17.03.1932
Neðri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í C-deild Alþingistíðinda. (4303)

152. mál, stóríbúðaskattur

Ólafur Thors:

Ég er hlynntur þeirri stefnu, sem kemur fram í þessu frv. Ég er sem sé þeirrar skoðunar, að það sé rétt að ná sem mestum skatti af eyðslu manna. Og því álit ég það réttlátt, að þeir, sem hafa ráð á því og vilja eyða í það að búa í dýrum íbúðum, greiði skatt af þeirri eyðslu. Að þessu leyti er ég samþykkur stefnu þessa frv. En mér þykir þó gengið of langt í þeim till., sem felast í frv. Hinsvegar er ég sannfærður um það, að það er mesti misskilningur hjá hv. flm., ef þeir halda, að þetta frv. verði til þess að lækka húsaleigu í bænum. Það er augljós sannleikur, sem allir hv. þdm. vita, að flestir þeirra manna, sem búa einir í húsum sínum og þessi skattur mundi lenda á og löggjöf þessi er miðuð við, hafa ráðizt í að byggja þessi dýru hús af því að þeir hafa ætlað sér þau fríðindi að verða einir í þeim. Og þessi hús eru flest þannig byggð, að það mun vera mjög erfitt að leigja út af þeim, svo nokkru nemi. Það er þannig mesti misskilningur hjá hv. flm., að þó þessi skattur yrði lögfestur, mundi af honum leiða það, að þessir menn færu að reyna að leigja út meira eða minna af þeim húsum, sem þeir búa í. En hitt er sannfæring mín, að þessi skattur kæmi til með að leiða til þess að draga úr viðleitni manna til að byggja sér slík hús. En það, að menn hafa ráðizt í slíkar húsabyggingar, hefir þó orðið til að draga mikið úr húsnæðisleysinu hér í Rvík.

Þegar ég því játa, að stefna frv. að því er snertir tekjuöflun fyrir ríkissjóð sé rétt, en ég hinsvegar er sannfærður um, að a. m. k. í bili muni afleiðingar þess að öðru leyti verða í framkvæmdinni þveröfugar við þann tilgang í húsnæðismálinu, sem lýst er í grg., sem sé að auka húsnæði í bænum, þá get ég ekki fylgt frv. Ég vil benda hv. flm. á það, að um langt undanfarið skeið hefir það verið aðalvopn Tímans og Framsóknarflokksins á andstöðuflokkana, að þeir hafi ekki gert neitt sérstakt til að ráða bót á dýrtíðinni í Rvík. Þetta er náttúrlega vitlaust út af fyrir sig. En sleppum því. Framsóknarflokkurinn heldur þessu fram, og þar með, að af öllu illu, sem hér sé, sé hin háa húsaleiga allra verst. En svo til þess að ráða bót á dýrtíðinni í Rvík, eru hér á dagskrá í dag 2 frv. frá Framsóknarflokksmönnum, sem bæði miða að því að draga úr byggingum, hækka húsaleiguna og auka dýrtíðina frekar.

Ég þykist nú vita, að það sé skilningsskortur, sem veldur þessu, og ég vil gera mér von um, að öll sú umhyggja, sem kemur fram hér frá framsóknarmönnum í húsnæðismálum Rvíkur, verði til þess, að sumir þeirra muni nú láta sér segjast. Og ég vil vona, að nú, þegar ríður á, að hvatt sé til aukinna bygginga í bænum, en ekki dregið úr þeim á neinn hátt með aðgerðum hins opinbera, þá sjái flokksmenn þessara hv. flm. sér ekki fært að lögfesta þetta frv.