17.03.1932
Neðri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í C-deild Alþingistíðinda. (4305)

152. mál, stóríbúðaskattur

Haraldur Guðmundsson:

Því fer mjög fjarri, að ég harmi það, að stjórnarflokkurinn hnupli frv. frá okkur Alþýðuflokksmönnum. Þetta er blátt áfram mjög eðlilegt, og liggja til þess margar orsakir. Ein er t. d. sú, að fyrir liggur tveggja ára gömul yfirlýsing frá hv. Framsóknarflokki um að öllum áhugamálum hans sé nú lokið. Og þá er ekki nema eðlilegt, að hann þurfi að fá eitthvað af málum lánað, og ég kann því ekki illa, að þá sé fremur komið til okkar og fengin okkar mál til að bera fram heldur en mál hins andstöðuflokksins, sem við getum ekki fellt okkur við. Hitt er mér náttúrlega miklu verr við, að þegar frv. okkar eru tekin og borin fram, þá sé þeim breytt til verri vegar, og það svo mjög, að stundum er ekki eftir annað óspjallað en nafnið eitt.

Ég get nú ekki sagt, að þetta eigi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, nema að nokkru leyti. Þó er þetta frv. miklum mun lakara á allan hátt en kafli sá úr kreppufrv. okkar jafnaðarmanna, sem flm. hafa hnuplað. Ég hefi dálítið gaman af því, að hv. framsóknarmenn skuli nú gerast til þess að fá að láni úr þessu kreppufrv. okkar, sem hæstv. fjmrh. þrásinnis hefir reynt að gera gys að, en fær nú flokksmenn sína til að tína upp úr í þeim tilgangi að reyna örlítið að punta upp á fjárhaginn. Hafi verið vansmíði á kreppufrv., þá eru þó miklu meiri missmíði á þessu lánsfé.

Í okkar frv. var ekki ætlazt til, að skattur væri lagður á þær íbúðir, sem metnar eru hærra en 20 þús. kr. hér er þetta lækkað ofan í 18 þús. kr., og finnst mér, að ekki hafi verið ástæða til að breyta þessu á þann veg. Í öðru lagi — og það skiptir meira máli — var þessi skattur eftir okkar frv. kreppuráðstöfun aðeins, og var gert ráð fyrir, að hún gilti einungis um 2 ár. En hér í þessu frv. er lagt til, að lögfestur verði skattur, sem vari um tíma og eilífð, eða a. m. k. svo lengi sem núv. hv. stjórnarflokkur hefir ráð á að halda honum í lögum. (ÓTh: Það verður nú varla um tíma og eilífð). Já, a. m. k. kemst ekki flokkur hv. þm. G.-K. til valda aftur. En annars gefur þetta innskot hv. þm. Mér tilefni til að minnast á annað í þessu sambandi, sem sé mál, sem Íhaldsflokkurinn hefir nú lagt mikla áherzlu á í 21/2 þing, þegar þetta er með talið. Hann hefir gengið mjög vel fram í því að reyna að skreyta sig með fjöðrum, sem hann hefir fengið að láni frá okkur, hann hefir tekið upp kröfur Alþýðuflokksins um jafnan rétt allra kjósenda og stjórnmalaskoðana, um 21 árs kosningaaldur og rétt fátæklinga. ég man það þó, að Íhaldsfl. var ekki vel við að færa aldurstakmarkið til kosningarréttar niður í 21 ár. Hann mátti ekki heyra það nefnt. En nú hefir hann tekið upp harða baráttu fyrir þessu, og þeir eru svo montnir af þessu íhaldsmennirnir, að þeir vita ekki, hvorum fætinum þeir eiga að stíga niður, hoppa upp og kunna sér ekki læti fyrir frjálslyndismonti. Ég man það líka, að þeir ætluðu af göflunum að ganga yfir því, að við vildum veita heim mönnum kosningarrétt, sem þegið höfðu fátækrastyrk. Þeir sögðu, að 90% af mönnum mundu hætta að vinna og lifa á fátækrastyrk, ef þetta yrði samþ. En nú þykir þeim þetta sjálfsagt. Ég man ennfremur, að þeim var svo illa við breytingu á kjördæmaskipuninni, að á þingi 1930 stóð form. flokksins upp við umr. um till. frá okkur jafnaðarmönnum um það mál í Sþ. og andmælti því, að farið væri að taka upp hlutfallskosningar eða uppbótarsæti. Nú er þetta þeim hið mesta hjartans áhugamál. Ég vona, að þeir standi nú við orð sín, þau hin síðari, og ég vona, að þeir haldi áfram að „hnupla“ okkar áhugamálum, fá lánaðar skrautfjaðrir hjá okkur. Því það er nú svo með okkur, eins litinn flokk og við erum ennþá, jafnaðarmenn, að hann á ekki annars kost en að bera fram sín mál og sínar hugsjónir með festu og vinna að því að gera þær vinsælar með þjóðinni. Þegar svo við höfum unnið nægilega mikinn hluta þjóðarinnar til fylgis við áhugamál okkar og hugsjónir, þora hinir stærri flokkarnir ekki annað en að taka málin upp, gera þau að sínum málum, af ótta við það, að ella snúi kjósendur baki við þeim. Að íhaldsmenn skreyta sig nú með lánuðum frjálslyndisfjöðrum er ágætur vottur um stórkostlegan árangur af starfi okkar Alþýðuflokksmanna og áhrifum kenninga þeirra, sem við flytjum. Ég vil gjarnan fá framhald á þessu og óska, að stóru flokkarnir hér haldi áfram að „hnupla“ áhugamálum okkar og koma þeim í framkvæmd, en þá að sjálfsögðu óbreyttum, en ekki eins og átt hefir sér stað með frv. þetta, að breyta meginatriðum þess til hins verra. Við hugsuðum okkur stóríbúðaskattinn sem kreppuráðstöfun og til húsnæðisbóta, að tekjum þeim, er hann gæfi, yrði varið til þess að byggja verkamannabústaði. Það er venja erlendis að nota það fé, sem fæst á þennan hátt, til þess að bæta húsakynni þeirra, er eiga við vondan húsakost að búa.

Út af þeim ummælum hv. þm. G.-K., að slíkur skattur sem þessi yrði til þess að draga úr byggingum, vil ég taka það fram, að ég tel ekki óhugsandi, að svo gæti farið. Var því í frv. okkar jafnaðarmanna ákvæði, sem sá við því, þar sem lagt var til, að það, sem byggt væri þau tvo ár, sem skattinum var ætlað að standa, skyldi vera skattfrjálst. Eins og hv. 3. þm. Reykv. tók fram, munum við jafnaðarmenn flytja brtt. við frv. Þetta við 2. umr., og er afstaða okkar til frv. undir því komin, hvernig þeim reiðir af.