17.03.1932
Neðri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í C-deild Alþingistíðinda. (4301)

152. mál, stóríbúðaskattur

Flm. (Jónas Þorbergsson):

Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 152, er nú hvorki langt né flókið; það liggur svo ljóst fyrir, að ég sé ekki ástæðu til að halda langa framsöguræðu. Ég vil þó geta þess, að tilgangur þessa frv. er ekki aðallega sá, eins og í fljótu bragði kann að virðast, að það sé til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, heldur, ef vera mætti, að koma til leiðar betri og hagnýtari notkun húsnæðis hér í bænum en nú á sér stað.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hér í bænum eru mikil húsnæðisvandræði, en hinsvegar mikið húsnæði, sem vist er um, að ekki er hagnýtt eins og skyldi. Og það eru nokkrar líkur til þess, að skattur sá, sem hér er ætlazt til, að greiða skuli af þessu húsnæði, mætti e. t. v. stuðla að því, að það yrði notað á hagnýtari hátt og mundi leiða til betri notkunar þess.

Ég vil taka það fram, að lágmarksupphæðin í 1. gr. frv. er ekki nein óhagganleg tala. Það má vera, að það sé of lágt, og er það þá hlutverk n. að meta það, hvort þetta lágmark er hæfilega og sanngjarnlega sett, og færa það til betri vegar, ef hún álitur, að svo sé ekki.

Ég legg svo til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til fjhn.