigrað í heiminum. Hún er líka m. á, byggð á því, að hún sé tekin upp þegar í stað meðan löndin eru verðlaus, því annars verður hún erfið í framkvæmd.

Það hafa komið fram kröfur um þessa verðhækkunarskatta í fleiri myndun, en þessari og í ýmsum tilgangi, en það hefir verið fremur lítið um, að menn hafi séð sér fært að lögleiða þá.

Það hafa þó verið gerðar dálitlar tilraunir með þetta, t. d. í Þýzkalandi. Þar hefir verið lagður skattur á verðhækkun lands, svipaður þeim, sem hér er stungið upp á, en miklu lægri, og honum var skipt milli bæjarfélaga og ríkisins. En þetta þótti svo erfitt í framkvæmdinni þar, að nú er víða frá því horfið. Líka hefir þessi skattur verið reyndur í Englandi — svonefndur Betterment tax en hann var ólíkur að því leyti, að þar var beinlínis miðað við það, að opinberar framkvæmdir hefðu valdið verðhækkuninni. Í frv. er lítið svo á, að eigendur fasteigna eigi engan rétt til verðhækkunar, annarar en þeirrar, sem beinlínis leiðir af aðgerðum þeirra sjálfra. Í Englandi var lítið svo á, að hið opinbera eignaðist ekki rétt til verðhækkunar landsins, annarar en þeirrar, sem beinlínis leiddi af aðgerðum þess. Þar var því alveg öfugt farið að, miðað við það, sem hér er lagt til. Þar að auki var þessi skattur ætlaður sveitarfélögunum, en ekki ríkinu. Í Danmörku hefir stöku sinnum verið lagður á verðhækkunarskattur. T. d. fékk bærinn Esbjerg leyfi til að setja hann á handa sér. Þar voru byggð stór hafnarmannvirki, og lóðir, sem áður voru lítils virði, þutu upp úr öllu valdi vegna þeirra. En þennan skatt fékk bærinn og hann var notaður til að standast þann kostnað, sem af því leiddi, að bærinn óx svo stórkostlega. Enn eru þess dæmi, að verðhækkunarskattur hefir verið lagður á í sambandi við járnbrautarlagningar. Vitaskuld hækkar landið beggja megin brautarinnar mjög í verði, og hefir þá þótt sanngjarnt, að þeir, sem þar bjuggu, greiddu nokkuð af verðhækkuninni til sveitarinnar.

En þrátt fyrir það, þótt þessir skattar hafi verið miklu takmarkaðri en sá, sem hér er stungið upp á, þá hafa risið upp okleifir örðugleikar í sambandi við framkvæmdina. Englendingar urðu t. d. að afnema sinn Betterment taae, þegar verðgildi peninga raskaðist á stríðstímanum. Í reyndinni varð hann ómögulegur.

Hjá okkur held ég, að verðhækkunarskattur hafi ekki verið notaður nema í einu einasta tilfelli. Það var í lögunum um Skeiðaáveituna. Þá var hann settur í alveg sérstöku tilefni og miðaður við alveg ákveðnar endurbætur, er hið opinbera hafði gert á þessu svæði, og var einskonar aðferð til þess að búendur þar greiddu ríkissjóði það, sem hann hafði lagt fram. Hann var þó ólíkur þessum að því leyti, að hann var bæði miðaður við matsverð jarða og söluverð og hann var ekki stighækkandi.

Hér er því um nýja braut að ræða, bæði hjá okkur og eins meðal nálægra þjóða. hér er bæði seilzt víðar miklu, þar sem skattur er tekinn af allri verðhækkun, sem ekki er beinlínis til orðin af völdum eiganda, og eins er Hann mjög hár og stighækkandi og rennur loks að helmingi í ríkissjóð, en það er þó ekki alveg dæmalaust.

Eins og ég hefi getið um, þá er skatturinn miðaður við, að eigendur fasteigna eigi ekki rétt á nema nokkrum hluta af verðhækkun þeirra. Hugsunin er sú, að hið opinbera hafi valdið verðhækkuninni að svo og svo miklu leyti og eigi því rétt á að taka þann hluta. Og eftir því, sem hv. flm. segja í grg. frv., byggja þeir á þeirri hugsun, að eðlilegast og æskilegast sé, að fasteignir væru í opinberri eign, og ætla sér með frv. að vinna að því, bæði með því að rýra eignargildi fasteigna og safna sjóði, er svo sé varið til að kaupa upp fasteignir handa því opinbera.

Ég býst því við, að fylgi og andstaða við þetta frv. fari að nokkru leyti eftir því, hvaða skoðun menn hafi á þessu. Og mér virðist, að hér á Alþingi hafi komið fram töluvert sterk andmæli gegn þessari stefnu hv. flm. og flestir séu þeirrar skoðunar, að heppilegast sé, að a. m. k. jarðirnar séu í eign einstaklinga og setnar af eigendum. Frv. gengur beinlínis gegn lögunum um sölu þjóðjarða og kirkjujarða. Líka hefir mér virzt stefnan í ábúðarlagafrv. því, sem nú liggur fyrir þinginu, vera sú, að heppilegt sé, að jarðir séu í sjálfsábúð. Þar er vitanlega miðað við þá reynslu, sem fengizt hefir, að jarðir þær, sem eigendur bíta á, séu betur setnar en leigujarðir og við þær lögð meiri alúð og rækt. Með frv. er stefnt burt frá þessu og í áttina til þess, að allar jarðeignir verði opinber eign.

Þegar kemur til þess að athuga, hvað af verðhækkun fasteigna er eigendum að þakka og hvað því opinbera, þá kemur það í ljós, að það er erfitt að grafast fyrir rætur hennar. Yfirleitt er, það svo í viðskiptalífinu, að það er ákaflega erfitt að rekja í sundur þræðina. T. d. má taka lóðir í kaupstöðum. Þar getur verið alveg ómögulegt að finna, hvað af verðhækkuninni er eigendum að þakka og hvað því opinbera, því m. a. er oft allt það, sem hið opinbera gerir, framkvæmt fyrir fé eigendanna. Við skulum taka t. d. öflugan kaupsýslumann, sem setur sig niður í smáþorpi. Hann byrjar að reka útgerð, hefir mikið um sig, byggir höfn. Fólkið streymir að og bærinn verður fjölmennur og lóðir hækka í verði. Hvað á nú eigandinn af verðhækkuninni og hvað hið opinbera? Hann hefir svo að segja búið bæinn til. Er hægt að segja, að þær framkvæmdir, sem bærinn réðst í fyrir fé, sem hann tekur af eigandanum með sköttum, eigi einungis að koma því opinbera til goða, eigandinn eigi engan rétt á þeirri verðhækkun, sem þeir valda? Ég held, að það sé rangt. Eins og menn bera áhættuna, eins eiga þeir að hirða arðinn. Og það er ómögulegt að rekja þræðina sundur og segja, hvað sé eigandans og hvað sé hins opinbera.

Í grg. frv. er ekki viðurkenndur eignarréttur eigenda að annari verðhækkun en þeirri, sem beinlínis orsakast af mannvirkjum þeim, sem þeir gera á lóðinni: En það má segja, að það sé viðurkenndur eignarréttur þeirra að þessari verðhækkun. Það er bara lagður skattur á hana. En þó má benda á það, að samkv. skattstiganum í 12. gr. kemst skatturinn upp í 100%, eða m. ö. o. hún er tekin öll.

Nú má spyrja mig, ef ég viðurkenni þá hugsun, að hið opinbera eigi rétt á þeirri verðhækkun, sem stafar af aðgerðum þess, hvar ég vilji þá láta draga mörkin. Ég álít, að þau mörk sé ekki hægt að draga. Það má skjóta þessari spurningu fram, en hún er ákaflega ófrjó; það er ómögulegt að rekja þræðina sundur. Ef það að taka verðhækkunarskatt, þá verður að byggja á öðrum forsendum en heim, að hið opinbera eigi rétt á þeirri verðhækkun, sem af þess völdum stafar. M. ö. o., þetta er ekki hæfur grundvöllur undir löggjöf. Hinsvegar má náttúrlega leggja á verðhækkunarskatt eins og aðra skatta aðeins því skyni að afla peninga.

En ef nú á að fara að leggja á verðhækkunarskatt, þá er mjög ósanngjarnt að fara að skipta honum milli ríkisins og bæjar- og sveitarfélaga, eins og gert er samkv. frv. Ef það á að fara að leggja verðhækkunarskatt á kaupstaðalóðir, þá er alveg sjálfsagt, að hann renni allur til bæjarfélaganna. Og það er ekki nóg. Ég álít, að hann eigi að renna til alveg ákveðins og sérstaks verkefnis. Það verkefni er skipulag bæjanna. Ef ég gæti fundið skynsamlegan grundvöll undir skattinn, þá mundi ég vera því fylgjandi að leggja hann til þessa verkefnis. Það er mikið vandamál, hvernig bæirnir eiga að standast hann kostnað, sem leiðir af skipulagningu þeirra. Breytt skipulag orsakar verðbreytingar, sem eru alger tilviljun og í engu byggjast á því, hvort eigandinn er hygginn maður og duglegur eða ekki. Við skulum taka til dæmis það, sem stungið hefir verið upp á, að lengja aðalgötu bæjarins, Austurstræti, upp í Grjótaþorpið. Þá mundu úr verðlitlum baklóðum myndast dýrustu lóðir bæjarins. Ef verðhækkunarskattur á nokkursstaðar heima, þá er það í slíkum tilfellum. En þá er sjálfsagt að nota hann til að koma skipulagsbreytingunum í framkvæmd. Og eitt af því, sem mælir móti þessu frv., er það, að þá væri búið að taka af bæjunum þann eina möguleika, sem þeir hafa til að koma í framkvæmd skipulagsbreytingum.

Þetta eru allt andmæli gegn aðferðinni, sem hér er viðhöfð. En svo kemur það til, hvort yfirleitt sé gerlegt að leggja á verðhækkunarskatt. Fyrsta skilyrðið er það, að hægt sé að finna raunverulega verðhækkun fasteigna. Hvernig hefir hv. flm. tekizt það? Þeim hefir tekizt það þannig, að þeir miða einungis við krónutöluna. Ef kaupverð fasteignar er 1000 kr., en söluverðið 2000 kr., þá er tekinn viss hluti af mismuninum eftir skattstiganum í 12. gr. En sá verðmælir er mjög ófullkominn. Með honum er ekkert sagt um það, hvort eignin hefir raunverulega hækkað, lækkað eða staðið kyrr í verði. Dæmin eru deginum ljósari, og það er alveg óafsakanlegt að koma með þetta nú, einmitt þegar verðgildi peninga er síbreytilegt. Verðhækkun, sem nemur hundruðum %, getur verið eintóm missýning. Það getur vel verið, að maður verði að borga verðhækkunarskatt af raunverulegri verðlækkun. Þetta var hv. flm. bent á við 1. umr. þessa máls. Þeir höfðu þá ekki annað fyrir sig að bera en að ekki væri hægt að finna annan grundvöll. Ég vil draga af því þá rökréttu ályktun, að ekki sé hægt að nota þennan skattstofn.

En ég gæti hugsað mér að reynt væri að finna annan grundvöll, t. d. að miða við gullverð. En þá kemur það upp úr dúrnum, að gullverðið er ekki heldur öruggt. Gullverð hefir t. d. fallið stórum síðan fyrir stríð. Þá mætti hugsa sér að miða við verðlagsskrá. En þá þarf að finna hana fyrst.

Hv. 2. flm. þessa frv. bar hér við 1. umr. fram ýmsar tölur, sem áttu að sýna, hvað lóðir og aðrar fasteignir hækkuðu í verði miðað við krónur. Ég andmælti því ekki, að lóðir, sérstaklega í Reykjavík, hafa hækkað mjög í verði á síðustu árum. En þessar tölur eru samt ekki ábyggilegar. Verðskrárnar sýna, hvað peningarnir eru breytilegir, og því er ekki mikið að marka verðhækkun, sem einungis er miðuð við krónur. Mér er nær að halda, að í uppvexti mínum hafi meðalalin í Skagafjarðarsýslu verið liðlega 50 aurar. Fyrir stríð var meðalalin alltaf fyrir neðan 70 aura. En nú sé ég í Arbok hagstofunnar, að meðalalin fyrir allt landið hefir eitt ár komizt upp í 2 kr., en mun nú vera um 1,50 kr. Á þessu sést, að verðhækkun, miðuð við krónutöluna eina, er mjög villandi.