11.05.1932
Neðri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (4275)

548. mál, meðferð lánsfjár og starfsfjár

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég ætla ekki að tala langt mál. Með þessari þáltill. er, eins og hv. flm. sagði, farið að ýmsu leyti út á nýjar brautir og lögð verkefni fyrir stj., sem eru mjög víðtæk, og sum óleysanleg. Þar fyrir vil ég ekki segja, að ekki sé ástæða til að athuga, hvar helzt megi bæta úr. Og þótti mér ræða hv. flm. betri en till. sjálf, sem stafar ef til vill af þeirri einföldu ástæðu, að það er betra að tala um þessi mál heldur en að setja um það fastar og beinharðar reglur í lagaformi. Að því er bankana snertir, þá skortir ríkisstj. ekki vald til þess að ráða bankastjóra við þá banka, sem ríkið ber ábyrgð á, og í því á aðaltryggingin að vera fólgin að forminu til. Og það vantar ekki, að þingið hafi ráðið skipun bankaráða við aðalbankana. Þing og stjórn hafa þannig fullkomlega formlegt vald um skipun bankastjóranna. En rekstur bankanna hefir í framkvæmdinni tekizt misjafnlega, og stjórnin og þingið geta ekki haft veruleg áhrif á það. Í því efni hefir langmestu skeikað síðan á stríðsárunum, m. a. vegna verðfalls á ísl. kr. og ýmiskonar gengisbreytinga á gjaldeyri þjóðanna og verðlagsbreytinga á vörum á þessu tímabili, sem ruglað hefir reikninga útgerðarmanna, verzlunarmanna og bænda. Þau óheppilegu mistök, sem orðið hafa á þessu tímabili, eru sumpart sök einstaklinganna, en að mestu leyti eru þau að kenna ófyrirsjáanlegum atvikum á þessum erfiðu tímum. En þrátt fyrir það hvetur þetta allt til þess að fara gætilega í þessum efnum. Og sízt vil ég draga úr því, að þingið skori á stj. að athuga og bera fram breytingar á löggjöfinni um þessi efni, sem þáltill. fjallar um.

Við útlánastarfsemi bankanna hér á landi vantar enn fastar reglur fyrir meðferð lánsfjár, sem erlendir bankar hafa fylgt um langan aldur og innrætt viðskiptamönnum bankanna svo vel, að þær berast, ef svo má segja, í blóðinu frá einni kynslóð til annarar. Ég hygg, að okkar bankar hafi bundið sig allt of mikið við þá óheppilegu venju í útlánum að hafa áhættuna sem mest á einum stað. Bankarnir hér á landi eru svo smáir og kraftlitlir, að þeir mega til að dreifa ábyrgðinni á fleiri herðar. Það verður að demókratisera viðskipti bankanna miklu meira en nú er gert. Reynslan hefir líka sýnt það og sannað, að það er minni hætta á töpum á hinum smærri viðskiptavinum bankanna heldur en þeim stóru. Það skín líka í það í till., að þessi stefna í útlánum rekstrarfjár muni vera tryggari fyrir bankana en ríkið.

Að því er snertir launagreiðslur til starfsmanna bæjar- og sveitarfélaga, sem hafa fengið ríkisábyrgð fyrir föstum lánum til stofnunar föstum fyrirtækjum, þá tel ég ekki rétt að taka af þeim sjálfsákvörðunarrétt um þau mál. Ef stjórn og þing ætla sér að skerða sjálfsákvörðunarvald þeirra bæjar- og sveitarfélaga á þessu sviði, sem hafa fengið lán eða ábyrgð hjá ríkinu, þá verður að áskilja ríkinu þann rétt um leið og ábyrgðin er veitt eða lánin til fyrirtækjanna. En að koma eftir á með slík skilyrði fyrir áður veittum lánum eða ábyrgðum er á allan hátt óþægilegt.

Um launagreiðslur við stofnanir, sem studdar eru af ríkinu, og í bönkunum er nokkru öðru máli að gegna; ríkið ber ábyrgð á þeim launagreiðslum á þann hátt, að forstöðumenn þessara stofnana, sem ákveða launataxta starfsfólksins, eru skipaðir af ríkisstj. En ef illa hefir tekizt um völd og ákvarðanir þessara manna, þá er ekki hægt að bíða eftir því, að mannaskipti verði, heldur verður að breyta til um kjörin og setja önnur ákvæði. Og mér er kunnugt um, að einn bankinn er að undirbúa það að lækka bráðlega starfsmannalaunin hjá sér frá því, sem þau eru nú.

Í þáltill. er fitjað upp á miklum og víðtækum ráðstöfunum; sumar þeirra eru að vísu óleysanlegar, en aðrar horfa til bóta og aukinnar tryggingar fyrir ríkið og bankana. Og ég skil vel þá hvöt hv. flm., að hann vill, að það sé ekki eingöngu hamrað á því, að ríkisstofnanir gæti fyllsta sparnaðar í rekstrinum og lækki laun starfsmanna sinna, án þess að nokkrar kröfur séu gerðar um það til annara stofnana og einkafyrirtækja. Þeir, sem gera kröfur til þess, að sparað verði í ríkisrekstrinum og rekstri þeirra stofnana, sem ríkið ber ábyrgð á, og láta mikið á þeim bera hér í þinginu, þeir hljóta líka að gera sömu kröfur til annara stofnana og fyrirtækja, um að þau spari, ef þeir vilja vera sjálfum sér samkvæmir.